Jóhanna Eyrún Torfadóttir 27. júl. 2019

Þú þarft ekki að vera maraþonhlaupari til að minnka líkur á krabbameini

  • Arnar Pétursson og Berglind Alda Ástþórsdóttir
    Arnar Pétursson og Berglind Alda Ástþórsdóttir með böndin góðu. Arnar stefnir á þátttöku í Ólympíuleikum og Berglind hefur nú safnað 142 þúsund krónum í áheit fyrir Krabbameinsfélagið.

Krabbameinsfélagið hvetur landsmenn til reglulegrar hreyfingar, því í henni felst góð forvörn gegn krabbameinum. Félagið hvetur hlaupara í Reykjavíkurmaraþoni til dáða með því að gefa bönd með slagorðinu „Ég hleyp af því ég get það.“

Flestir vita að hreyfing af öllu tagi er góð fyrir heilsuna. Líklega eru færri sem vita að regluleg hreyfing í 30 mínútur á dag getur minnkað líkur á ýmsum tegundum krabbameina svo sem í ristli og endaþarmi, brjóstum og legbol. Rannsóknir sýna að einstaklingar sem hreyfa sig reglulega greinast sjaldnar með krabbamein en þeir sem hreyfa sig lítið sem ekkert. 

„Við segjum okkur líklega alltof oft að við höfum ekki tíma til að hreyfa okkur,“ segir Jóhanna Eyrún Torfadóttir, sérfræðingur í forvörnum hjá Krabbameinsfélaginu. „Góðu fréttirnar eru að það þarf ekki að hlaupa maraþon til að hafa jákvæð áhrif á heilsuna. Það að labba eða ganga rösklega í 30 mínútur á dag er einstaklega áhrifarík leið til að fá hreyfingu sem skilar sér í styrkingu vöðva.“ 

Regluleg en hófleg hreyfing styrkir ónæmiskerfið, minnkar bólgur, lækkar estrógen- og insúlínmagn í blóðinu og hjálpar til að viðhalda hæfilegri líkamsþyngd. Allt eru þetta þættir sem geta veitt vernd gegn krabbameinum. Það sama gildir um einstaklinga sem greinst hafa með krabbamein. Í meðferð og að henni lokinni hefur hreyfing þau áhrif að auka lífsgæði og minnka líkur á endurkomu meinsins. Daglegt líf breytist mikið eftir krabbameinsgreiningu og hefur áhrif á andlega og líkamlega líðan. Líkja mætti krabbameinsmeðferð við langhlaup þar sem hver og einn fer á sínum hraða en hvert skref í hreyfingu er skref í rétta átt. 

Ég hleyp af því ég get það! 

Í tilefni af Reykjavíkurmaraþoninu vill Krabbameinsfélagið vekja athygli á þeim mörgu kostum sem fylgja hreyfingu. Í því samhengi fær félagið lánuð einkunnarorð Gunnars Ármannssonar hlaupagarps, sem hefur reynt krabbamein á eigin skinni og segir: „Ég hleyp af því ég get það.“ Krabbameinsfélagið hvetur þátttakendur í Reykjavíkurmaraþoninu til að tileinka sér hugarfar Gunnars og gefur öllum þeim hlaupurum sem vilja höfuð- eða fyrirliðaband með þessum einstöku hvatningarorðum á Fit & Run skráningarhátíðinni í Laugardalshöll 22. og 23. ágúst næstkomandi. 

Það er aldrei of seint að byrja reglulega hreyfingu eða bæta við hreyfingu í daglegu lífi. Sumarið er kjörinn tími til að byrja til dæmis að hjóla, synda, labba eða skokka og ekki er verra að taka með sér góðan vin/vini, börnin sín og/eða barnabörn – því það græða allir á því að hreyfa sig. 

Hlaupum á okkar forsendum, hægt eða hratt, langt eða stutt – af því við getum það!

Greinin birtist fyrst í Fréttablaðinu.


Fleiri nýjar fréttir

29. sep. 2023 : Slökkti fyrst eld og keypti svo Bleiku slaufuna

Það hefur vonandi ekki farið framhjá neinum að sala Bleiku slaufunnar hófst á miðnætti í dag, 29. september. Nágranni Krabbameinsfélagsins, Bergrún Ingimarsdóttir, varð fyrst til að tryggja sér slaufu ársins. Það mátti þó litlu muna að það tækist ekki vegna elds sem hún þurfti að ráða niðurlögum að.

Lesa meira

27. sep. 2023 : Bleika slaufan 2023

Gullsmiðirnir Lovísa Halldórsdóttir (by lovisa) og Unnur Eir Björnsdóttir (EIR) eru hönnunarteymið á bak við Bleiku slaufuna í ár. Það er óhætt að segja að þeim hafi tekist ætlunarverk sitt, en slaufan í ár er sú bleikasta sem við höfum séð lengi

Lesa meira

26. sep. 2023 : "Mikilvægt að segja líka frá því sem gengur vel"

Styttri legutími, skjótari bati, lægri dánartíðni og betri lifun. Ný aðferðafræði við skurðaðgerðir við lungnakrabbameini var tekin upp nærri því á einni nóttu og hefur gefið reglulega góða raun í baráttunni gegn lungnakrabbameini. Tómas Guðbjartsson skurðlæknir og Viktor Ásbjörnsson læknanemi segja hér frá byltingarkenndri þróun í skurðaðgerðum við lungnakrabbameini og mikilvægi rannsókna og stuðnings við þær fyrir framþróun í málaflokkinum. 

Lesa meira

26. sep. 2023 : Takk fyrir komuna

Nýafstaðið málþing í tilefni af alþjóðadegi krabbameinsrannsókna vakti greinilega forvitni margra, því húsfyllir var í Skógarhlíðinni auk þess sem fjölmargir fylgdust með í streymi. Krabbameinsfélagið vill koma á framfæri kærum þökkum til allra sem tóku þátt.

Lesa meira
Elísa Dögg Björnsdóttir frá TVG-Zimsen, Árni Reynir Alfredsson, forstöðumaður markaðsmála og  fjáröflunar hjá Krabbameinsfélaginu og Magnús Ingi Guðmundsson frá IDÉ House of brands, sem sér um framlei

25. sep. 2023 : Nú er það bleikt!

Að baki átaki eins og Bleiku slaufunni búa fjölmörg handtök og undirbúningur hefst mörgum mánuðum áður en afurðin berst landsmönnum í hendur og hjörtu. Það er því alltaf stór stund þegar við fáum sjálfa slaufuna í hús og niðurtalningin fyrir upphaf átaksins hefst formlega.

Lesa meira

Var efnið hjálplegt?