Sigriður Sólan Guðlaugsdóttir 6. feb. 2019

Unnu bíl í jólahappdrætti Krabbameinsfélagsins

Sonja Eyfjörð Skjaldardóttir á Selfossi er heppinn greiðandi miða í jólahappdrætti Krabbameins­félagsins 2018. Hún fékk nýlega afhentan nýjan sjálfskiptan Peugeot 3008 Allure, að andvirði um 4,5 milljóna króna. Þetta var einn af 286 skattfrjálsum vinningum í happdrættinu. 

„Þetta er í fyrsta sinn sem við eignumst nýjan bíl og maður á ekki orð yfir það hvað maður er heppinn. Það rignir hreinlega yfir mann hamingjuóskum,“ segir Sonja um vinninginn og bætir við að hún hafi átt erfitt með að trúa því að hún hafi unnið þegar hringt var í hana: „Við leigðum einmitt svona bíl þegar við vorum á ferðalagi í útlöndum síðasta sumar og höfðum oft á orði í ferðinni hvað við værum hrifin af honum.“

Guðlaug B. Guðjónsdóttir, framkvæmdastjóri Krabbameinsfélags höfuðborgarsvæðisins, sem sér um happdrættið, segir að greiðendur miða á Suðurlandi hafi verið mjög heppnir í útdrættinum, en þeir voru um fjórðungur vinningshafa.

Tekjum af happdrætti Krabbameinsfélagsins hefur fyrst og fremst verið varið til fræðslu um krabbamein og krabbameins­varnir, útgáfu fræðslurita og stuðnings við krabbameinssjúklinga. Stuðningur við happdrættið hefur gert félaginu kleift að halda uppi öflugu fræðslustarfi í þágu þjóðarinnar. Krabbameinsfélag höfuðborgarsvæðisins hefur umsjón með framkvæmd og rekstri happ­drættis Krabbameinsfélagsins.

Krabbameinsfélagið vill þakka landsmönnum fyrir góðan stuðning í jólahappdrættinu, óskar öllum vinningshöfum innilega til hamingju með vinningana og starfsfólki bílaumboðins Brimborgar fyrir sérlega gott samstarf.

Við afhendingu vinningsins. Á myndinni eru frá hægri, Guðlaug B. Guðjónsdóttir framkvæmdastjóri Krabbameinsfélags höfuðborgarsvæðisins, Benný Ósk Harðardóttir sölustjóri hjá Brimborg, vinningshafinn Sonja Eyfjörð Skjaldardóttir og eiginmaður hennar Matthías Bjarnason. 

 


Fleiri nýjar fréttir

5. des. 2023 : Takk sjálfboðaliðar!

Í dag er alþjóðlegur dagur sjálfboðaliða og Krabbameinsfélagið vill nýta tækifærið og þakka öllum þeim fjölmörgu sjálfboðaliðum sem leggja sitt af mörkum í þágu félagsins. Í tilefni dagsins fengum við nokkra sjálfboðaliða til að segja okkur frá því hvers vegna þau velja að leggja baráttunni gegn krabbameinum lið.

Lesa meira

5. des. 2023 : Aðstoð við að velja mat sem eykur heilbrigði og vellíðan

Við þurfum hjálp! Ákall til matvælaframleiðenda og sölu- og markaðsaðila matvæla. Mörg fyrirtæki standa sig vel þegar kemur að markaðssetningu á mat og drykkjarvöru. Sum fyrirtæki sem bjóða upp á heilsueflandi mat en einnig mat- og drykkjarvörur sem geta haft neikvæð áhrif á heilsu hlífa til dæmis börnum við markaðssetningu á slíkum vörum.

Lesa meira

4. des. 2023 : Taktu þátt í skemmtilegum jólaleik

Litríkt, jólalegt og hollt á borðið þitt. Krabbameinsfélagið í samstarfi við Banana og Hagkaup óska eftir jólalegum útfærslum á framsetningu á grænmeti, ávöxtum og berjum til að nýta á jólaborðið eða veislubakkann. Veglegir vinningar í boði.

Lesa meira

4. des. 2023 : Kírópraktorstöðin styrkir Bleiku slaufuna

Kírópraktorstöðin afhenti á dögunum 500.000 krónur til Krabbameinsfélagsins. Upphæðin er afrakstur af einstaklega vel heppnuðu Konukvöldi sem þau stóðu fyrir í tilefni af Bleikum október. Krabbameinsfélagið þakkar kærlega fyrir stuðninginn, sem kemur að góðum notum.

Lesa meira

4. des. 2023 : Ný rannsókn styður við einstaklingssniðna meðferð

Ný íslensk rannsókn sem birtist í dag í npj Breast Cancer og var unnin í samstarfi Krabbameinsfélagsins við meinafræðideild og krabbameinslækningadeild Landspítala, og við Háskóla Íslands. 

Lesa meira

Var efnið hjálplegt?