Guðmundur Pálsson 21. okt. 2021

Tengsl milli mataræðis á unglingsárum og brjóstakrabbameins

Nýverið birtist íslensk vísindagrein í American Journal of Epidemiology um áhrif vaxtarhraða á unglingsárunum á áhættuna að greinast með krabbamein í brjóstum og í blöðruhálskirtli síðar á ævinni.

Greinin er hluti af doktorsritgerð Álfheiðar Haraldsdóttur í lýðheilsuvísindum, en doktorsverkefni hennar fjallaði aðallega um tengsl milli mataræðis á unglingsárum og brjóstakrabbameins. Notuð voru gögn frá Hjartavernd og Krabbameinsskrá fyrir þessa rannsókn. Meðhöfundar Álfheiðar eru meðal annars Laufey Tryggvadóttir og Jóhanna Eyrún Torfadóttir, en þær starfa allar þrjár hjá Rannsókna– og skráningarsetri Krabbameinsfélagsins.

Helstu niðurstöður rannsóknarinnar voru að hraður vöxtur á unglingsárum jók áhættuna á brjóstakrabbameini borið saman við þær sem uxu hægar á sama tímabili. Átti þetta einkum við um stúlkur sem voru undir meðalhæð og þyngd um 13 ára aldurinn. Fyrir unglingsdrengi mátti hins vegar sjá að hraður vöxtur á unglingsárum virtist draga úr áhættu á að greinast með langt gengið krabbamein í blöðruhálskirtli.

„Þessar niðurstöður benda fyrst og fremst á mikilvægi umhverfisins, eins og til dæmis lífshátta, sem áhættuþátta brjósta- og blöðruhálskirtilskrabbameins. Fjöldi erlendra rannsókna hefur sýnt fram á að bæði og hæð og þyngd geta haft áhrif á áhættuna á að greinast með brjóstakrabbamein, og þessar niðurstöður eru því í takt við þá vitneskju." segir Álfheiður.

Þátttakendur í rannsókninni eru fæddir á árunum 1915 til 1935, á tímum þar sem margir hér á landi bjuggu við matarskort vegna heimskreppunar. Talið er að vannæring geti haft áhrif á brjóstakrabbameinsáhættu, en það fer eftir eðli og lengd hennar hvernig þau áhrif birtast. Í stuttu máli teljum við að vannæring þátttakenda á barnsaldri hafi haft neikvæð áhrif á þá efnaskiptaferla sem stýra hinum hraða vexti unglingsáranna, sem skilaði sér svo í aukinni áhættu á brjóstakrabbameini. 

Ekki er þó hægt að staðfesta í þessari rannsókn hvort þetta samband milli vaxtarhraða og brjóstakrabbameins tengist eingöngu þátttakendum sem voru vannærðir í æsku og hafa þarf í huga að úrtakið var ekki nógu stórt til að skoða það sérstaklega. Það þarf því að gera fleiri og stærri rannsóknir á þessum tengslum, sérstaklega varðandi blöðruhálskirtilskrabbameinið, áður en hægt er að fullyrða um orsakasamband.


Fleiri nýjar fréttir

16. apr. 2024 : Krabba­meins­skráning á Íslandi í 70 ár - Afmælis­málþing

Í tilefni af 70 ára afmæli krabbameinsskráningar á Íslandi býður Krabbameinsfélagið til afmælismálþings.

Lesa meira

16. apr. 2024 : Með þínum stuðningi getum við gert svo ótal margt!

Krabbameinsfélagið þakkar öllum þeim fjölmörgu sem lögðu félaginu lið í Mottumars, árverkni- og fjáröflunarátaki félagsins, í ár. Við erum hrærð yfir þeirri velvild, samkennd og hlýju sem við fundum svo vel fyrir. Öll starfsemi félagsins er rekin fyrir sjálfsaflafé og því er stuðningur almennings og fyrirtækja forsenda fyrir starfinu.

Lesa meira

12. apr. 2024 : Saga Ómars Einarssonar

Ómar fékk krabbamein í háls, árið 2008, á sama tíma og Geir H. Haarde blessaði Ísland. Hann var geislaður í upphafi og síðar skorinn. Í framhaldinu var honum bent á að hitta Ragnar Davíðsson, formann félagsins Ný rödd, sem er eitt af aðildarfélögum Krabbameinsfélagsins. Ragnar hafi hjálpað sér og öðrum mikið.

Lesa meira

8. apr. 2024 : Frábær þátttaka í Skegg­keppni Mottu­mars 2024

Þátttakendur í Skeggkeppni Krabbameinsfélagsins þetta árið voru 360 talsins og alls söfnuðust rétt rúmlega 7,3 milljónir króna. Krabbameinsfélagið þakkar öllum þeim sem tóku þátt og öllum sem styrktu.

Lesa meira

25. mar. 2024 : Saga Sigurgeirs Líndal Ingólfssonar

Sigurgeir segir að fræðslan og kynningin í kringum Mottumars sé þýðingarmikil og hafi ýtt við honum þegar einkenni gerðu vart við sig og gert það að verkum að hann fór til læknis. Einkennin voru ekki ólík þvagfærasýkingu en það var einmitt svarið sem hann fékk fyrst þegar hann leitaði sér hjálpar.

Lesa meira

Var efnið hjálplegt?