Ása Sigríður Þórisdóttir 3. nóv. 2020

Tilvist frumurannsókna leghálsskimunar á Íslandi ógnað?

Bréf sem birtist í Læknablaðinu 11. tbl. 106. árg. 2020

  • Frumurannsókn KÍ

Ástæða þessara greinarskrifa eru umhugsunarverð ummæli sem komu fram í viðtali við Óskar Reykdalsson í síðasta tölublaði Læknablaðsins. Þar var ræddur undirbúningur flutnings skimunar fyrir leghálsskrabbameini frá Leitarstöð Krabbameinssfélagsins yfir til heilsugæslunnar.

Höfundar: Ingibjörg Guðmundsdóttir, Frumurannsóknastofu Krabbameinsfélagsins, Helgi Birgisson og Ágúst Ingi Ágústsson, Krabbameinsskrá Krabbameinsfélagsins og Leitarstöð Krabbameinsfélagsins.

Ástæða þessara greinarskrifa eru umhugsunarverð ummæli sem komu fram í viðtali við Óskar Reykdalsson í síðasta tölublaði Læknablaðsins. Þar var ræddur undirbúningur flutnings skimunar fyrir leghálsskrabbameini frá Leitarstöð Krabbameinssfélagsins yfir til heilsugæslunnar. Meðal annars virðast vera komnar fram hugmyndir um að að flytja frumurannsóknir á leghálssýnum frá Íslandi til annarra landa og segir Óskar orðrétt: „…Við höfum rannsóknarstofu í Skandinavíu sem er tilbúin að vera okkur innan handar ef á þarf að halda. Ódýrast er oftast að senda á stórar stofnanir með mikla sjálfvirkni …“*

Við efumst um að það þjóni hagsmunum íslenskra kvenna að flytja þessa starfsemi úr landi og viljum því í stuttu máli kynna betur starfsemi frumurannsóknastofu Krabbameinsfélags Íslands (FKÍ), en hún hefur verið rekin í yfir 40 ár.

Við leghálssýnatöku er strok tekið með því að skrapa ytra leghálsop og neðsta hluta leghálsgangsins. Sýnið er sett í sýnatökuglas með flutningsvökva og sér vélasamstæða (ThinPrep Processor) um að undirbúa sýnið og setja á smásjárskoðunargler.

Rúm 27.000 leghálssýni eru skoðuð frá íslenskum konum ár hvert. Skoðun hvers sýnis er nákvæmnisvinna og afleiðingar þess að missa af alvarlegum frumubreytingum geta verið afdrifaríkar eins og komið hefur fram í fjölmiðlum undanfarið.

Sérþjálfaðir frumugreinar skoða sýnin á staðlaðan hátt. Ef grunur er um frumubreytingar fer sýnið til skoðunar hjá frumumeinafræðingi.

Fyrir tveimur árum var tekið í notkun tæki (ThinPrep Imaging System) á FKÍ sem skannar yfir sýnið og velur út þá staði sem líklegast er að hafi frumubreytingar. Þetta eykur næmi rannsóknarinnar, það er að segja ólíklegra er að frumubreytingar fari fram hjá frumugreinum. Tækninni miðar áfram en mannsaugað er enn sem komið er ómissandi.

Frumubreytingar eru flokkaðar af meinafræðingi í tvo undirflokka, sem eru vægar og alvarlegar frumubreytingar.

Rúmlega 18% sýna (5000 tilfelli á ári) hafa vægar frumubreytingar sem leiða til HPV-mælingar á sýninu en um 40% þessara kvenna hafa há-áhættu HPV-veiru og er því boðið í endurkomu eftir hálft ár, hinar fara í hefðbundna skimun.

Ef alvarlegar frumubreytingar greinast leiðir það strax til leghálsspeglunar og töku vefjasýnis (rúmlega 500 tilfelli á ári).

Tilkoma HPV-mælinga hefur breytt skimunum fyrir forstigum leghálskrabbameina mikið síðustu ár. Frá árinu 2015 hafa HPV-mælingar verið notaðar á Íslandi sem viðbót við frumusýnaskoðunina þegar vægar frumubreytingar greinast (um 5000 mælingar á ári). Skimun með HPV er einnig notuð í dag fyrir svokallað útgöngusýni hjá konum sem eru 65 ára (um 1200 HPV mælingar á ári). HPV-mælingar eru gerðar á sýkla- og veirufræðideild Landspítala.

HPV-skimun hefur betra næmi en skimun með hefðbundinni frumurannsókn, hins vegar er sértæki minna. Aðeins lítill hluti þeirra kvenna sem greinast há-áhættu jákvæðar við HPV-skimun eru með frumubreytingar og því langflestar með eðlileg frumusýni.

Það verður því áfram þörf á að gera frumurannsóknir hjá HPV-jákvæðum konum til að geta sagt til um hverjar þurfi á frekari rannsóknum að halda.

Til að flækja málið enn frekar má búast við að um 80% kvenna komist í kynni við HPV á lífsleiðinni og að um helmingur kvenna sé með HPV í leghálssýni á yngri árum. Því mæla til dæmis hin Norðurlöndin með því að frumurannsókn verði áfram fyrsta skimunarrannsókn fram til 29 ára aldurs. Bólusetning gegn HPV veirustofnum mun einnig hafa mikil áhrif á leghálsskimun í framtíðinni en hún minnkar mjög áhættu á forstigsbreytingum og þar af leiðandi leghálskrabbameini.

Samantekið má því segja að frumurannsóknum muni fækka í framtíðinni, en að þær muni áfram gegna lykilhlutverki við skimun forstiga leghálskrabbameins.

Á FKÍ er til staðar áratuga þekking á leit að afbrigðilegum frumum í leghálssýnum. Ísland verður fátækara ef þessi þekking verður látin glatast og starfsemin flutt úr landi samhliða flutningi leghálsleitar frá Leitarstöð Krabbameinsfélagsins til heilsugæslunnar um næstu áramót.

Tíminn sem tekur að skoða og að fá svar við leghálssýnum myndi lengjast mikið og utanumhald verður einnig flóknara ef starfsemin fer að stórum hluta fram erlendis. Hætta á mistökum eykst í ferlinu. Þessu til stuðnings má geta mikilla erfiðleika Íra sem sendu stóran hluta sinna leghálssýna úr landi til greiningar árið 2008, en í kjölfarið jókst til muna fjöldi leghálskrabbameina og dauðsfalla vegna þeirra.

Það getur tekið stuttan tíma að rífa niður það sem hefur verið byggt upp á löngum tíma.

Að flytja þessa starfsemi úr landi er ekki skynsamlegt fyrir íslenska heilbrigðisstarfsemi.

Við vonum því að ráðamenn átti sig á þessu og sjái til þess að frumurannsóknum leghálssýna verði áfram sinnt hér innanlands.

* Gunnarsdóttir GA. Ljósmæður munu taka leghálssýnin á heilsugæslunum, segir Óskar Reykdalsson. Læknablaðið 2020; 106: 445.

  • Birtist í Læknablaðinu 11. tbl. 106. árg. 2020

Fleiri nýjar fréttir

2. okt. 2023 : Takk fyrir samveruna og stuðninginn

Það er óhætt að segja að gleði, samhugur og samstaða hafi ráðið ríkjum á opnunarviðburði Bleiku slaufunnar sem haldinn var í Þjóðleikhúsinu þann 28. september. Myndirnar sem hér fylgja segja allt um stemminguna.

Lesa meira

29. sep. 2023 : Verum bleik - fyrir okkur öll

Í dag, föstudaginn 29. september, hefst árvekni- og fjáröflunarátak Krabbameinsfélags Íslands, Bleika slaufan. Í ár beinir Krabbameinsfélagið athyglinni að mikilvægi samstöðunnar og bleika litarins sem tákns um hana.

Lesa meira

29. sep. 2023 : Slökkti fyrst eld og keypti svo Bleiku slaufuna

Það hefur vonandi ekki farið framhjá neinum að sala Bleiku slaufunnar hófst á miðnætti í dag, 29. september. Nágranni Krabbameinsfélagsins, Bergrún Ingimarsdóttir, varð fyrst til að tryggja sér slaufu ársins. Það mátti þó litlu muna að það tækist ekki vegna elds sem hún þurfti að ráða niðurlögum að.

Lesa meira

27. sep. 2023 : Bleika slaufan 2023

Gullsmiðirnir Lovísa Halldórsdóttir (by lovisa) og Unnur Eir Björnsdóttir (EIR) eru hönnunarteymið á bak við Bleiku slaufuna í ár. Það er óhætt að segja að þeim hafi tekist ætlunarverk sitt, en slaufan í ár er sú bleikasta sem við höfum séð lengi

Lesa meira

26. sep. 2023 : "Mikilvægt að segja líka frá því sem gengur vel"

Styttri legutími, skjótari bati, lægri dánartíðni og betri lifun. Ný aðferðafræði við skurðaðgerðir við lungnakrabbameini var tekin upp nærri því á einni nóttu og hefur gefið reglulega góða raun í baráttunni gegn lungnakrabbameini. Tómas Guðbjartsson skurðlæknir og Viktor Ásbjörnsson læknanemi segja hér frá byltingarkenndri þróun í skurðaðgerðum við lungnakrabbameini og mikilvægi rannsókna og stuðnings við þær fyrir framþróun í málaflokkinum. 

Lesa meira

Var efnið hjálplegt?