Björn Teitsson 24. feb. 2021

Viðbrögð Krabbameinsfélagsins við hlutaúttekt Embættis landlæknis á Leitarstöð Krabbameinsfélagsins

Hlutaúttekt Embættis landlæknis er komin út en unnið hefur verið að henni síðan í september 2020. Krabbameinsfélagið fagnar því að niðurstöður liggi fyrir og þakkar embættinu fyrir samstarfið við gerð úttektarinnar. 

Krabbameinsfélagið fagnar því að nú liggja fyrir niðurstöður hlutaúttektar embættis landlæknis á starfsemi Leitarstöðvar Krabbameinsfélagsins sem hófst í september 2020.

Eins og fram kemur í úttektinni er árangur Íslands varðandi krabbamein í leghálsi með þeim besta sem gerist í heiminum, áþekkur árangri hinna Norðurlandanna. Þennan árangur má að verulegu leyti þakka starfi Leitarstöðvarinnar og þátttöku íslenskra kvenna í þeirri mikilvægu forvarnaraðgerð sem leghálsskimunin er.

Úttektir á við þessa eru liður í umbótastarfi og æskilegt væri að þær væru gerðar með reglubundnum hætti. Auknar gæðakröfur í heilbrigðisþjónustu eru alltaf af hinu góða, hvort sem er í forvörnum, greiningu eða meðferð. Í þessari úttekt koma fram ábendingar um aukið innra og ytra gæðaeftirlit. Á starfstíma Leitarstöðvarinnar gerði verkkaupi ekki athugasemdir um verklag eða gæðamál. Væri Leitarstöðin enn starfandi yrði að sjálfsögðu brugðist við ábendingunum í samstarfi við Embætti landlæknis. Í skýrslunni kemur fram að virkt innra gæðaeftirlit var til staðar á Leitarstöðinni en einnig tillaga um að efla það enn frekar.

Stuttar framlengingar þjónustusamnings Sjúkratrygginga við Krabbameinsfélagið um skimunina eru ítrekað nefndar í skýrslunni, sem hindrun fyrir þróun í starfseminni. Af sama leiddi að áhersla í starfi Leitarstöðvarinnar var mest á þjónustu við konurnar.

Á aukaaðalfundi Krabbameinsfélagsins, haustið 2018, var samþykkt að verða við ósk velferðarráðuneytisins um framlengingu þjónustusamnings Sjúkratrygginga Íslands við Krabbameinsfélagið. Framlengingunni fylgdi 50 milljón króna viðbótarframlag frá ráðuneytinu en til viðbótar samþykkti fundurinn að félagið legði 75 milljónir til leitarstarfsins út árið 2019. Ráðuneytið deildi vilja félagsins um að auka þátttöku kvenna í skimununum. Það markmið, aukin áhersla á gæðamál með því að auðvelda úrvinnslu tölfræðigagna til að greina betur árangur af skimuninni og úrbætur á aðgengi og aðbúnaði kvenna, meðal annars með rafrænum lausnum voru leiðarstef í starfi Leitarstöðvarinnar þar til starfseminni var hætt.

Mikill árangur náðist. Komum kvenna í skimun fjölgaði, skimunarsaga kvenna og allar niðurstöður urðu aðgengilegar rafrænt og mikil vinna var lögð í skilgreiningu gæðavísa og gæðauppgjör. Þeirri vinnu var ekki lokið en verður framhaldið í samstarfi Krabbameinsfélagsins og Embættis landlæknis.

Sú úttekt sem hér um ræðir var gerð í kjölfar alvarlegs atviks á Leitarstöðinni árið 2018. Krabbameinsfélagið harmar það atvik og afleiðingar þess.

Við lok úttektarinnar sendir Landlæknisembættið þakkir til Krabbameinsfélagsins fyrir gott starf og gifturíkan feril skimana. Upphaf leitarstarfsins árið 1964 var mikið frumkvöðlastarf sem leitt var af Ölmu Þórarinsson, fyrsta yfirlækni Leitarstöðvarinnar. Íslenskar konur flykktust í Gamla bíó og fylltu það í þrígang þar sem Alma bauð upp á fræðslu um leghálskrabbamein og skimun sem forvarnaraðgerð. Um var að ræða starf leitt af konum, fyrir konur.

Krabbameinsfélagið er stolt af starfi og árangri Leitarstöðvarinnar. Þar hefur starfsfólk unnið af heilindum og miklum metnaði og gerði það allt til áramóta, þegar Leitarstöðin hætti starfsemi og opinberar stofnanir tóku við skimunum fyrir krabbameinum.

Úttektin er mikilvægur leiðarvísir í áframhaldandi skimunarstarfi. Þótt það fari ekki fram innan veggja Krabbameinsfélagsins, lætur félagið sig gæði skimana varða. Félagið þakkar Landlæknisembættinu samstarfið við úttektina og óskar því, Landspítala, Sjúkrahúsinu á Akureyri og Heilsugæslunni, alls hins besta við framkvæmd skimana í framtíðinni.

Á 70 ára afmælisári horfir nú Krabbameinsfélagið fram á veginn og beitir sér áfram í þágu fólks með krabbamein og aðstandenda þeirra, sem og í rannsóknum, fræðslu, forvörnum og ráðgjöf. 


Fleiri nýjar fréttir

5. des. 2023 : Takk sjálfboðaliðar!

Í dag er alþjóðlegur dagur sjálfboðaliða og Krabbameinsfélagið vill nýta tækifærið og þakka öllum þeim fjölmörgu sjálfboðaliðum sem leggja sitt af mörkum í þágu félagsins. Í tilefni dagsins fengum við nokkra sjálfboðaliða til að segja okkur frá því hvers vegna þau velja að leggja baráttunni gegn krabbameinum lið.

Lesa meira

5. des. 2023 : Aðstoð við að velja mat sem eykur heilbrigði og vellíðan

Við þurfum hjálp! Ákall til matvælaframleiðenda og sölu- og markaðsaðila matvæla. Mörg fyrirtæki standa sig vel þegar kemur að markaðssetningu á mat og drykkjarvöru. Sum fyrirtæki sem bjóða upp á heilsueflandi mat en einnig mat- og drykkjarvörur sem geta haft neikvæð áhrif á heilsu hlífa til dæmis börnum við markaðssetningu á slíkum vörum.

Lesa meira

4. des. 2023 : Taktu þátt í skemmtilegum jólaleik

Litríkt, jólalegt og hollt á borðið þitt. Krabbameinsfélagið í samstarfi við Banana og Hagkaup óska eftir jólalegum útfærslum á framsetningu á grænmeti, ávöxtum og berjum til að nýta á jólaborðið eða veislubakkann. Veglegir vinningar í boði.

Lesa meira

4. des. 2023 : Kírópraktorstöðin styrkir Bleiku slaufuna

Kírópraktorstöðin afhenti á dögunum 500.000 krónur til Krabbameinsfélagsins. Upphæðin er afrakstur af einstaklega vel heppnuðu Konukvöldi sem þau stóðu fyrir í tilefni af Bleikum október. Krabbameinsfélagið þakkar kærlega fyrir stuðninginn, sem kemur að góðum notum.

Lesa meira

4. des. 2023 : Ný rannsókn styður við einstaklingssniðna meðferð

Ný íslensk rannsókn sem birtist í dag í npj Breast Cancer og var unnin í samstarfi Krabbameinsfélagsins við meinafræðideild og krabbameinslækningadeild Landspítala, og við Háskóla Íslands. 

Lesa meira

Var efnið hjálplegt?