Björn Teitsson 8. jan. 2021

Því minna áfengi, því betra

  • Áfengi

Metsala var á áfengi í Vínbúðum árið 2020. Jafnvel þótt skýringuna megi finna í færri ferðum á veitingastaði eða Fríhöfnina, er rétt að staldra við og minna á að áfengisneysla er áhættuþáttur þegar kemur að krabbameinum. 

Viðbrögð Krabbameinsfélagsins við fréttum af sölu áfengis í Vínbúðum

Samkvæmt frétt í Morgunblaðinu reyndist áfengissala árið 2020 í Vínbúðunum sú mesta nokkru sinni. Aukningin er nær alfarið rakin til víðtækra áhrifa covid19 þar sem mun minni sala hafi farið fram í Fríhöfn og einnig á veitiningastöðum og börum. Hvort sem þetta þýði í raun meira eða minna áfengismagn en Íslendingar innbyrða að jafnaði á ársgrundvelli er upplagt að minna á að áfengi er engin venjuleg neysluvara.

Áfengi er staðfestur krabbameinsvaldur

Áfengi er meðal annars staðfestur krabbameinsvaldur í mönnum samkvæmt flokkun Alþjóðakrabbameinsrannsóknarstofnunarinnar (IARC) og tengist áfengisneysla auknum líkum á krabbameinum í munnholi, koki, barkakýli, vélinda, lifur, brjóstum, ristli og endaþarmi. Að auki eru vel þekkt fjölmörg önnur neikvæð áhrif áfengisneyslu, t.d. á starfsemi heila, lifrar, hjarta – og æðakerfis, á andlega heilsu, auknar líkur á slysum, ofbeldi og sjálfsvígum og er þá langt í frá allt upp talið.

Verum meðvituð um áhættuna

Áfengisneysla er samofin íslensku samfélagi og menningu á ýmsan hátt og þykir sjálfsögð við fjölmörg tækifæri. Á ýmsum vettvangi, meðal annars samfélagsmiðlum, er áfengisdrykkju hampað og hún sýnd í jákvæðu ljósi, mikið tengslum við hin ýmsu tækifæri þegar fólk kemur saman en einnig sem leið til að slaka á.

Mikilvægt er að fólk sé meðvitað um neikvæð áhrif áfengisdrykkju þó að mörgum þyki það óskemmtileg umræða.

Því minna, því betra

Hafa ber í huga að almennt eru neikvæð áhrif áfengis háð því magni sem drukkið er. Þannig aukast til dæmis líkur á krabbameinum jafnt og þétt eftir því sem áfengisneyslan er meiri. Það þýðir að þó best sé að sleppa áfengisneyslu alfarið er samt alltaf líka heilsufarslegur hagur af því að draga úr henni.

Líklega drekka margir áfengi nær hugsunarlaust við ýmis tækifæri. Óhætt er hins vegar að mæla með því að fólk reyni að vera meðvitað um hve oft og hve mikið er drukkið því margir gætu dregið úr áfengisneyslu með því að hafa yfirsýn og með því að nýta sér skipulega aðferðir með það í huga. Svo nokkur dæmi séu nefnd er hægt að ákveða fyrirfram við hvaða tækifæri sé drukkið og hvenær ekki, ákveða líka fyrirfram magnið, blanda veikari drykki, nota minni vínglös og láta ekki undan þrýstingi annarra.

Því minna, því betra – þinni heilsu í hag. 


Fleiri nýjar fréttir

13. jan. 2021 : Breytingum á neðri aldursmörkum fyrir brjóstaskimun frestað

Heilbrigðisráðherra hefur ákveðið að breytingar á neðri mörkum skimunaraldurs fyrir brjóstakrabbameinum verði frestað. Hefja átti boðun í brjóstaskimun um 50 ára aldur, en nú verður horfið aftur til fyrra kerfis, þar sem 40-49 ára konur verða áfram boðaðar. 

Lesa meira

11. jan. 2021 : Fréttatilkynning vegna breytinga á skimunum fyrir krabbameinum

Nýtt fyrirkomulag skimana fyrir brjósta- og leghálskrabbameinum tók gildi 1. janúar 2021. Krabbameinsfélagið leggur áherslu á virkt samtal við konur og alla þjóðina þegar kemur að skimunum. Skimunaraldri fyrir brjóstakrabbamein hefur verið breytt úr 40-69 í 50-74. 

Lesa meira

5. jan. 2021 : Upplýsingar um niðurstöður úr skimun og skimunarsögu

Leitarstöð Krabbameinsfélagsins var lokað um áramót þegar skimun fyrir krabbameinum færðist til opinberra stofnana, í samræmi við ákvörðun heilbrigðisráðherra frá árinu 2019.


Lesa meira

4. jan. 2021 : Breytt fyrirkomulag skimana 2021

Í samræmi við ákvörðun heilbrigðisráðherra frá árinu 2019 fluttust skimanir fyrir krabbameinum til opinberra stofnana 1. janúar 2021. Upplýsingar um fyrirkomulagið, tímapantanir og fleira má fá hjá Samhæfingarstöð krabbameinsskimana. Lesa meira

Var efnið hjálplegt?