Sigriður Sólan Guðlaugsdóttir 8. jan. 2020

Þetta reddast ekki ... án aðgerða!

  • Halla Þorvaldsdóttir, framkvæmdastjóri Krabbameinsfélagsins.

Að undanförnu hefur umræða um ástand á Landspítala verið áberandi í fjölmiðlum, sérstaklega ástand á bráðamóttöku spítalans. Halla Þorvaldsdóttir, framkvæmdastjóri Krabbameinsfélagsins skrifar.

Stjórnendur, yfirlæknar og framkvæmdastjóri hafa lýst áhyggjum af ástandinu og málað það svo sterkum litum að fyrir utanaðkomandi er ekki hægt að skilja orð þeirra öðruvísi en mjög sterkt ákall eftir aðgerðum. Krabbameinsfélagið getur ekki annað en tekið heilshugar undir þær áhyggjur sem komið hafa fram.

Ég tel víst að mjög mikið þurfi til að stjórnendur stígi fram á þann hátt sem þeir hafa gert. Augljóst er að þeim er nóg boðið. Þegar þeir sem standa í brúnni lýsa yfir kvíða fyrir vetrinum er auðvelt að gera sér í hugarlund líðan eða vanlíðan samstarfsfólks þeirra sem sinnir sjúklingum alla daga. Staðreyndin er sú að heilbrigðisstarfsfólk er að kikna undan viðvarandi álagi. Við það verður ekki búið.

Þá er ónefnt það álag og óöryggi sem staðan veldur hjá þeim sjúklingum og aðstandendum sem eru háðir sérhæfðri þjónustu og bráðaþjónustu. Óöryggi og vantraust á það kerfi sem á að vera hægt að reiða sig á er heilsuspillandi út af fyrir sig.

Krabbameinssjúklingar þurfa sérhæfða meðferð sem oft gengur mjög nærri þeim og hefur áhrif á alla sem standa þeim næst. Þeim er nauðsynlegt að geta gengið að öruggri þjónustu ef eitthvað kemur upp á. Sjúklingarnir þurfa gott aðgengi að sérhæfðri þjónustu sem í langflestum tilfellum er veitt á Landspítala og mikilvægt er að brugðist sé hratt og vel við. Biðtími á bráðamóttöku er óheyrilega langur og fólk er jafnvel útskrifað án fullnægjandi úrlausna eða viðeigandi úrræða. Í þessari stöðu eykst álag á sjúklinga og aðstandendur enn frekar. Þetta ástand er algerlega óviðunandi.

Ástandið á ekki að koma á óvart. Auknum fjölda ferðamanna fyrir nokkrum árum fylgdi viðbótarálag á heilbrigðiskerfið. Sama á við um breytta aldurssamsetningu þjóðarinnar. Íslenska þjóðin er ekki veikari en áður en hún er að eldast, sem skapar aukna þörf fyrir heilbrigðisþjónustu. Hvort tveggja hefur legið fyrir lengi. Staðan í dag er löngu fyrirséð, án þess að gripið hafi verið til fullnægjandi aðgerða.

Hér þarf raunverulegar, skipulagðar og fjármagnaðar langtímaaðgerðir, skyndilausnir eru sjaldnast góðar. Tímabundnar skyndilausnir geta hins vegar verið nauðsynlegar á meðan verið er að útfæra varanlegri lausnir. Ekki verður annað séð en að staðan sé þannig núna. Fólk verður að geta gengið að öruggri þjónustu í dag og alla daga. Það krefst án efa fjölbreyttra lausna en þær verður að finna, smáar og stórar. Við erum komin langt fram yfir að geta treyst á að ástandið reddist, sem okkur er annars tamt að gera. Nú verða stjórnvöld að standa með fólkinu í landinu, bretta upp ermar og gera það sem gera þarf. Tími alvöru aðgerða er runninn upp.

Halla Þorvaldsdóttir, framkvæmdastjóri Krabbameinsfélagsins.

 

Greinin birtist fyrst á visir.is.


Fleiri nýjar fréttir

27. jan. 2020 : „Af hverju ekki ég?

Vigdís Finnbogadóttir var 48 ára þegar hún greindist með brjóstakrabbamein og fór í brjóstnám. Hún rifjar upp þennan tíma fyrir rúmum 40 árum þegar ekki var talað jafn opinskátt um hlutina og gert er í dag.

Lesa meira

17. jan. 2020 : Miðlun eflist - nýtt blað komið út

Blað Krabbameinsfélagsins er komið út. Í því er að finna viðtöl, fróðleik, fréttir og greinar um fjölbreytt starf félagsins. 

Lesa meira

15. jan. 2020 : Nýjar áherslur - ný ásýnd

Stjórn Krabbameinsfélagsins hefur ákveðið að breyta merki og ásýnd félagsins til að endurspegla fjölbreytta starfsemi þess. 

Lesa meira

27. des. 2019 : Jóla­happ­drætti Krabba­meins­félagsins: Vinnings­tölurnar komnar í loftið – takk fyrir stuðninginn!

Dregið hefur verið Í jólahappdrætti Krabbameinsfélagsins. Happdrættið hefur verið ein veigamesta tekjulind félagsins um áratugaskeið og stuðlað mjög að uppbyggingu þess og þróun.

Lesa meira

Var efnið hjálplegt?