Sigriður Sólan Guðlaugsdóttir 28. jún. 2019

Tengsl milli mikillar líkamsfitu og illvígs krabbameins í blöðruhálskirtli

Ný íslensk rannsókn sem unnin er í samstarfi við Harvard háskóla sýnir fram á tengsl milli mikillar líkamsfitu og illvígs krabbameins í blöðruhálskirtli.

Alþjóðakrabbameinsrannsóknasjóðurinn gaf á síðasta ári út skýrslu þar sem fram kemur að offita (líkamsþyndarstuðull yfir 30) eykur líkur á ýmsum krabbameinum, þar á meðal langt gengnu krabbameini í blöðruhálskirtli.

Nýja íslenska rannsóknin var birt í tímaritinu Cancer og notar gögn frá Hjartavernd og gagnagrunni Krabbameinsfélagsins. New York Times gerði rannsóknina að umfjöllunarefni 17. júní síðastliðinn.

„Eftir okkar bestu vitund þá er þetta fyrsta rannsóknin sem skoðar á framsýnan hátt áhrif mikillar fitusöfnunar á mismunandi stöðum í líkamanum á krabbameinsáhættu í blöðruhálskirtli. Það sýnir sig að mikil kvið- og lærafita tengist illvígu krabbameini í blöðruhálskirtli,“ segir Jóhanna Eyrún Torfadóttir, einn rannsakendanna og sérfræðingur í fræðslu og forvörnum hjá Krabbameinsfélaginu.

Alls tóku rúmlega 1800 karlmenn þátt í rannsókninni Öldrunarrannsókn Hjartaverndar þar sem staðsetning líkamsfitu var mæld í líkamsskanna. Enginn þátttakenda var með krabbamein í blöðruhálskirtli við upphaf rannsóknarinnar. Þeim var svo fylgt eftir að meðaltali í 9 ár.

Eftir að tekið hafði verið tillit til annarra áhættuþátta þessa krabbameins kom í ljós að fyrir að fyrir hvert staðalfrávik umfram meðaltal í fitusöfnun á lærum og kviði jókst áhættan á langt gengnu meini í blöðruhálskirtili um 30%. Einnig voru karlmenn sem höfðu lægri líkamsþyngdarstuðul en mikla kviðfitu í meiri áhættu á að greinast með langt gengið mein og jafnframt á að látast vegna krabbameins í blöðruhálskirtli.

Jóhanna segir að niðurstöður rannsóknarinnar bendi til þess að skoða þurfi nánar af hverju staðsetning líkamsfitu skipti máli í þessu tilliti og hvaða líffræðilegu ferlar (til dæmis áhrif frá hormónum) hafa þar áhrif; „Einnig sýna niðurstöðurnar fram á mikilvægi þess að stefna að hæfilegri líkamsþyngd alla ævi til dæmis með því að hreyfa sig reglulega og borða hollan og fjölbreyttan mat.“


Fleiri nýjar fréttir

9. jún. 2023 : Láttu mig vita ef ég get gert eitthvað fyrir þig

Þegar einhver í kringum okkur greinist með krabbamein er eðlilegt að upplifa óöryggi. þótt flestir vilji leggja sitt af mörkum til að vera til staðar getur óttinn við að segja ekki réttu hlutina eða að vita ekki hvað á að segja leitt til þess að jafnvel verði minna samband við viðkomandi en áður.

Lesa meira

30. maí 2023 : Bylting - hálfur milljarður til krabbameinsrannsókna

Vísindasjóður Krabbameinsfélagsins hefur frá stofnun sjóðsins árið 2015 styrkt 41 krabbameinsrannsókn um samanlagt 384 miljónir króna. Næsta úthlutun úr sjóðnum verður í júní næstkomandi.

Lesa meira

30. maí 2023 : Krabbameinsskimanir – mikið fyrir lítið

Áratugir eru síðan skimanir fyrir legháls- og brjóstakrabbameini voru teknar upp á Íslandi. Þær hafa fyrir löngu sannað gildi sitt þó þær veiti aldrei fullkomna vörn. Konur hér á landi hafa með afgerandi hætti sýnt að þær kunna að meta aðgengi að þeim.

Lesa meira

30. maí 2023 : Á Ís­landi greinast um 1800 manns á hverju ári með krabba­mein

Þeir gætu verið færri. Þó að ekki sé hægt að koma í veg fyrir öll krabbamein sýna rannsóknir að áhættuþættir margra krabbameina tengjast lífsstíl. Með bættri lýðheilsu þjóðar er hægt að fækka verulega ákveðnum krabbameinum.

Lesa meira

28. maí 2023 : Lokað 30. maí í ráðgjafarþjónustu vegna vinnufundar ráðgjafarteymis

Lokaða verður hjá ráðgjafarþjónustu Krabbameinsfélagsins þriðjudaginn 30. maí vegna vinnufundar ráðgjafarteymis. Hægt er að senda fyrirspurnir og erindi á radgjof@krabb.is og er þeim svarað eins fljótt og hægt er.

Lesa meira

Var efnið hjálplegt?