Sigriður Sólan Guðlaugsdóttir 17. sep. 2019

Vel heppnaður Velunnaradagur að baki

Síðastliðinn miðvikudag var opið hús í Krabbameinsfélaginu og þá var Velunnurum boðið í heimsókn í húsnæði félagsins að Skógarhlíð 8. 

Velunnarar eru þeir sem styðja félagið með mánaðarlegu fjárframlagi og gera því þannig kleift að halda úti fjölbreyttri starfsemi.

„Þetta eru máttarstólpar Krabbameinsfélagsins og Velunnurum verður seint fullþakkaður stuðningurinn,“ segir Halla Þorvaldsdóttir, framkvæmdastjóri Krabbameinsfélagsins: “Það var einstaklega gaman að sjá og hitta marga þeirra í eigin persónu í opna húsinu. Fólk sýndi mikinn áhuga og margir höfðu á orði að það leyndi sér ekki að starfsmenn brynnu fyrir því sem þeir væru að gera. Já, og fólk var almennt hissa á því hvað starfsemin væri fjölbreytt. Við hlökkum til að bjóða fleiri Velunnara velkomna í opið hús að ári.“

Helstu verkefni Krabbameinsfélagsins

Krabbameinsfélagi Íslands er ekkert óviðkomandi sem snýr að krabbameinum og er málsvari þeirra sem greinast með krabbamein og aðstandenda þeirra. Félagið er byggt upp af 30 aðildar- og svæðafélögum um allt land og stuðningshópum sjúklinga. Meðal markmiða þess er að stuðla að aukinni þekkingu og menntun um krabbamein og krabbameinsvarnir. Á síðustu þremur árum hefur 160 milljónum króna verið úthlutað til rannsókna á krabbameinum. Félagið rekur Leitarstöð fyrir stjórnvöld sem skimar fyrir brjósta- og leghálskrabbameinum og hefur lagt mikla undirbúningsvinnu í skimun fyrir ristilkrabbameini. Ókeypis ráðgjöf og stuðningur er veittur krabbameinsgreindum og aðstandendum þeirra hjá Ráðgjafarþjónustu félagsins, sem einnig stendur fyrir námskeiðum og fyrirlestrum og veitir upplýsingar um réttindamál sjúklinga. Í Reykjavík rekur félagið 8 íbúðir fyrir krabbameinsgreinda af landsbyggðinni sem þurfa að sækja meðferð eða rannsóknir í borginni.

Krabbameinsfélagið vinnur að bættum réttindum krabbameinsgreindra. Eftir áralangan þrýsting á stjórnvöld var krabbameinsáætlun loks samþykkt á árinu sem vænta má að verði forsenda margra framfaraskrefa í málaflokknum á næstunni.


Fleiri nýjar fréttir

1. mar. 2024 : Við erum að kalla þig út, kall!

Við fögnum framförum í greiningu og meðferð en best er auðvitað ef hægt er að koma í veg fyrir krabbamein. Vísindin vísa okkur leiðina og rannsóknir sýna að 30 til 40% krabbameina tengjast lífsstíl. Það þýðir að ýmsar lífsvenjur, t.d. tóbaksnotkun, áfengisneysla, hreyfingarleysi, mataræði og fleiri þættir geta haft áhrif á líkurnar á ákveðnum tegundum krabbameina.

Lesa meira

29. feb. 2024 : Köllum kalla þessa lands út!

Mottumars, árlegt árvekni- og fjáröflunarátak tileinkað krabbameinum hjá körlum hefst í dag. Kallaútkall er yfirskrift átaksins í ár þar sem lögð er áhersla á forvarnargildi hreyfingar. Regluleg hreyfing dregur úr hættunni á krabbameinum, en allt of margir karlmenn hreyfa sig ekki nóg til að njóta þessara verndandi áhrifa. Það þarf ekki nema örfáar mínútur af hreyfingu á dag til að ná fram jákvæðum áhrifum.

Lesa meira

28. feb. 2024 : Upp með sokkana og í Mottumarshlaupið 2024

Komdu með í fyrsta Mottumarshlaup Krabbameinsfélagsins sem haldið verður á hlaupársdeginum 29. febrúar. Við lofum stuði og stemmningu um leið og við hreyfum okkur til stuðnings góðum málstað!

Lesa meira

27. feb. 2024 : Sjöunda árið í röð fær forsetinn fyrsta parið

Forseta Íslands, hr. Guðna Th. Jóhannessyni hefur frá árinu 2018 verið afhent fyrsta parið af Mottumarssokkunum sem seldir eru til styrktar Krabbameinsfélaginu í Mottumars, árlegu árvekni- og fjáröflunarátaki sem tileinkað er krabbameinum hjá körlum. Forsetinn hefur sýnt verkefninu ómetanlegan stuðning í gegnum árin.

Lesa meira

27. feb. 2024 : Mottumarssokkarnir hannaðir af AS WE GROW

Það eru þær Gréta Hlöðversdóttir, Snæfríð Þorsteins og Kamilla Henriau sem eru hugmyndasmiðirnir og hönnuðirnir á bakvið sokkana sem eru einstaklega fallegir. 

Lesa meira

Var efnið hjálplegt?