Birna Þórisdóttir 11. feb. 2020

Upp með sokkana og í Karlahlaupið

Við skorum á þig að taka þátt í Karlahlaupi Krabbameinsfélagsins í Mottumars. Saman tökum við 5000 skref í rétta átt. Hér eru praktískar upplýsingar um hlaupið og undirbúning. 

Hvernig fer hlaupið fram?

Hlaupið markar upphaf Mottumars og er haldið sunnudaginn 1. mars. Það verður ræst klukkan 11 frá Hörpu. Hlaupið er austur eftir Sæbraut og til baka, alls 5 kílómetra. Upplýsingar um upphitun og dagskrá áður en hlaupið hefst koma síðar.

Hlaupstjóri er Inga Dís Karlsdóttir og henni til ráðgjafar eru Friðrik Ármann Guðmundsson og Torfi H. Leifsson.

Undirbúningur er hafinn í nokkrum sveitafélögum sem ætla að halda sitt eigið hlaup, nánari upplýsingar munu koma hér.

Hvar skrái ég mig?

Skráning fer fram á mottumars.is/karlahlaupid. Skráningargjald er 4500 krónur fyrir fullorðna og 2500 krónur fyrir 17 ára og yngri. Innifaldir í skráningargjaldinu eru Mottumars-sokkarnir 2020 sem hannaðir eru af Gunnari Hilmarssyni, yfirhönnuði hjá Kormáki og Skildi.

Hvers vegna Karlahlaup?

Rannsóknir sýna með afgerandi hætti að hreyfing dregur úr líkum á því að við fáum krabbamein. Einnig vegnar þeim betur eftir greiningu krabbameins sem hreyfa sig fyrir og/eða eftir greiningu. Krabbameinsfélagið mælir með að allir hreyfi sig að minnsta kosti í hálftíma á dag.

Við viljum að orðum fylgi gjörðir og því stöndum við fyrir Karlahlaupinu í Mottumars til að vekja athygli á því að það skiptir máli að hreyfa sig og hvetja alla til að sameinast í hreyfingu.

Er þetta fyrir mig?

Hlaupið hentar öllum, ungum og öldnum, reyndum hlaupurum og þeim sem eru óvanir eða jafnvel að stíga sín fyrstu skref í almenningshlaupi. Hægt er að hlaupa hratt og hægt, ganga alla leið eða blanda saman göngu og hlaupum og meira að segja stytta sér leið. Tímataka er í boði fyrir þá sem það vilja. Aðal málið er að þú takir þátt á þínum forsendum.

Hlaupið er sérstaklega hugsað fyrir karla en konur eru að sjálfsögðu einnig velkomnar. Endilega hvetjið vini ykkar og fjölskyldu til að taka þátt með ykkur:

„Við hvetjum klíkur af öllum stærðum og gerðum, gengi, vinahópa, félagsmenn og fleiri hópa til að mæta undir eigin „flaggi og fána” og setja þannig skemmtilegan svip á þennan tímamótaviðburð,“ segir Halla Þorvaldsdóttir, framkvæmdastjóri Krabbameinsfélagsins.

Hvernig undirbý ég mig?

Besti undirbúningurinn er einfaldlega að reima á sig skóna og fara út að ganga eða hlaupa! Betra er að fara rólega af stað og hreyfa sig daglega (eða næstum því) heldur en að fara of geyst og lenda í ógöngum. Krabbameinsfélagið er í samstarfi við Torfa H. Leifsson varðandi undirbúning fyrir hlaupið.

  • Hver er Torfi? Torfi H. Leifsson hefur stundað hlaup í meira en 25 ár, er umsjónarmaður vefsins www.hlaup.is og hefur staðið fyrir hlaupanámskeiðum um árabil.

 Ef þú vilt æfa sjálfur eftir plani þá bendum við á Æfingaáætlun A fyrir byrjendur – Undirbúningur fyrir 5K hlaup/göngu frá hlaup.is. Markmið æfingaáætlunarinnar er að gera þeim, sem ekki hafa stundað hlaup eða aðra líkamsrækt reglulega áður, kleift að hlaupa 5 km samfleytt eftir 10 vikna þjálfun. Nú eru einungis rúmar tvær vikur í Karlahlaupið en það skemmtilega er að þó þú sért bara að fylgja planinu í viku 1-4 þá verðum við með hlaupastjóra (svokallaða „héra“) sem fylgja því plani, þ.e. hlaupa og ganga til skiptis, alla 5 kílómetrana.

Þú getur líka mætt á ókeypis undirbúningsnámskeið hjá Torfa fyrir Karlahlaupið. Það er hugsað fyrir reynda sem óreynda hlaupara og farið yfir það helsta sem hafa þarf í huga í tengslum við hlaup og hvernig best er að fara af stað. Fjallað verður um ýmis hagnýt atriði í fyrirlestri og einnig farið á innanhúss hlaupabraut og hugað að upphitun, teygjum og hlaupunum sjálfum. Námskeiðið verður haldið sunnudaginn 23. febrúar kl. 10:30-12:00 í Laugardalshöll. Taktu skref í rétta átt og skráðu þig núna.

Þarf ég sérstakan vetrarbúnað?

Hlaupið verður á Sæbrautinni, á sjálfri götunni, sem verður rudd og söltuð ef veðrið skyldi krefjast þess (þó við vonumst að sjálfsögðu eftir góðu veðri). Því ætti vel að duga að vera í venjulegum íþróttaskóm. Þú þarft hvorki að fjárfesta í utanvegahlaupaskóm með vatnsvörn og grófum botni, hlaupabroddum né endurskinsvesti fyrir sjálft Karlahlaupið, þó það gæti komið sér vel í undirbúningnum eða ef þú heldur áfram að hlaupa/ganga í kjölfarið.

Hvernig vel ég hlaupaskó?

Almennt er mikilvægt að vera á góðum hlaupaskóm með góða dempun sem minnkar höggið sem kemur upp fótinn við hlaup eða röska göngu og dregur þannig úr álagi á hné og aðra hluta líkamans. Góðir hlaupaskór auka vellíðan og minnka til muna líkur á meiðslum. Algengt er að góðir hlaupaskór kosti í kringum 20 þúsund krónur en það er fjárfesting sem er fljót að borga sig ef skórnir eru notaðir reglulega við hlaup, göngu eða aðra hreyfingu. Starfsmenn í íþróttavöruverslunum geta oft gefið góð ráð varðandi val á hlaupaskóm og ef óvanir ætla að hlaupa eða saga er um verki við hlaup getur borgað sig að fara í göngu- eða hlaupagreiningu.

Hvernig á ég að klæða mig?

Klæddu þig í hvaða íþróttaföt sem þér líður vel í, auk þess skaltu taka veðrið þann 1. mars með í reikninginn. Líklegt er að þér hitni eitthvað á leiðinni og algengustu mistökin eru að klæða sig of mikið. Í hlaupinu verða jólasveinar og fleiri kynjaverur og þér er líka meira en velkomið að hlaupa í „búningi“ eða öðrum skemmtilegum fatnaði... láttu hugmyndaflugið ráða för!

Lokanir

Lokanir vegna Karlahlaupsins verða frá kl. 10.00 - 12.30, nánri upplýsingar um lokanir má nálgast hér.

Fjölmennum í Karlahlaupið!

Fleiri góð ráð, meðal annars um teygjur, styrktaræfingar, skipulagið, markmið og fleira, má fá í pistli eftir Torfa á hlaup.is: Nokkur heilræði fyrir þá sem eru að byrja að hlaupa.

Við hvetjum þig til að taka þátt í Karlahlaupinu og hvetja þína menn (og konur) til að taka þátt líka. Taktu 5000 skref í rétta átt og skráðu þig núna í hlaupið!

Að lokum vonumst við auðvitað til þess að Karlahlaupið nýtist þér sem hvatning til áframhaldandi virkni. Regluleg hreyfing er mikilvægur þáttur í að draga úr líkum á krabbameinum!


  • Í Borgarnesi stendur Krabbameinsfélag Borgarfjarðar fyrir Karlahlaupi  kl. 11-14
    Nánari upplýsingar og skráning í síma: 865-3899 eða á netfangið.

  • FRESTAÐ Á Hólamavík - hlaupið verður frá Íþróttamiðstöðinni á Hólmavík. Sokkarnir verða seldir á staðnum.



Karlahlaupið 2020


Fleiri nýjar fréttir

30. maí 2023 : Bylting - hálfur milljarður til krabbameinsrannsókna

Vísindasjóður Krabbameinsfélagsins hefur frá stofnun sjóðsins árið 2015 styrkt 41 krabbameinsrannsókn um samanlagt 384 miljónir króna. Næsta úthlutun úr sjóðnum verður í júní næstkomandi.

Lesa meira

30. maí 2023 : Krabbameinsskimanir – mikið fyrir lítið

Áratugir eru síðan skimanir fyrir legháls- og brjóstakrabbameini voru teknar upp á Íslandi. Þær hafa fyrir löngu sannað gildi sitt þó þær veiti aldrei fullkomna vörn. Konur hér á landi hafa með afgerandi hætti sýnt að þær kunna að meta aðgengi að þeim.

Lesa meira

30. maí 2023 : Á Ís­landi greinast um 1800 manns á hverju ári með krabba­mein

Þeir gætu verið færri. Þó að ekki sé hægt að koma í veg fyrir öll krabbamein sýna rannsóknir að áhættuþættir margra krabbameina tengjast lífsstíl. Með bættri lýðheilsu þjóðar er hægt að fækka verulega ákveðnum krabbameinum.

Lesa meira

28. maí 2023 : Lokað 30. maí í ráðgjafarþjónustu vegna vinnufundar ráðgjafarteymis

Lokaða verður hjá ráðgjafarþjónustu Krabbameinsfélagsins þriðjudaginn 30. maí vegna vinnufundar ráðgjafarteymis. Hægt er að senda fyrirspurnir og erindi á radgjof@krabb.is og er þeim svarað eins fljótt og hægt er.

Lesa meira

25. maí 2023 : Bjóðum Brakkasamtökin velkomin í hópinn

Á aðalfundi Krabbameinsfélagsins var staðfest ákvörðun stjórnar um aðild Brakkasamtakanna að Krabbameinsfélagi Íslands. Krabbameinsfélagið fagnar ákvörðun aðalfundarins og býður Brakkasamtökin velkomin í hópinn.

Lesa meira

Var efnið hjálplegt?