Ása Sigríður Þórisdóttir 11. feb. 2022

Tímamót! Samfélagið opnast á ný

Á meðan all flestir fagna því að létt verði á sóttvarnaraðgerðum og þeim takmörkunum sem þeim fylgja er hætt við að lífið verði jafnvel enn flókara fyrir þá sem eru í krabbameinsmeðferð og fjölskyldur þeirra. Sérstaklega í ljósi þess að fjöldi smita hefur aldrei verið meiri.  

Síðustu ár hafa reynst mörgum erfið í tengslum við Covid faraldurinn sem herjað hefur á alla heimsbyggðina. Nú þegar fyrir liggur að tilslakanir á sóttvarnaraðgerðum verði kynntar er vert að hafa í huga þann hóp í samfélaginu sem býr við skertar varnir vegna veikinda sinna.

Það má kannski segja að almenningur hafi fengið örlitla innsýn inn í líf krabbameins-greindra síðustu tvö árin. Krabbameinsmeðferðir eru nefnilega margar hverjar þess eðlis að þær bæla niður ónæmiskerfið og veikja þannig varnir líkamans til að takast á við sýkingar og umgagnspestir. Eitthvað sem gæti verið saklaust kvef fyrir flesta getur þannig orðið meira og alvarlega mál fyrir þá sem eru í krabbameinsmeðferð.

Á meðan all flestir fagna því að létt verði á sóttvarnaraðgerðum og þeim takmörkunum sem þeim fylgja er hætt við að lífið verði jafnvel enn flókara fyrir þá sem eru í krabbameinsmeðferð og fjölskyldur þeirra. Sérstaklega í ljósi þess að fjöldi smita hefur aldrei verið meiri. Þrátt fyrir að nýjasta afbrigði veirunnar virðist valda minni einkennum er mikilvægt fyrir einstaklinga með skertar varnir að forðast smit í lengstu lög. Það þarf því engan að undra að tíminn sem framundan er geti valdið áhyggjum og kvíða hjá þeim sem takast á við krabbamein og aðstandendum þeirra.

Það er skiljanlegt að þeir krabbameinssjúklingar hafi áhyggjur á sama tíma og flestir í samfélaginu gleðjast yfir því að lífið sé að komast í eðlilegra horf aftur eftir Covid faraldurinn.


Ert þú að takast á við krabbamein

 • Það er skiljanlegt að þú getir fundið fyrir áhyggjum eða kvíða tengt því að smitast af Covid, sérstaklega í ljósi fjölda smita og afléttingu sóttvarnaaðgerða. Mundu að þú ert ekki ein/n um þessa upplifun og reyndu að einblína á þá þætti sem þú hefur stjórn á. Það getur verið gagnlegt að halda góðri rútínu varðandi svefn, hreyfingu og næringu. Eins er mikilvægt að skoða hvað gefur þér hugarró. 
 • Haltu þínu striki varðandi sóttvarnir og leyfðu þér að setja öðrum mörk varðandi nálægð, heimsóknir og fyrirbyggjandi aðgerðir, eins og grímunotkun , ef þér sýnist svo.
 • Vertu vel upplýst/ur um hvort krabbameinsmeðferðin sem þú færð eða krabbameinið geri þig útsettari fyrir sýkingum og þá á hvaða tímabili eftir hverja meðferð þú þarft helst að vera á varðbergi varðandi sýkingarhættu.
 • Fyrir flesta er mikilvægt að hafa einhvern nákominn með í læknaviðtöl, sér til stuðnings og til að taka við upplýsingum sem getur verið erfitt að ná utan um og muna þegar tekist er á við krabbamein og krabbameinsmeðferð. Spurðu hvort þú megir taka með þér aðstandanda í læknaviðtöl. Ef ekki er hægt að verða við því er hægt að athuga hvort aðstandandi megi vera með í gegnum símtal eða myndsímtal.
 • Ef til vill treystir þú þér ekki til að hitta aðra en fáa útvalda um þessar mundir. Gott getur verið að leita annara leiða til að vera í samskiptum við þá sem þú færð stuðning af og skipta þig máli. Til að mynda með símtölum eða myndsímtölum.
 • Finnir þú fyrir vanlíðan tengt fyrirhuguðum afléttingum á sóttvarnarreglum eða öðru sem viðkemur veikindum þínum eða aðstandanda þíns bendum við á að þú getur alltaf haft samband við ráðgjafa okkar í síma 800 4040 eða með því að senda póst á radgjof@krabb.is .

Þekkir þú einhvern með krabbamein?

 • Mundu að jafnvel þótt búið sé að draga úr sóttvarnaraðgerðum þarf einstaklingur sem glímir við krabbamein að sýna ítrustu varkárni og gæti áfram þurft að forðast nálægð við aðra eða gæta að sóttvörnum í umgengni við fólk.
 • Sýndu tillitsemi og spurðu viðkomandi hverjar þarfir hans séu. Til að mynda hvort hann vilji þiggja heimsóknir og ef svo er hvort hann óski eftir að þú berir grímu í heimsókninni og/eða haldir ákveðinni fjarlægð. Leyfðu viðkomandi að stjórna ferðinni varðandi faðmlög og snertingu.
 • Ef viðkomandi getur ekki þegið heimsóknir er mikilvægt að finna aðrar leiðir til að sýna stuðning og umhyggju. Til að mynda með reglulegum símtölum eða myndsímtölum. Einnig þykir flestum vænt um að fá falleg og styðjandi skilaboð eða tölvupósta. Taktu fram að þú skiljir að viðkomandi hafi ef til vill ekki orku til að svara skilaboðum til baka.


  Hefur þú greinst með krabbamein og hefur þörf fyrir stuðning eða spjall?
  Við erum við símann 800 4040.

  Krabbameinsfélagið – Ráðgjöf og stuðningur

Fleiri nýjar fréttir

5. des. 2023 : Takk sjálfboðaliðar!

Í dag er alþjóðlegur dagur sjálfboðaliða og Krabbameinsfélagið vill nýta tækifærið og þakka öllum þeim fjölmörgu sjálfboðaliðum sem leggja sitt af mörkum í þágu félagsins. Í tilefni dagsins fengum við nokkra sjálfboðaliða til að segja okkur frá því hvers vegna þau velja að leggja baráttunni gegn krabbameinum lið.

Lesa meira

5. des. 2023 : Aðstoð við að velja mat sem eykur heilbrigði og vellíðan

Við þurfum hjálp! Ákall til matvælaframleiðenda og sölu- og markaðsaðila matvæla. Mörg fyrirtæki standa sig vel þegar kemur að markaðssetningu á mat og drykkjarvöru. Sum fyrirtæki sem bjóða upp á heilsueflandi mat en einnig mat- og drykkjarvörur sem geta haft neikvæð áhrif á heilsu hlífa til dæmis börnum við markaðssetningu á slíkum vörum.

Lesa meira

4. des. 2023 : Taktu þátt í skemmtilegum jólaleik

Litríkt, jólalegt og hollt á borðið þitt. Krabbameinsfélagið í samstarfi við Banana og Hagkaup óska eftir jólalegum útfærslum á framsetningu á grænmeti, ávöxtum og berjum til að nýta á jólaborðið eða veislubakkann. Veglegir vinningar í boði.

Lesa meira

4. des. 2023 : Kírópraktorstöðin styrkir Bleiku slaufuna

Kírópraktorstöðin afhenti á dögunum 500.000 krónur til Krabbameinsfélagsins. Upphæðin er afrakstur af einstaklega vel heppnuðu Konukvöldi sem þau stóðu fyrir í tilefni af Bleikum október. Krabbameinsfélagið þakkar kærlega fyrir stuðninginn, sem kemur að góðum notum.

Lesa meira

4. des. 2023 : Ný rannsókn styður við einstaklingssniðna meðferð

Ný íslensk rannsókn sem birtist í dag í npj Breast Cancer og var unnin í samstarfi Krabbameinsfélagsins við meinafræðideild og krabbameinslækningadeild Landspítala, og við Háskóla Íslands. 

Lesa meira

Var efnið hjálplegt?