Sigriður Sólan Guðlaugsdóttir 15. apr. 2020

Til hamingju Vigdís!

Vigdís Finnbogadóttir, verndari Krabbameinsfélagsins, er níræð í dag 15. apríl. Krabbameinsfélagið og aðildarfélög um allt land senda Vigdísi bjartar og hlýjar heillaóskir í tilefni dagsins.

„Um leið og félögin þakka fyrir þann mikla stuðning og hlýhug sem Vigdís hefur sýnt starfi þeirra frá því hún varð verndari félagsins árið 1986 þykir okkur við hæfi að gleðja hana með framlagi í Styrktarsjóð Stofnunar Vigdísar Finnbogadóttur, en markmið sjóðsins er að renna styrkum stoðum undir starfsemi stofnunarinnar og stuðla að vexti hennar og viðgangi,“ segir Halla Þorvaldsdóttir, framkvæmdastjóri Krabbameinsfélagsins.

Í viðtali í Blaði Krabbameinsfélagsins sem kom út í ársbyrjun sagði Vigdís að reynsla hennar af því að fá brjóstakrabbamein og fara í brjóstnám hefði kennt henni að taka engu sem gefnu í lífinu. Fleyg eru orð hennar af kosningafundi í forsetaframboðinu þegar hún fékk spurningu um hvort hún gæti verið forseti aðeins með eitt brjóst og svaraði um hæl: „Það stóð nú aldrei til að hafa þjóðina á brjósti.“

„Vigdís er mikilvæg fyrirmynd íslensku kvenþjóðarinnar, ekki síst kvenna sem greinast með krabbamein. Sjálfri er mér afar minnisstætt þegar Samhjálp kvenna hélt upp á 25 ára afmæli sitt fyrir fullu húsi á Hótel Loftleiðum. Þá var Vigdís ræðumaður kvöldsins, steig í pontu og sagði eitthvað á þessa leið: “Samhjálp kvenna er 25 ára. Ég er 26 ára,“ og vísaði þannig til þess tíma sem liðinn var frá því hún læknaðist af brjóstakrabbameini. Þetta kallaði fram gæsahúð hjá mörgum,” segir Halla.

Sérstakur afmælisþáttur Til hamingju Vigdís – Afmælishátíð í tilefni af 90 ára afmæli Vigdísar Finnbogadóttur verður á RUV í kvöld kl 20:00 og er þátturinn táknmálstúlkaður á RUV 2.

Vigdís og Krabbameinsfélagið

Jónas Ragnarsson, fyrrverandi ritstjóri Krabbameinsfélagsins, tók saman helstu atriði um tengsl Vigdísar Finnbogadóttur við félagið í tilefni af 90 ára afmælinu:

· Móðir Vigdísar Finnbogadóttur, Sigríður Eiríksdóttir hjúkrunarfræðingur, var einn af stofnendum fyrsta krabbameinsfélagsins, Krabbameinsfélags Reykjavíkur, í mars 1949 og var kosin í varastjórn. Vigdís hefur sagt að hún muni vel eftir umræðu á sínu heimili um nauðsyn þessa félagsskapar (þá 19 ára gömul á síðasta vetri í MR).

· Vigdís var 46 ára þegar hún greindist með brjóstakrabbamein og fór í aðgerð 1. febrúar 1977. „Þann dag ár hvert þakka ég fyrir að vera á þeirri ferð í lífinu sem raun ber vitni,” sagði hún síðar í blaðaviðtali.

· Samtökin Samhjálp kvenna (nú Brjóstaheill) voru stofnuð haustið 1979. Undirbúningsfundir höfðu verið haldnir í húsnæði Krabbameinsfélagsins við Suðurgötu og fylgdist Vigdís vel með því starfi.

· Fyrir forsetakosningarnar 1980 tjáði Vigdís sig um krabbameinið. Konur sem síðar hafa greinst með brjóstakrabbamein hafa oft getið þess að Vigdís hafi verið þeim fyrirmynd og gefið þeim von.

· Vorið 1982 var undirbúið mikið söfnunarátak í þeim tilgangi að safna fé til að koma upp betri aðstöðu fyrir Krabbameinsfélagið, meðal annars til að auka leitarstarfið. Vigdís flutti þá ávarp og um haustið afhenti hún Krabbameinsfélagi Íslands afrakstur af einni stærstu landssöfnun til þess tíma. Haustið 1984 vígði hún hið nýja hús félagsins að Skógarhlíð 8 í Reykjavík.

· Á 35 ára afmæli Krabbameinsfélags Íslands, 27. júní 1986, féllst Vigdís Finnbogadóttir forseti Íslands (þá 56 ára) á að gerast verndari Krabbameinsfélagsins og jafnframt var hún kjörin í Heiðursráð Krabbameinsfélagsins, fyrst allra.

· Þegar fyrstu íbúðirnar í Reykjavík fyrir krabbameinssjúklinga utan af landi voru teknar í notkun, á 40 ára afmæli Krabbameinsfélags Íslands árið 1991, vígði Vigdís íbúðirnar og síðan þær sem bættust við.

· Vigdís Finnbogadóttir hefur mætt á aðalfundi Krabbameinsfélags Íslands í marga áratugi og ávallt verið reiðubúin að taka þátt í ýmiss konar verkefnum á vegum félagsins. Enda hefur Vigdís margoft sagt að henni þyki vænt um Krabbameinsfélagið.

Til hamingju með áfangann Vigdís og takk fyrir stuðninginn!

Myndin með greininni birtist á forsíðu Blaðs Krabbameinsfélagsins 2020 og er tekin af Ástu Kristjánsdóttur, ljósmyndara. Elín Reynisdóttir sá um förðun.


Fleiri nýjar fréttir

9. jún. 2023 : Láttu mig vita ef ég get gert eitthvað fyrir þig

Þegar einhver í kringum okkur greinist með krabbamein er eðlilegt að upplifa óöryggi. þótt flestir vilji leggja sitt af mörkum til að vera til staðar getur óttinn við að segja ekki réttu hlutina eða að vita ekki hvað á að segja leitt til þess að jafnvel verði minna samband við viðkomandi en áður.

Lesa meira

30. maí 2023 : Bylting - hálfur milljarður til krabbameinsrannsókna

Vísindasjóður Krabbameinsfélagsins hefur frá stofnun sjóðsins árið 2015 styrkt 41 krabbameinsrannsókn um samanlagt 384 miljónir króna. Næsta úthlutun úr sjóðnum verður í júní næstkomandi.

Lesa meira

30. maí 2023 : Krabbameinsskimanir – mikið fyrir lítið

Áratugir eru síðan skimanir fyrir legháls- og brjóstakrabbameini voru teknar upp á Íslandi. Þær hafa fyrir löngu sannað gildi sitt þó þær veiti aldrei fullkomna vörn. Konur hér á landi hafa með afgerandi hætti sýnt að þær kunna að meta aðgengi að þeim.

Lesa meira

30. maí 2023 : Á Ís­landi greinast um 1800 manns á hverju ári með krabba­mein

Þeir gætu verið færri. Þó að ekki sé hægt að koma í veg fyrir öll krabbamein sýna rannsóknir að áhættuþættir margra krabbameina tengjast lífsstíl. Með bættri lýðheilsu þjóðar er hægt að fækka verulega ákveðnum krabbameinum.

Lesa meira

28. maí 2023 : Lokað 30. maí í ráðgjafarþjónustu vegna vinnufundar ráðgjafarteymis

Lokaða verður hjá ráðgjafarþjónustu Krabbameinsfélagsins þriðjudaginn 30. maí vegna vinnufundar ráðgjafarteymis. Hægt er að senda fyrirspurnir og erindi á radgjof@krabb.is og er þeim svarað eins fljótt og hægt er.

Lesa meira

Var efnið hjálplegt?