Björn Teitsson 24. feb. 2021

Viðbrögð Krabbameinsfélagsins við hlutaúttekt Embættis landlæknis á Leitarstöð Krabbameinsfélagsins

Hlutaúttekt Embættis landlæknis er komin út en unnið hefur verið að henni síðan í september 2020. Krabbameinsfélagið fagnar því að niðurstöður liggi fyrir og þakkar embættinu fyrir samstarfið við gerð úttektarinnar. 

Krabbameinsfélagið fagnar því að nú liggja fyrir niðurstöður hlutaúttektar embættis landlæknis á starfsemi Leitarstöðvar Krabbameinsfélagsins sem hófst í september 2020.

Eins og fram kemur í úttektinni er árangur Íslands varðandi krabbamein í leghálsi með þeim besta sem gerist í heiminum, áþekkur árangri hinna Norðurlandanna. Þennan árangur má að verulegu leyti þakka starfi Leitarstöðvarinnar og þátttöku íslenskra kvenna í þeirri mikilvægu forvarnaraðgerð sem leghálsskimunin er.

Úttektir á við þessa eru liður í umbótastarfi og æskilegt væri að þær væru gerðar með reglubundnum hætti. Auknar gæðakröfur í heilbrigðisþjónustu eru alltaf af hinu góða, hvort sem er í forvörnum, greiningu eða meðferð. Í þessari úttekt koma fram ábendingar um aukið innra og ytra gæðaeftirlit. Á starfstíma Leitarstöðvarinnar gerði verkkaupi ekki athugasemdir um verklag eða gæðamál. Væri Leitarstöðin enn starfandi yrði að sjálfsögðu brugðist við ábendingunum í samstarfi við Embætti landlæknis. Í skýrslunni kemur fram að virkt innra gæðaeftirlit var til staðar á Leitarstöðinni en einnig tillaga um að efla það enn frekar.

Stuttar framlengingar þjónustusamnings Sjúkratrygginga við Krabbameinsfélagið um skimunina eru ítrekað nefndar í skýrslunni, sem hindrun fyrir þróun í starfseminni. Af sama leiddi að áhersla í starfi Leitarstöðvarinnar var mest á þjónustu við konurnar.

Á aukaaðalfundi Krabbameinsfélagsins, haustið 2018, var samþykkt að verða við ósk velferðarráðuneytisins um framlengingu þjónustusamnings Sjúkratrygginga Íslands við Krabbameinsfélagið. Framlengingunni fylgdi 50 milljón króna viðbótarframlag frá ráðuneytinu en til viðbótar samþykkti fundurinn að félagið legði 75 milljónir til leitarstarfsins út árið 2019. Ráðuneytið deildi vilja félagsins um að auka þátttöku kvenna í skimununum. Það markmið, aukin áhersla á gæðamál með því að auðvelda úrvinnslu tölfræðigagna til að greina betur árangur af skimuninni og úrbætur á aðgengi og aðbúnaði kvenna, meðal annars með rafrænum lausnum voru leiðarstef í starfi Leitarstöðvarinnar þar til starfseminni var hætt.

Mikill árangur náðist. Komum kvenna í skimun fjölgaði, skimunarsaga kvenna og allar niðurstöður urðu aðgengilegar rafrænt og mikil vinna var lögð í skilgreiningu gæðavísa og gæðauppgjör. Þeirri vinnu var ekki lokið en verður framhaldið í samstarfi Krabbameinsfélagsins og Embættis landlæknis.

Sú úttekt sem hér um ræðir var gerð í kjölfar alvarlegs atviks á Leitarstöðinni árið 2018. Krabbameinsfélagið harmar það atvik og afleiðingar þess.

Við lok úttektarinnar sendir Landlæknisembættið þakkir til Krabbameinsfélagsins fyrir gott starf og gifturíkan feril skimana. Upphaf leitarstarfsins árið 1964 var mikið frumkvöðlastarf sem leitt var af Ölmu Þórarinsson, fyrsta yfirlækni Leitarstöðvarinnar. Íslenskar konur flykktust í Gamla bíó og fylltu það í þrígang þar sem Alma bauð upp á fræðslu um leghálskrabbamein og skimun sem forvarnaraðgerð. Um var að ræða starf leitt af konum, fyrir konur.

Krabbameinsfélagið er stolt af starfi og árangri Leitarstöðvarinnar. Þar hefur starfsfólk unnið af heilindum og miklum metnaði og gerði það allt til áramóta, þegar Leitarstöðin hætti starfsemi og opinberar stofnanir tóku við skimunum fyrir krabbameinum.

Úttektin er mikilvægur leiðarvísir í áframhaldandi skimunarstarfi. Þótt það fari ekki fram innan veggja Krabbameinsfélagsins, lætur félagið sig gæði skimana varða. Félagið þakkar Landlæknisembættinu samstarfið við úttektina og óskar því, Landspítala, Sjúkrahúsinu á Akureyri og Heilsugæslunni, alls hins besta við framkvæmd skimana í framtíðinni.

Á 70 ára afmælisári horfir nú Krabbameinsfélagið fram á veginn og beitir sér áfram í þágu fólks með krabbamein og aðstandenda þeirra, sem og í rannsóknum, fræðslu, forvörnum og ráðgjöf. 


Fleiri nýjar fréttir

30. maí 2023 : Bylting - hálfur milljarður til krabbameinsrannsókna

Vísindasjóður Krabbameinsfélagsins hefur frá stofnun sjóðsins árið 2015 styrkt 41 krabbameinsrannsókn um samanlagt 384 miljónir króna. Næsta úthlutun úr sjóðnum verður í júní næstkomandi.

Lesa meira

30. maí 2023 : Krabbameinsskimanir – mikið fyrir lítið

Áratugir eru síðan skimanir fyrir legháls- og brjóstakrabbameini voru teknar upp á Íslandi. Þær hafa fyrir löngu sannað gildi sitt þó þær veiti aldrei fullkomna vörn. Konur hér á landi hafa með afgerandi hætti sýnt að þær kunna að meta aðgengi að þeim.

Lesa meira

30. maí 2023 : Á Ís­landi greinast um 1800 manns á hverju ári með krabba­mein

Þeir gætu verið færri. Þó að ekki sé hægt að koma í veg fyrir öll krabbamein sýna rannsóknir að áhættuþættir margra krabbameina tengjast lífsstíl. Með bættri lýðheilsu þjóðar er hægt að fækka verulega ákveðnum krabbameinum.

Lesa meira

28. maí 2023 : Lokað 30. maí í ráðgjafarþjónustu vegna vinnufundar ráðgjafarteymis

Lokaða verður hjá ráðgjafarþjónustu Krabbameinsfélagsins þriðjudaginn 30. maí vegna vinnufundar ráðgjafarteymis. Hægt er að senda fyrirspurnir og erindi á radgjof@krabb.is og er þeim svarað eins fljótt og hægt er.

Lesa meira

25. maí 2023 : Bjóðum Brakkasamtökin velkomin í hópinn

Á aðalfundi Krabbameinsfélagsins var staðfest ákvörðun stjórnar um aðild Brakkasamtakanna að Krabbameinsfélagi Íslands. Krabbameinsfélagið fagnar ákvörðun aðalfundarins og býður Brakkasamtökin velkomin í hópinn.

Lesa meira

Var efnið hjálplegt?