Jóhanna Eyrún Torfadóttir 27. júl. 2019

Þú þarft ekki að vera maraþonhlaupari til að minnka líkur á krabbameini

  • Arnar Pétursson og Berglind Alda Ástþórsdóttir
    Arnar Pétursson og Berglind Alda Ástþórsdóttir með böndin góðu. Arnar stefnir á þátttöku í Ólympíuleikum og Berglind hefur nú safnað 142 þúsund krónum í áheit fyrir Krabbameinsfélagið.

Krabbameinsfélagið hvetur landsmenn til reglulegrar hreyfingar, því í henni felst góð forvörn gegn krabbameinum. Félagið hvetur hlaupara í Reykjavíkurmaraþoni til dáða með því að gefa bönd með slagorðinu „Ég hleyp af því ég get það.“

Flestir vita að hreyfing af öllu tagi er góð fyrir heilsuna. Líklega eru færri sem vita að regluleg hreyfing í 30 mínútur á dag getur minnkað líkur á ýmsum tegundum krabbameina svo sem í ristli og endaþarmi, brjóstum og legbol. Rannsóknir sýna að einstaklingar sem hreyfa sig reglulega greinast sjaldnar með krabbamein en þeir sem hreyfa sig lítið sem ekkert. 

„Við segjum okkur líklega alltof oft að við höfum ekki tíma til að hreyfa okkur,“ segir Jóhanna Eyrún Torfadóttir, sérfræðingur í forvörnum hjá Krabbameinsfélaginu. „Góðu fréttirnar eru að það þarf ekki að hlaupa maraþon til að hafa jákvæð áhrif á heilsuna. Það að labba eða ganga rösklega í 30 mínútur á dag er einstaklega áhrifarík leið til að fá hreyfingu sem skilar sér í styrkingu vöðva.“ 

Regluleg en hófleg hreyfing styrkir ónæmiskerfið, minnkar bólgur, lækkar estrógen- og insúlínmagn í blóðinu og hjálpar til að viðhalda hæfilegri líkamsþyngd. Allt eru þetta þættir sem geta veitt vernd gegn krabbameinum. Það sama gildir um einstaklinga sem greinst hafa með krabbamein. Í meðferð og að henni lokinni hefur hreyfing þau áhrif að auka lífsgæði og minnka líkur á endurkomu meinsins. Daglegt líf breytist mikið eftir krabbameinsgreiningu og hefur áhrif á andlega og líkamlega líðan. Líkja mætti krabbameinsmeðferð við langhlaup þar sem hver og einn fer á sínum hraða en hvert skref í hreyfingu er skref í rétta átt. 

Ég hleyp af því ég get það! 

Í tilefni af Reykjavíkurmaraþoninu vill Krabbameinsfélagið vekja athygli á þeim mörgu kostum sem fylgja hreyfingu. Í því samhengi fær félagið lánuð einkunnarorð Gunnars Ármannssonar hlaupagarps, sem hefur reynt krabbamein á eigin skinni og segir: „Ég hleyp af því ég get það.“ Krabbameinsfélagið hvetur þátttakendur í Reykjavíkurmaraþoninu til að tileinka sér hugarfar Gunnars og gefur öllum þeim hlaupurum sem vilja höfuð- eða fyrirliðaband með þessum einstöku hvatningarorðum á Fit & Run skráningarhátíðinni í Laugardalshöll 22. og 23. ágúst næstkomandi. 

Það er aldrei of seint að byrja reglulega hreyfingu eða bæta við hreyfingu í daglegu lífi. Sumarið er kjörinn tími til að byrja til dæmis að hjóla, synda, labba eða skokka og ekki er verra að taka með sér góðan vin/vini, börnin sín og/eða barnabörn – því það græða allir á því að hreyfa sig. 

Hlaupum á okkar forsendum, hægt eða hratt, langt eða stutt – af því við getum það!

Greinin birtist fyrst í Fréttablaðinu.


Fleiri nýjar fréttir

15. ágú. 2019 : Aukaskoðun í Vestmannaeyjum 22. og 23. ágúst

Afar dræm þátttaka var í skimun fyrir brjóstakrabbameini í Vestmannaeyjum í vor og kom í ljós að mistök höfðu átt sér stað í póstsendingu boðsbréfa sem ekki bárust öllum konum sem komið var að í skimun.

Lesa meira

12. ágú. 2019 : Opið fyrir umsóknir í vísindasjóð norrænu krabbameinssamtakanna

Vakin er athygli á því að opið er fyrir umsóknir í vísindasjóð NCU (Norrænu krabbameinssamtakanna). Umsóknarfrestur er til og með 2. september næstkomandi.

Lesa meira
Brjóstaskoðun á Leitarstöð

9. ágú. 2019 : Mikil eftirspurn eftir tímum í skimun

Aldrei hafa jafnmargar tímapantanir í skimun beðið starfsfólks Leitarstöðvarinnar að loknum sumarleyfum og nú. Um 800 tölvupóstar biðu afgreiðslu og er nú unnið að því að bæta við tímum til að anna eftirspurn. 

Lesa meira

29. júl. 2019 : Hleypur fyrir pabba og frænda ... af því hún getur það

Berglind Alda Ástþórsdóttir hleypur 10 kílómetra í Reykjavíkurmaraþoninu til styrktar Krabbameinsfélaginu. Berglind hefur sterka tengingu við krabbamein, en faðir hennar hefur síðustu tvö ár glímt við nýrnakrabbamein og 14 ára gamall frændi er með krabbamein í eitlum. 

Lesa meira

Var efnið hjálplegt?