Sigriður Sólan Guðlaugsdóttir 9. okt. 2020

Upplýsingagjöf til kvenna í kjölfar skimana

Komi fram afbrigðilegar niðurstöður úr skimun fer af stað ákveðið ferli þar sem ítrekað er reynt er að koma upplýsingum til viðeigandi kvenna. 

Skimun fyrir krabbameinum er lýðgrunduð rannsókn á heilbrigðum konum, sem ætlað er að koma í veg fyrir dauðsföll af völdum krabbameina.

Konum er boðin skimun með reglubundnum hætti, bréflega og rafrænt á island.is. Reynt er að haga kynningarstarfi þannig að þátttaka sé sem mest, þó þannig að upplýsingar um ávinning og áhættu séu til staðar. Konur velja sjálfar hvort þær nýta sér boð í skimun eða ekki.

Heilbrigðisyfirvöld hafa falið Leitarstöð Krabbameinsfélagsins að sinna skimuninni og starfið byggir á kröfulýsingu og þjónustusamningi. Þar kemur fram að upplýsa beri konur um afbrigðilegar niðurstöður en ekki eðlilegar niðurstöður.

Almennt gilti að konur fengu upplýsingar um afbrigðilegar niðurstöður úr leghálsskimun bréfleiðis. Þar komu fram upplýsingar um frekara eftirlit eða viðbrögð eftir atvikum. Frá febrúar 2020 eru svarbréf send rafrænt inn á mínar síður island.is, óháð niðurstöðunni. Frá árinu 2018 hefur skimunarsaga kvenna frá árinu 2006 verið aðgengileg á mínum síðum island.is . Þar geta konur flett upp hvenær þær fengu boð í skimun og hvenær og hvar þær mættu. Aðgangur á island.is er háður því að konur hafi rafræn skilríki eða íslykil. Hvort tveggja, rafræn svarbréf og skimunarsaga kvenna er aukin þjónusta Leitarstöðvarinnar við konur og er hún umfram það sem samningur Sjúkratrygginga við Leitarstöðina gerir ráð fyrir.

Tilkynningar og ítrekanir til kvenna

Mikið er lagt upp úr því að ná til kvenna en það tekst ekki í öllum tilvikum. Fyrir því geta verið ýmsar ástæður, til dæmis þær að konur hafi flutt erlendis. Í þeim tilvikum má sem betur fer oftast nær gera ráð fyrir að konur falli inn í lýðgrunduð skimunarprógrömm hvers lands.

Þær konur sem hafa fengið bréf um að niðurstöður skimunar kalli á frekara eftirlit fá send áminningarbréf í pósti um að bóka sér tíma, þremur vikum fyrir ráðlagt eftirlit. Þær sem hafa ekki mætt í eftirlit þremur mánuðum eftir ráðlagt eftirlit fá sent ítrekunarbréf um að panta sér tíma. Þær konur sem hafa ekki mætt í eftirlit átta mánuðum eftir ráðlagt eftirlit fá sent lokabréf (að teknu tilliti til ákveðinna þátta svo sem þungunar og flutnings lögheimilis erlendis) og sinni þær ekki eftirliti í kjölfar tveggja slíkra bréfa fá þær aftur send reglubundin boð í skimun.

Þegar konum er ráðlagt að panta sér tíma í leghálsspeglun eftir leghálsskimun fara þær á eftirlitslista þremur mánuðum eftir skimunina ef þær hafa ekki þegar bókað sér tíma. Haft er samband við kvensjúkdómalækna þeirra kvenna sem hafa farið í skimun hjá þeim en ekki enn farið í speglun. Í flestum tilvikum hefur viðkomandi læknir samband við konuna en í sumum tilfellum deildarstjóri Leitarstöðvar.

Deildarstjóri hringir í aðrar konur og bókar í speglun þegar í þær næst.

Ef ekki hefur náðst í konur í 6 mánuði fá þær sent ábyrgðarbréf heim.

Konur eru á þessum lista þar til náðst hefur í þær og niðurstaða speglunar hefur verið skráð. Ef upplýsingar fást um að speglun hafi verið framkvæmd erlendis er það einnig skráð í gögn Leitarstöðvar. Í slíkum tilfellum fær kona sent almennt boð ef hún flytur aftur til landsins.

Árangur af bréfasendingum og símhringingum er háður því að konur séu með skráð rétt heimilisfang og síma. 


Fleiri nýjar fréttir

9. jún. 2023 : Láttu mig vita ef ég get gert eitthvað fyrir þig

Þegar einhver í kringum okkur greinist með krabbamein er eðlilegt að upplifa óöryggi. þótt flestir vilji leggja sitt af mörkum til að vera til staðar getur óttinn við að segja ekki réttu hlutina eða að vita ekki hvað á að segja leitt til þess að jafnvel verði minna samband við viðkomandi en áður.

Lesa meira

30. maí 2023 : Bylting - hálfur milljarður til krabbameinsrannsókna

Vísindasjóður Krabbameinsfélagsins hefur frá stofnun sjóðsins árið 2015 styrkt 41 krabbameinsrannsókn um samanlagt 384 miljónir króna. Næsta úthlutun úr sjóðnum verður í júní næstkomandi.

Lesa meira

30. maí 2023 : Krabbameinsskimanir – mikið fyrir lítið

Áratugir eru síðan skimanir fyrir legháls- og brjóstakrabbameini voru teknar upp á Íslandi. Þær hafa fyrir löngu sannað gildi sitt þó þær veiti aldrei fullkomna vörn. Konur hér á landi hafa með afgerandi hætti sýnt að þær kunna að meta aðgengi að þeim.

Lesa meira

30. maí 2023 : Á Ís­landi greinast um 1800 manns á hverju ári með krabba­mein

Þeir gætu verið færri. Þó að ekki sé hægt að koma í veg fyrir öll krabbamein sýna rannsóknir að áhættuþættir margra krabbameina tengjast lífsstíl. Með bættri lýðheilsu þjóðar er hægt að fækka verulega ákveðnum krabbameinum.

Lesa meira

28. maí 2023 : Lokað 30. maí í ráðgjafarþjónustu vegna vinnufundar ráðgjafarteymis

Lokaða verður hjá ráðgjafarþjónustu Krabbameinsfélagsins þriðjudaginn 30. maí vegna vinnufundar ráðgjafarteymis. Hægt er að senda fyrirspurnir og erindi á radgjof@krabb.is og er þeim svarað eins fljótt og hægt er.

Lesa meira

Var efnið hjálplegt?