Sigriður Sólan Guðlaugsdóttir 17. okt. 2019

Þungar áhyggjur af bið eftir brjóstaskoðunum

Á málþinginu „Þú ert ekki ein“ sem haldið var þann 15. október síðastliðinn í tilefni af Bleika mánuðinum, var skorað á framkvæmdastjórn Landspítala og heilbrigðisráðherra að stytta biðtíma eftir sérskoðunum eftir að grunur vaknar um brjóstakrabbamein. 

Í áskoruninni segir: „Þungum áhyggjum er lýst af því hvernig biðtími hefur lengst eftir frekari skoðunum í kjölfar skimana fyrir brjóstakrabbameinum. Jafnframt er lýst áhyggjum af löngum biðtíma sem getur verið eftir viðtali hjá skurðlæknum.“

Í áskoruninni kemur fram að í evrópskum gæðaviðmiðum EUREF (European Reference Organisation for Quality Assured Breast Cancer Screening) segi að vakni grunur um krabbamein í reglubundinni skimun, skuli tími í frekari skoðun liggja fyrir innan 5 virkra daga. Á þessu ári hefur biðtíminn hjá Landspítalanum verið að meðaltali 35 almanaksdagar.

“Skorað er á framkvæmdastjórn Landspítala og yfirvöld að setja þessi mál í forgang þegar í stað þannig að biðtími verði ekki lengri en viðmið EUREF segja til um. Þetta er óásættanleg staða,” segir ennfremur í áskoruninni.

„Það er algjörlega óviðunandi staða fyrir konur að svo langur tími líði frá því að þær mæta í skimun þar til þær eru kallaðar inn í frekari skoðun. Enda er það raunin að oft kemur innköllunin þeim algerlega í opna skjöldu. Á þessu þarf nauðsynlega að finna varanlega lausn“ segir Brynja Björk Gunnarsdóttir, formaður Brjóstaheilla – Samhjálpar kvenna.

Þú ert ekki ein - Málþing

Málþingið var haldið í húsnæði Krabbameinsfélagsins í Skógarhlíð og skipulagt af Brjóstaheillum – Samhjálp kvenna, Krabbameinsfélagi höfuðborgarsvæðisins og Ráðgjafarþjónustu Krabbameinsfélagsins. Það var afar vel sótt og áskorunin var samþykkt einróma af fundarmönnum. Málþinginu var streymt á streymisveitu Krabbameinsfélagsins.

„Það er hins vegar gleðiefni að Leitarstöð Krabbameinsfélagsins er langt innan þeirra tímamarka sem EUREF setur varðandi niðurstöður úr reglubundinni skimun. Niðurstaða úr skimunum hefur á þessu ári að meðaltali legið fyrir innan 4,7 daga en í viðmiðum EUREF segir að þær skuli liggja fyrir innan 10 til 15 daga. Sömuleiðis er það afar ánægjulegt að sterkar vísbendingar eru um að þátttaka kvenna í skimunum sé að aukast verulega. Sú aukna þátttaka eflir okkur hjá Krabbameinsfélaginu í að halda áfram á þeirri braut sem við erum og gera enn betur,“ segir Halla Þorvaldsdóttir, framkvæmdastjóri Krabbameinsfélagsins.


Fleiri nýjar fréttir

1. des. 2023 : Minningarorð um Jón Þorgeir Hallgrímsson

Jón Þorgeir Hallgrímsson, læknir, fyrrverandi formaður Krabbameinsfélags Íslands og Krabbameinsfélags Reykjavíkur lést þann 21. nóvember sl., 92 ára að aldri. Jóns Þorgeirs er minnst hjá Krabbameinsfélaginu með mikilli virðingu og þakklæti. Aðstandendum vottar félagið innilega samúð. 

Lesa meira

28. nóv. 2023 : Taktu þátt í skemmtilegum jólaleik

Litríkt, jólalegt og hollt á borðið þitt. Krabbameinsfélagið í samstarfi við Banana og Hagkaup óska eftir jólalegum útfærslum á framsetningu á grænmeti, ávöxtum og berjum til að nýta á jólaborðið eða veislubakkann. Veglegir vinningar í boði.

Lesa meira
Ljósmynd: Thule Photos

28. nóv. 2023 : Dýrmætt að vita að maður stendur ekki einn í þessu

Flestir sem hafa upplifað það að missa einhvern náinn sér eru líklega sammála um að sorgin er erfið og þungbær. Sorg barna er sérstaklega vandmeðfarin og það getur skipt máli fyrir úrvinnslu þeirra að fá réttan stuðning frá nærsamfélaginu. Hannes missti eiginkonu sína úr krabbameini árið 2022, en þau áttu tvær dætur saman. Hann segir hér frá sorgarúrvinnslunni og helstu úrræðum sem þau feðgin hafa nýtt sér, en þar á meðal er stuðningur Krabbameinsfélagsins við börn sem missa foreldri.

Lesa meira

28. nóv. 2023 : „Mig langaði til að taka þessa byrði og bera hana sjálf“

Rakel Ósk Þórhallsdóttir, eigandi vefverslunarinnar Central Iceland, hefur undanfarin þrjú ár stutt dyggilega við Bleiku slaufuna, en í heildina telur framlag hennar 7.385.000 kr. Rakel segir hér frá drifkraftinum á bak við verkefnið, en hún hefur persónulega tengingu við málstaðinn.

Lesa meira

23. nóv. 2023 : Fulltrúar Krabbameinsfélagsins á faraldsfæti

Um þessar mundir stendur Krabbameinsfélagið fyrir átaksverkefni sem miðar að því að fjölga í þeim góða hópi Velunnara sem styðja þétt við bakið á félaginu með mánaðarlegum framlögum. Í nóvember heimsækjum við Selfoss.

Lesa meira

Var efnið hjálplegt?