Sigriður Sólan Guðlaugsdóttir 28. jún. 2019

Tvöfalt fleiri konur mæta í skimun þegar hún er ókeypis

  • Guðrún Birgisdóttir, geislafræðingur, í brjóstamyndatöku á Leitarstöð 2019.

Fjöldi 23ja ára kvenna sem koma í fyrsta sinn í leghálsskimun og 40 ára kvenna sem koma í brjóstaskimun í fyrsta sinn hefur rúmlega tvöfaldast með nýju tilraunaverkefni Krabbameinsfélagsins sem býður konunum skimunina sér að kostnaðarlausu í ár. 

Stærstur hluti kvennanna segir að gjaldfrjáls skimun hafi hvatt þær til að taka þátt. Fyrstu fimm mánuði ársins hafa rúmlega tvöfalt fleiri konur mætt í fyrstu skimun en á sama tímabili síðasta árs.

Síðustu áratugi hefur heldur dregið úr þátttöku kvenna í brjósta- og leghálsskimunum. Margt spilar þar inn í, meðal annars greiðsluþátttaka kvenna. Krabbameinsfélagið ákvað á þessu ári að gera tilraun og bjóða ákveðnum hópum skimun þeim að kostnaðarlausu og gera um leið könnun á því hvort kostnaðurinn skipti máli. Könnunin leiðir í ljós sterkar vísbendingar um að greiðsla fyrir skimun hindri umtalsverðan hóp kvenna í að nýta sér skimunina.

Almennt greiða konur 4.700 krónur fyrir leghálsskimun. Gjaldið er ákvarðað af stjórnvöldum. Tilraunin er alfarið fjármögnuð af Krabbameinsfélaginu og stendur út árið 2019.

Aldur skiptir máli

Konur sem eru í fyrsta sinn boðaðar í leghálsskimun eru 23 ára, fæddar 1996, og þær njóta góðs af verkefninu. Í könnuninni kom fram að 95% þeirra sem tóku þátt sögðu ókeypis skimun hafa hvatt þær til að mæta. Konur eru eldri þegar þær eru fyrst boðaðar í brjóstaskimun, eða 40 ára, og nær verkefnið til kvenna sem fæddar eru 1979. 70% þeirra sögðu að gjaldfrjáls skimun hefði hvatt þær til að taka þátt. Þá sögðu 23% (82 konur) sem svöruðu könnuninni um leghálsskimun og 9% (29 konur) sem svöruðu um brjóstaskimun að þær hefðu ekki komið hefðu þær þurft að borga.

Árangurinn af tilraunaverkefninu fyrstu fimm mánuði ársins er mjög mikill því rúmlega tvöfalt fleiri 23ja ára konur, eða 557 hafa þegið boð um leghálsskimun á þessu ári miðað við 277 í fyrra. Í brjóstaskoðunum hefur komum 40 ára kvenna fjölgað úr 254 í 572 á tímabilinu. Rannsóknir sýna að konur sem mæta í fyrsta sinn í skimun eru líklegri til að mæta reglulega eftir það þegar þær fá boð í skimun.

„Þetta staðfestir það sem við höfum lengi haldið fram, að kostnaður við skimunina skipti máli. Krabbameinsfélagið telur afar mikilvægt að skimun verði gerð gjaldfrjáls, líkt og hún er í langflestum nágrannalöndunum, einkum til að tryggja jafnt aðgengi að skimun,“ segir Halla Þorvaldsdóttir, framkvæmdastjóri Krabbameinsfélagsins. „Heilbrigðisráðherra hefur lýst því yfir að hún ætli að gera skimunina gjaldfrjálsa, við söknum þess að ráðherra hafi ekki tilgreint hvenær, en treystum því að það verði fljótlega og hlökkum mjög til að heyra hvenær við getum útfært það, konum í landinu til heilla.”

Með skimun fyrir leghálskrabbameini er nánast hægt að koma í veg fyrir sjúkdóminn greinist hann á forstigi og með skimun fyrir brjóstakrabbameini er hægt að draga verulega úr dauðsföllum greinist meinið á byrjunarstigi.

„Það er virkilega ánægjulegt að sjá þann góða árangur sem þetta verkefni virðist vera að skila. Að auki eru langtímamarkmið og fleiri aðgerðir í þá veru að auka þátttöku kvenna í skimun að skila sér. Árangur er fram úr okkar björtustu vonum og við hlökkum til að gera enn betur grein fyrir honum,” segir Halla.


Fleiri nýjar fréttir

28. nóv. 2023 : Taktu þátt í skemmtilegum jólaleik

Litríkt, jólalegt og hollt á borðið þitt. Krabbameinsfélagið í samstarfi við Banana og Hagkaup óska eftir jólalegum útfærslum á framsetningu á grænmeti, ávöxtum og berjum til að nýta á jólaborðið eða veislubakkann. Veglegir vinningar í boði.

Lesa meira
Ljósmynd: Thule Photos

28. nóv. 2023 : Dýrmætt að vita að maður stendur ekki einn í þessu

Flestir sem hafa upplifað það að missa einhvern náinn sér eru líklega sammála um að sorgin er erfið og þungbær. Sorg barna er sérstaklega vandmeðfarin og það getur skipt máli fyrir úrvinnslu þeirra að fá réttan stuðning frá nærsamfélaginu. Hannes missti eiginkonu sína úr krabbameini árið 2022, en þau áttu tvær dætur saman. Hann segir hér frá sorgarúrvinnslunni og helstu úrræðum sem þau feðgin hafa nýtt sér, en þar á meðal er stuðningur Krabbameinsfélagsins við börn sem missa foreldri.

Lesa meira

28. nóv. 2023 : „Mig langaði til að taka þessa byrði og bera hana sjálf“

Rakel Ósk Þórhallsdóttir, eigandi vefverslunarinnar Central Iceland, hefur undanfarin þrjú ár stutt dyggilega við Bleiku slaufuna, en í heildina telur framlag hennar 7.385.000 kr. Rakel segir hér frá drifkraftinum á bak við verkefnið, en hún hefur persónulega tengingu við málstaðinn.

Lesa meira

23. nóv. 2023 : Fulltrúar Krabbameinsfélagsins á faraldsfæti

Um þessar mundir stendur Krabbameinsfélagið fyrir átaksverkefni sem miðar að því að fjölga í þeim góða hópi Velunnara sem styðja þétt við bakið á félaginu með mánaðarlegum framlögum. Í nóvember heimsækjum við Selfoss.

Lesa meira

22. nóv. 2023 : Jóla­happ­drætti: Stuðn­ingur við marg­þætta starf­semi

Dregið verður 24. desember í jólahappdrætti Krabba­meins­félagsins.  Vinningar eru 284 talsins að verðmæti rúmar 55 milljónir króna.

Lesa meira

Var efnið hjálplegt?