Guðmundur Pálsson 10. des. 2017

Yfirlýsing vegna fréttar RUV

Yfirlýsing frá Krabbameinsfélagi Íslands vegna ásakana Kristjáns Oddssonar, fyrrverandi yfirlæknis og sviðsstjóra leitarsviðs félagsins, um að félagið hafi misnotað almannafé

Í kvöldfréttum RUV í kvöld var greint frá innihaldi minnisblaðs Kristjáns Oddssonar, fyrrverandi yfirlæknis og sviðsstjóra leitarsviðs Krabbameinsfélags Íslands sem hann sendi framkvæmdastjóra og stjórn Krabbameinsfélagsins í lok október. Kristján var sviðsstjóri og yfirlæknir leitarsviðs félagsins frá febrúar 2013 og gegndi auk þess stöðu forstjóra félagsins árið 2016. Í minnisblaðinu ber hann stjórn og framkvæmdastjóra félagsins þungum sökum. Af því tilefni telur félagið rétt að eftirfarandi komi fram.

Eins og fram kom í fréttum RÚV sakar Kristján félagið um að hafa notað Leitarstöðina til að efla aðra starfsemi félagsins og fórnað þannig heilsufarslegum hagsmunum kvenna. Enginn fótur er fyrir þessum órökstuddu fullyrðingum Kristjáns.

Ásakanir um meinta misnotkun opinbers fjár sem ætlað sé Leitarstöð en renni til óskyldrar félagastarfsemi eru alrangar. Krabbameinsfélagið sinnir skimun fyrir brjósta- og leghálskrabbameini fyrir stjórnvöld á grundvelli þjónustusamnings við Sjúkratryggingar Íslands. Sá samningur byggir á ítarlegri kröfulýsingu þar sem verkefnið er skilgreint, í hverju það felst, hvernig beri að framkvæma það o.s.frv. Engar greiðslur til viðbótar við samningsbundnar greiðslur berast félaginu fyrir utan komugjöld þeirra sem nota þjónustuna. Félagið uppfyllir þau skilyrði sem Sjúkratryggingar setja um reikningshald og bókhald og hefur að sjálfsögðu skilað endurskoðuðum ársreikningum eins og kveðið er á um.

Önnur starfsemi félagsins; ráðgjafarþjónusta, fræðslustarf og forvarnir, íbúðir fyrir sjúklinga utan af landi og vísindasjóður félagsins, svo eitthvað sé nefnt, er fjármögnuð með fjáröflunarátökum og framlögum reglulegra velunnara, en félagið nýtur mikillar velvildar almennings.

Leitarstarfið nýtur þess hins vegar að að vera á vegum félagsins og þannig var húsnæði Leitarstöðvarinnar til dæmis tekið í gegn fyrir nokkrum árum fyrir fjármagn sem félagið aflaði með fjáröflunum.

Félagið tekur undir áhyggjur Kristjáns af að þátttaka kvenna í skimun fyrir krabbameinum hafi farið minnkandi hér á landi en sér hins vegar mikil sóknarfæri í framtíðinni og hefur þegar sett af stað vinnu til að auka mætinguna. Þar þarf að horfa til margra þátta.

Krabbameinsfélagið hafði frumkvæði að skimun fyrir krabbameini á Íslandi fyrir mörgum áratugum síðan og hefur sinnt því starfi með góðum árangri. Engin sérstök rök hníga að því að það sé óskynsamlegt fyrirkomulag þegar um er að ræða þjónustu sem er nákvæmlega skilgreind af hálfu hins opinbera. Þvert á móti má færa fyrir því rök að félagasamtök hafi betri möguleika á að ná árangri í slíku starfi, m.a. með nýtingu fræðslu og kynningardeilda en stofnanir ríkisins sem eru bundnar af afar þröngum römmum. Mikilvægt er hins vegar að árétta að félagið ræður ekki fyrir hverju er skimað, hvenær eða hvernig. Slíkar ákvarðanir eru og verða alltaf á ábyrgð heilbrigðisyfirvalda.

Í frétt RÚV var farið rangt með að 3 af 5 stjórnendum á leitarsviði hefðu sagt upp störfum. Rétt er að nýverið hafa 3 af rúmlega 20 starfsmönnum leitarsviðs sagt upp störfum, þar af einn stjórnandi.

Halla Þorvaldsdóttir
framkvæmdastjóri Krabbameinsfélags Íslands


Fleiri nýjar fréttir

9. jún. 2023 : Láttu mig vita ef ég get gert eitthvað fyrir þig

Þegar einhver í kringum okkur greinist með krabbamein er eðlilegt að upplifa óöryggi. þótt flestir vilji leggja sitt af mörkum til að vera til staðar getur óttinn við að segja ekki réttu hlutina eða að vita ekki hvað á að segja leitt til þess að jafnvel verði minna samband við viðkomandi en áður.

Lesa meira

30. maí 2023 : Bylting - hálfur milljarður til krabbameinsrannsókna

Vísindasjóður Krabbameinsfélagsins hefur frá stofnun sjóðsins árið 2015 styrkt 41 krabbameinsrannsókn um samanlagt 384 miljónir króna. Næsta úthlutun úr sjóðnum verður í júní næstkomandi.

Lesa meira

30. maí 2023 : Krabbameinsskimanir – mikið fyrir lítið

Áratugir eru síðan skimanir fyrir legháls- og brjóstakrabbameini voru teknar upp á Íslandi. Þær hafa fyrir löngu sannað gildi sitt þó þær veiti aldrei fullkomna vörn. Konur hér á landi hafa með afgerandi hætti sýnt að þær kunna að meta aðgengi að þeim.

Lesa meira

30. maí 2023 : Á Ís­landi greinast um 1800 manns á hverju ári með krabba­mein

Þeir gætu verið færri. Þó að ekki sé hægt að koma í veg fyrir öll krabbamein sýna rannsóknir að áhættuþættir margra krabbameina tengjast lífsstíl. Með bættri lýðheilsu þjóðar er hægt að fækka verulega ákveðnum krabbameinum.

Lesa meira

28. maí 2023 : Lokað 30. maí í ráðgjafarþjónustu vegna vinnufundar ráðgjafarteymis

Lokaða verður hjá ráðgjafarþjónustu Krabbameinsfélagsins þriðjudaginn 30. maí vegna vinnufundar ráðgjafarteymis. Hægt er að senda fyrirspurnir og erindi á radgjof@krabb.is og er þeim svarað eins fljótt og hægt er.

Lesa meira

Var efnið hjálplegt?