Sigriður Sólan Guðlaugsdóttir 17. okt. 2019

Þungar áhyggjur af bið eftir brjóstaskoðunum

Á málþinginu „Þú ert ekki ein“ sem haldið var þann 15. október síðastliðinn í tilefni af Bleika mánuðinum, var skorað á framkvæmdastjórn Landspítala og heilbrigðisráðherra að stytta biðtíma eftir sérskoðunum eftir að grunur vaknar um brjóstakrabbamein. 

Í áskoruninni segir: „Þungum áhyggjum er lýst af því hvernig biðtími hefur lengst eftir frekari skoðunum í kjölfar skimana fyrir brjóstakrabbameinum. Jafnframt er lýst áhyggjum af löngum biðtíma sem getur verið eftir viðtali hjá skurðlæknum.“

Í áskoruninni kemur fram að í evrópskum gæðaviðmiðum EUREF (European Reference Organisation for Quality Assured Breast Cancer Screening) segi að vakni grunur um krabbamein í reglubundinni skimun, skuli tími í frekari skoðun liggja fyrir innan 5 virkra daga. Á þessu ári hefur biðtíminn hjá Landspítalanum verið að meðaltali 35 almanaksdagar.

“Skorað er á framkvæmdastjórn Landspítala og yfirvöld að setja þessi mál í forgang þegar í stað þannig að biðtími verði ekki lengri en viðmið EUREF segja til um. Þetta er óásættanleg staða,” segir ennfremur í áskoruninni.

„Það er algjörlega óviðunandi staða fyrir konur að svo langur tími líði frá því að þær mæta í skimun þar til þær eru kallaðar inn í frekari skoðun. Enda er það raunin að oft kemur innköllunin þeim algerlega í opna skjöldu. Á þessu þarf nauðsynlega að finna varanlega lausn“ segir Brynja Björk Gunnarsdóttir, formaður Brjóstaheilla – Samhjálpar kvenna.

Þú ert ekki ein - Málþing

Málþingið var haldið í húsnæði Krabbameinsfélagsins í Skógarhlíð og skipulagt af Brjóstaheillum – Samhjálp kvenna, Krabbameinsfélagi höfuðborgarsvæðisins og Ráðgjafarþjónustu Krabbameinsfélagsins. Það var afar vel sótt og áskorunin var samþykkt einróma af fundarmönnum. Málþinginu var streymt á streymisveitu Krabbameinsfélagsins.

„Það er hins vegar gleðiefni að Leitarstöð Krabbameinsfélagsins er langt innan þeirra tímamarka sem EUREF setur varðandi niðurstöður úr reglubundinni skimun. Niðurstaða úr skimunum hefur á þessu ári að meðaltali legið fyrir innan 4,7 daga en í viðmiðum EUREF segir að þær skuli liggja fyrir innan 10 til 15 daga. Sömuleiðis er það afar ánægjulegt að sterkar vísbendingar eru um að þátttaka kvenna í skimunum sé að aukast verulega. Sú aukna þátttaka eflir okkur hjá Krabbameinsfélaginu í að halda áfram á þeirri braut sem við erum og gera enn betur,“ segir Halla Þorvaldsdóttir, framkvæmdastjóri Krabbameinsfélagsins.


Fleiri nýjar fréttir

13. nóv. 2019 : Rekstur skimana verði áfram ein eining

Heilbrigðisráðherra hefur nú ákveðið að færa framkvæmd skimana frá Krabbameinsfélaginu til heilsugæslunnar (fyrir leghálskrabbameinum) og til Landspítala (fyrir brjóstakrabbameinum). Ekki liggur fyrir ákvörðun um hvar utanumhaldi um gagnagrunn, boðunum í skimanir, uppgjöri þeirra og frumurannsóknarstofu verði fyrir komið. 

Lesa meira

12. nóv. 2019 : Margfaldur ávinningur af jurtafæði - málþing næsta föstudag

15. nóvember í Veröld, húsi Vigdísar frá kl. 15:00 til 16:40. Allir velkomnir og aðgangur er ókeypis.

Lesa meira

8. nóv. 2019 : Sálfélagslegur stuðningur í endur­hæfingu og með­ferð krabba­meina

Niðurstöður fjölda rannsókna leiða í ljós að margvíslegur sálfélagslegur stuðningur hefur jákvæð áhrif á lífsgæði kvenna sem greinst hafa með krabbamein. 

Lesa meira

5. nóv. 2019 : Ráðgjöf nú veitt í Árborg

Í dag var undirritaður á Sjúkrahúsinu á Selfossi samstarfssamningur milli Krabbameinsfélagsins, Krabbameinsfélags Árnessýslu og Heilbrigðisstofnunar Suðurlands (HSU) um ráðgjöf fyrir sjúklinga í krabbameinsmeðferðum.

Lesa meira

31. okt. 2019 : Dregið í Vinkonuklúbbi Krabbameinsfélagsins

Í dag hlaut ein heppin vinkona veglegan vinning frá Bláa Lóninu fyrir sex. Sú heppna er Bergljót Inga Kvaran.

Lesa meira

Var efnið hjálplegt?