Sigriður Sólan Guðlaugsdóttir 28. jún. 2019

Tvöfalt fleiri konur mæta í skimun þegar hún er ókeypis

  • Guðrún Birgisdóttir, geislafræðingur, í brjóstamyndatöku á Leitarstöð 2019.

Fjöldi 23ja ára kvenna sem koma í fyrsta sinn í leghálsskimun og 40 ára kvenna sem koma í brjóstaskimun í fyrsta sinn hefur rúmlega tvöfaldast með nýju tilraunaverkefni Krabbameinsfélagsins sem býður konunum skimunina sér að kostnaðarlausu í ár. 

Stærstur hluti kvennanna segir að gjaldfrjáls skimun hafi hvatt þær til að taka þátt. Fyrstu fimm mánuði ársins hafa rúmlega tvöfalt fleiri konur mætt í fyrstu skimun en á sama tímabili síðasta árs.

Síðustu áratugi hefur heldur dregið úr þátttöku kvenna í brjósta- og leghálsskimunum. Margt spilar þar inn í, meðal annars greiðsluþátttaka kvenna. Krabbameinsfélagið ákvað á þessu ári að gera tilraun og bjóða ákveðnum hópum skimun þeim að kostnaðarlausu og gera um leið könnun á því hvort kostnaðurinn skipti máli. Könnunin leiðir í ljós sterkar vísbendingar um að greiðsla fyrir skimun hindri umtalsverðan hóp kvenna í að nýta sér skimunina.

Almennt greiða konur 4.700 krónur fyrir leghálsskimun. Gjaldið er ákvarðað af stjórnvöldum. Tilraunin er alfarið fjármögnuð af Krabbameinsfélaginu og stendur út árið 2019.

Aldur skiptir máli

Konur sem eru í fyrsta sinn boðaðar í leghálsskimun eru 23 ára, fæddar 1996, og þær njóta góðs af verkefninu. Í könnuninni kom fram að 95% þeirra sem tóku þátt sögðu ókeypis skimun hafa hvatt þær til að mæta. Konur eru eldri þegar þær eru fyrst boðaðar í brjóstaskimun, eða 40 ára, og nær verkefnið til kvenna sem fæddar eru 1979. 70% þeirra sögðu að gjaldfrjáls skimun hefði hvatt þær til að taka þátt. Þá sögðu 23% (82 konur) sem svöruðu könnuninni um leghálsskimun og 9% (29 konur) sem svöruðu um brjóstaskimun að þær hefðu ekki komið hefðu þær þurft að borga.

Árangurinn af tilraunaverkefninu fyrstu fimm mánuði ársins er mjög mikill því rúmlega tvöfalt fleiri 23ja ára konur, eða 557 hafa þegið boð um leghálsskimun á þessu ári miðað við 277 í fyrra. Í brjóstaskoðunum hefur komum 40 ára kvenna fjölgað úr 254 í 572 á tímabilinu. Rannsóknir sýna að konur sem mæta í fyrsta sinn í skimun eru líklegri til að mæta reglulega eftir það þegar þær fá boð í skimun.

„Þetta staðfestir það sem við höfum lengi haldið fram, að kostnaður við skimunina skipti máli. Krabbameinsfélagið telur afar mikilvægt að skimun verði gerð gjaldfrjáls, líkt og hún er í langflestum nágrannalöndunum, einkum til að tryggja jafnt aðgengi að skimun,“ segir Halla Þorvaldsdóttir, framkvæmdastjóri Krabbameinsfélagsins. „Heilbrigðisráðherra hefur lýst því yfir að hún ætli að gera skimunina gjaldfrjálsa, við söknum þess að ráðherra hafi ekki tilgreint hvenær, en treystum því að það verði fljótlega og hlökkum mjög til að heyra hvenær við getum útfært það, konum í landinu til heilla.”

Með skimun fyrir leghálskrabbameini er nánast hægt að koma í veg fyrir sjúkdóminn greinist hann á forstigi og með skimun fyrir brjóstakrabbameini er hægt að draga verulega úr dauðsföllum greinist meinið á byrjunarstigi.

„Það er virkilega ánægjulegt að sjá þann góða árangur sem þetta verkefni virðist vera að skila. Að auki eru langtímamarkmið og fleiri aðgerðir í þá veru að auka þátttöku kvenna í skimun að skila sér. Árangur er fram úr okkar björtustu vonum og við hlökkum til að gera enn betur grein fyrir honum,” segir Halla.


Fleiri nýjar fréttir

12. apr. 2024 : Saga Ómars Einarssonar

Ómar fékk krabbamein í háls, árið 2008, á sama tíma og Geir H. Haarde blessaði Ísland. Hann var geislaður í upphafi og síðar skorinn. Í framhaldinu var honum bent á að hitta Ragnar Davíðsson, formann félagsins Ný rödd, sem er eitt af aðildarfélögum Krabbameinsfélagsins. Ragnar hafi hjálpað sér og öðrum mikið.

Lesa meira

8. apr. 2024 : Frábær þátttaka í Skegg­keppni Mottu­mars 2024

Þátttakendur í Skeggkeppni Krabbameinsfélagsins þetta árið voru 360 talsins og alls söfnuðust rétt rúmlega 7,3 milljónir króna. Krabbameinsfélagið þakkar öllum þeim sem tóku þátt og öllum sem styrktu.

Lesa meira

25. mar. 2024 : Saga Sigurgeirs Líndal Ingólfssonar

Sigurgeir segir að fræðslan og kynningin í kringum Mottumars sé þýðingarmikil og hafi ýtt við honum þegar einkenni gerðu vart við sig og gert það að verkum að hann fór til læknis. Einkennin voru ekki ólík þvagfærasýkingu en það var einmitt svarið sem hann fékk fyrst þegar hann leitaði sér hjálpar.

Lesa meira

25. mar. 2024 : Saga Egils Þórs Jónssonar

Egill Þór telur að hann væri ekki á lífi ef hann hefði þagað í gegnum sína meðferð og hvetur alla til að sækja sér alla þá hjálp sem í boði er, nýta sér stuðningsfélögin sem eru að styðja við þá sem greinast. Jafningjastuðningur hafi verið honum afar mikilvægur, að finna fyrir sterkri tengingu við einhvern sem búinn var að ganga í gegnum það sama og hann var að ganga í gegnum í fyrsta sinn, hafi verið ómetanlegt.

Lesa meira

22. mar. 2024 : Gleðilegan Mottudag

Mottumars nær hámarki í dag, föstudaginn 22. mars, þegar Mottudagurinn er haldinn hátíðlegur. Krabbameinsfélagið hvetur alla landsmenn, konur og karla, til að gera sér glaðan dag með fjölskyldunni, vinum og vinnufélögum og vekja þannig athygli á baráttunni gegn krabbameinum hjá körlum. 

Lesa meira

Var efnið hjálplegt?