Laufey Tryggvadóttir framkv.stj. Krabbameinsskráar 14. jún. 2017

Úttekt Krabbameinsskrár Krabbameinsfélagsins á nýgengi krabbameina í Reykjanesbæ

Nýgengi krabbameina í Reykjanesbæ árin 1997-2016 

Krabbameinsskrá Krabbameinsfélagsins hefur unnið úttekt vegna fyrirspurna varðandi nýgengi krabbameina í Reykjanesbæ

Inngangur

Íslendingar eru óvenju fámenn þjóð og alþekkt er að í litlum hópum má búast við miklum óstöðugleika þegar horft er á sjúkdómatíðni, eins og aðrar tölulegar upplýsingar.  Þegar línurit yfir nýgengi krabbameina á Íslandi eru borin saman við línurit frá öðrum löndum eru tilviljanasveiflur mjög áberandi eins og sést á myndinni hér fyrir neðan af nýgengi ristilkrabbameina hjá konum á Norðurlöndunum. Bláa línan er sú íslenska og tilviljanasveiflurnar hjá okkur eru greinilegar – mikil aukning og mikil lækkun milli ára - jafnvel þótt hér sé horft á þriggja ára meðaltöl og ristilkrabbamein sé meðal algengustu krabbameina.

Á undanförnum árum hefur Krabbameinsskrá Krabbameinsfélags Íslands fengið allnokkrar fyrirspurnir víðsvegar af landinu um óvenju mikinn fjölda krabbameinstilfella á tilteknum stöðum. Þetta hefur í hverju tilviki verið athugað eftir föngum og virðist helst vera um tilviljunarsveiflur að ræða, bundnar við stað og tíma. Við sjáum t.d. oft að lægra nýgengi var á viðkomandi stað næstu ár á undan og þessi fjöldi fyrirspurna frá hinum ýmsu stöðum á landinu þar sem nýgengi er ýmist hátt eða lágt sýnir vel mátt tilviljunarinnar. 

Vegna fámennisins er erfitt að greina marktækan mun milli staða á Íslandi, jafnvel þótt sá munur væri til staðar. Ákveðnir drættir hafa þó komið í ljós þegar heildarmyndin er skoðuð og almennt gildir að nýgengi krabbameina er hærra í Reykjavík og nágrenni en úti á landsbyggðinni. Þetta gæti skýrst af ólíkum lífsháttum, betra aðgengi að greiningu og skimun og því að fólk flytji til höfuðborgarsvæðisins þegar veikindi herja á. Svipuð tilhneiging er til staðar á hinum Norðurlöndunum, þ.e. að nýgengi er gjarnan hærra í borgum en á landsbyggðinni.

Reykjanesbær

Í tengslum við nýlega umræðu um mengun hafa Krabbameinsskránni borist fyrirspurnir varðandi nýgengi krabbameina í Reykjanesbæ og fer hér á eftir úttekt á því. Hjá Krabbameinsskránni miðast búseta við greiningardag og notast er við sveitarfélagskóða, en sveitarfélagið Reykjanesbær var stofnað í júní 1994. Vegna smæðar þýðisins var ákveðið að miða við 20 ára tímabil, en svo stórt tímabil gefur meiri stöðugleika og betri möguleika á að nema marktækan mun, ef hann er til staðar. Varð árabilið 1997-2016 fyrir valinu.

Niðurstöður

Samtals greindust rúmlega 1000 krabbamein í Reykjanesbæ á þessu 20 ára tímabili. Dreifing krabbameinanna var svipuð og á landsvísu, þ.e. hæst nýgengi krabbameina var í brjóstum kvenna og  blöðruhálskirtli karla, þar á eftir í lungum og ristli hjá báðum kynjum. Hjá körlum fylgdu síðan krabbamein í þvagvegum og nýrum en hjá konunum krabbamein í legbol og leghálsi og síðan heilaæxli. Önnur mein sem greindust í hinum ýmsu líffærum voru fátíðari.
Marktækur munur fannst fyrir lungnakrabbamein og krabbamein í leghálsi á tímabilinu 2007-2016. Nýgengi lungnakrabbameins var hærra í Reykjanesbæ en á landinu öllu. Nýgengið hjá konum í Reykjanesbæ var 54 á 100.000 íbúa miðað við 33 á öllu landinu og hjá körlum var nýgengi lungnakrabbameins í Reykjanesbæ 51 á 100.000 íbúa m.v. 32 á öllu landinu.
Nýgengi leghálskrabbameins var tvöfalt hærra í Reykjanesbæ en á landinu öllu eða 18 á 100.000 íbúa miðað við 9 á landinu öllu. 
Nýgengi tíðustu meinanna, þ.e. krabbameins í blöðruhálskirtli hjá körlum og brjóstum hjá konum var hins vegar nokkru lægra í Reykjanesbæ en á landinu öllu en munurinn var ekki marktækur.

Umræða 

Myndun krabbameina byggist á flókinni samverkan margra þátta sem ekki eru allir ljósir. Þó eru þekktir ýmsir mikilvægir áhættuþættir krabbameina og þar er öflugasti einstaki þátturinn tóbaksreykingar, en þær eru orsök 15% allra nýrra krabbameina og um 25% allra krabbameinsdauðsfalla. Þegar horft er til einstakra líffæra getur hlutfallið orðið mun hærra og er langhæst fyrir krabbamein í lungum, en reykingar valda 85% allra lungakrabbameina á Íslandi. 

Ákveðnar tegundir vörtuveira sem kallast HPV (Human Papilloma Virus) valda krabbameini í leghálsi. Sýking af völdum þeirra er mjög algeng og smitast með kynmökum. Líkaminn nær oftast að vinna bug á sýkingunni en í sumum tilvikum veldur hún leghálskrabbameini. Tóbaksreykingar eru einn þeirra þátta sem dregur úr hæfni líkamans til að vinna bug á sýkingunni. Skipulögð leit að leghálskrabbameini hefur komið í veg fyrir sjúkdóminn hjá hundruðum íslenskra kvenna og til viðbótar hófst svo árið 2011 bólusetning á Íslandi gegn HPV veirum til að draga úr hættu á myndun leghálskrabbameins. 

Samkvæmt upplýsingum frá Embætti landlæknis hefur jafnt og þétt dregið úr reykingum á Suðurnesjunum eins og á landinu öllu en reykingar hafa þó lengst af verið algengari þar en í öðrum heilbrigðisumdæmum og var tíðnin að jafnaði 10 prósentustigum hærri í Reykjanesbæ þar til á síðustu árum. Efri myndirnar tvær sýna landfræðilega dreifingu daglegra reykinga eftir heilbrigðisumdæmum árin 2007 og 2012 (Þróun tóbaksneyslu á Íslandi, Embætti Landlæknis 2016).

Línuritið hér að neðan sýnir þróun daglegra reykinga frá árinu 1989 fyrir Suðurnes, höfuðborgarsvæðið og landið allt (tölur frá Embætti landlæknis úr árlegum tóbakskönnunum meðal 15 ára og eldri).

Krabbameinsfélag Íslands hefur boðið öllum konum upp á leit að krabbameini/forstigi í leghálsi frá árinu 1964. Regluleg mæting í leghálskrabbameinsleit lækkar bæði dánartíðni og nýgengi meinsins vegna þess að forstig sem finnast eru fjarlægð svo þau ná ekki að verða að krabbameini. Mæting kvenna í Reykjanesbæ hefur á tímabilinu 1997-2016 verið lakari en að meðaltali á landinu öllu. Til dæmis, fyrir árin 1996, 2006 og 2016 var mætingin 59%, 55% og 58% í Reykjanesbæ, miðað við 66%, 61% og 68% á landinu öllu. 

Lokaorð

Athugun á nýgengi krabbameina eftir búsetu við greiningu sýnir svipað mynstur í Reykjanesbæ og á landinu öllu. Nýgengi krabbameins í lungum var þó marktækt hærra í Reykjanesbæ en á landinu öllu, sem sennilega orsakast af hárri tíðni reykinga í Reykjanesbæ, en 85% lungnakrabbameina orsakast af reykingum. Einnig er líklegt að hækkuð tíðni leghálskrabbameins tengist lágri mætingu í leit. Hins vegar er ekki hægt að útiloka að aðrar orsakir skýri einhvern hluta af hækkuðu nýgengi þessara tveggja gerða krabbameina. 

Þar sem reykingatíðni hefur dregist mjög saman í Reykjanesbæ síðustu áratugi, og jafnvel meira en á landsvísu, má búast við að talsvert dragi úr tíðni lungnakrabbameins og fleiri langvinnra sjúkdóma á næstu áratugum ef vel gengur að viðhalda þessum góða árangri.


Nánari upplýsingar veitir Laufey Tryggvadóttir, framkvæmdastjóri Krabbameinsskrár Krabbameinsfélags Íslands í síma 690 3766 eða í gegnum netfangið laufeyt@krabb.is  


Fleiri nýjar fréttir

19. ágú. 2022 : Enn styrkist þekkingargrunnurinn sem undirstrikar mikilvægi forvarna gegn krabbameinum

Niðurstöður nýrrar rannsóknar sem birtust í Lancet tímaritinu í vikunni benda til þess að í næstum helmingi tilfella dauðsfalla af völdum krabbameina megi rekja orsök meinanna til áhættuþátta sem koma mætti í veg fyrir. Á meðal þessara áhættuþátta eru þeir þrír helstu tóbaksreykingar, áfengisneysla og of mikil líkamsþyngd.

Lesa meira
Gunnar Ármannsson hlaupari

18. ágú. 2022 : Heilsufarsávinningur fyrir þig og leið til að styðja góð málefni - það gerist varla betra!

Í gegnum áratugina hefur Reykjavíkurmaraþonið verið hvati margra til að fara að stunda regluleg hlaup og göngur sem er sannarlega frábært því að þeir sem stunda reglulega hreyfingu draga úr líkum á krabbameinum og fjölda annarra sjúkdóma.

Lesa meira

10. ágú. 2022 : Meðvera ný samskiptagátt bætir þjónustu við krabbameinssjúklinga

Krabbameinsfélagið er afar stolt af því að hafa átt þátt í að koma þessu þarfa verkefni á laggirnar. Það var brýnt að finna nýjar og nútímalegri leiðir til að tryggja og efla samskipti milli fagfólks og þeirra sem eru í krabbameinsmeðferð.

Lesa meira

9. ágú. 2022 : Embætti landlæknis og Krabbameinsfélagið endurnýja þjónustusamning um Krabbameinsskrá

Halla Þorvaldsdóttir, framkvæmdastjóri Krabbameinsfélagsins segir það mikið ánægjuefni að gengið hafi verið frá áframhaldandi samkomulagi um rekstur skrárinnar sem hefur verið starfrækt hjá félaginu af mikilli fagmennsku í nærri 70 ár. Það er trú okkar að með því að hún sé hluti af Rannsókna- og skráningarsetri félagsins séu bæði gæði og hagnýting skrárinnar sem best tryggð“ segir Halla.

Lesa meira

12. júl. 2022 : Slökkviliðsstörf eru krabbameinsvaldandi

Alþjóðlega krabbameinsrannsóknarstofnunin (IARC), hefur breytt hættu­flokk­un starfs slökkviliðsmanna í staðfest krabba­meinsvald­andi varðandi krabbamein í fleiðru og krabbamein í þvagblöðru.

Lesa meira

Var efnið hjálplegt?