Jóhanna Eyrún Torfadóttir 15. nóv. 2018

Tengsl líkamsþyngdar og krabbameina - Hvað er til ráða?

Ný rannsókn leiðir í ljós að hár líkamsþyngdarstuðull er staðfestur áhættuþáttur krabbameina í 12 líffærum. 

Skýrslan er unnin á vegum Alþjóðakrabbameinsrannsóknasjóðsins (WCRF) og var birt fyrr á þessu ári. Líkamsþyngdarstuðull (þyngd deilt með hæð í öðru veldi) hefur verið notaður í rannsóknum til að meta tengsl við sjúkdóma og dánartíðni. Almennt er lægsta sjúkdóms- og dánartíðni meðal einstaklinga sem eru með líkamsþyngdarstuðul á bilinu 18,5 til 25 kg/m2.

Þó að ekki sé hægt að gera greinarmun á fitu- og vöðvamassa út frá líkamsþyngdarstuðli og hann henti því verr til að meta heilsu á einstaklingsgrundvelli þá hentar líkamsþyngdarstuðullinn ágætlega  til að rannsaka hópa fólks.

Áhætta á krabbameini í eftirtöldum líffærum hækkar með hækkandi líkamsþyngdarstuðli (BMI):

 • Vélinda
 • Brisi
 • Gallblöðru
 • Lifur
 • Ristli og endaþarmi
 • Brjóstum – greint eftir tíðarhvörf
 • Legi
 • Eggjastokkum
 • Nýrum
 • Munni, koki og barkarkýli
 • Maga (magaop)
 • Blöðruhálskirtli – langt gengið mein

Hvað er til ráða?
Í skýrslu Alþjóðakrabbameinsrannsóknasjóðsins eru gefnar ráðleggingar til að stuðla að hæfilegri líkamsþyngd og koma í veg fyrir þyngdaraukningu. Þær eru helstar:

 • Hreyfum okkur daglega (minnst 30 mínútur samanlagt á dag t.d. ganga, hjóla, synda og fleira í þeim dúr).
 • Takmörkum skjátíma utan vinnu og skóla (sjónvarp, tölva og snjallsími)
 • Borðum ríflega af heilkornavörum, grænmeti, ávöxtum og baunum
 • Takmörkum neyslu á unnum matvælum sem innihalda mikið af fitu, sterkju og/eða sykri
 • Takmörkum neyslu á drykkjum sem innihalda sykur

Þessar ráðleggingar eru í samræmi við þær almennu ráðleggingar um mataræði sem Embætti landlæknis gefur til að tryggja að líkaminn fái nauðsynleg næringarefni og stuðla að góðri heilsu auk þess að minnka líkur á ýmsum langvinnum sjúkdómum, þar með talið krabbameinum.

Mikilvægt er að stjórnvöld stuðli að bættri lýðheilsu þjóðarinna. Í þessu tilliti má geta þess að sykurskattur lagður á drykki sem innihalda sykur og/eða sætuefni hefur dregið úr neyslu þessara drykkja bæði í Kaliforníu og Mexíkó (1, 2, 3).

Einnig má nefna jákvætt framtak margra vinnustaða að hvetja til hreyfingar til og frá vinnu og meðan á vinnutíma stendur ásamt því að bjóða uppá fjölbreyttan og hollan mat á vinnutíma. Þess konar framtak getur verið jákvæður þáttur í forvörnum gegn margvíslegum sjúkdómum, haft jákvæð áhrif á starfsánægju og mögulega fækkað veikindadögum.

Staðan á Íslandi
Í norrænni rannsókn frá 2017 sem unnin var í samstarfi við Krabbameinsskrá Íslands, var reiknað út hvað hægt væri að koma í veg fyrir mörg krabbameinstilvik á Norðurlöndunum útfrá tíðni ofþyngdar og offitu.

Í rannsókninni kemur meðal annars fram að ef að tíðni ofþyngdar og offitu hefði verið 0%  á Íslandi árið 2016 þá hefði verið hægt að koma í veg fyrir 13% af  krabbameinsgerðum sem tengjast ofþyngd og offitu næstu 30 árin, eða 3000 krabbamein. Mestu áhrifin sáust fyrir krabbamein í brjóstum og ristli en einnig mátti greina mestu hlutfallslegu lækkunina fyrir mein í legbol og vélinda. Ef tíðni ofþyngdar og offitu myndi lækka um 50%  á næstu 20 árum þá myndi krabbameinstilvikum fækka um 1050 (5%).

Í samanburði við hin Norðurlöndin  væri  hlutfallslega hægt að koma í veg fyrir fleiri krabbameinstilvik hérlendis þar sem offita fullorðinna er algengari á Íslandi.

Þátttakendur í landskönnunum um mataræði Íslendinga hafa gefið upplýsingar um hæð og þyngd á undanförnum áratugum og samkvæmt þessum rannsóknum jókst tíðni offitu meðal fullorðinna frá því að vera 8% árið 1990 upp í 21% árið 2011. Einnig hefur upplýsingum um hæð og þyngd landsmanna verið safnað í rannsókninni „Heilsa & líðan“ á vegum Embættisins og þar sést áframhaldandi aukning í offitu meðal landsmanna. Slík þróun hefur ekki sést undanfarin ár hjá grunnskólabörnum á höfuðborgarsvæðinu þar sem tíðni offitu hefur staðið í stað eða jafnvel minnkað og því mikilvægt að huga áfram vel að umgjörð grunnskóla en líka framhaldsskóla, háskóla og vinnustaða á landinu til að auðvelda öllum aðgengi að hollum og fjölbreyttum máltíðum og hreyfingu en líka að sérfræðingum sem sérhæfa sig í heilsutengdum málefnum.

Aukin offita meðal landsmanna undirstrikar þörfina fyrir forvarnir og meðferðarmöguleika hjá stjórnvöldum, svo sem að koma á sykurskatti á gosdrykki en rannsóknir sýna bein tengsl milli neyslu slíkra drykkja og þyngdaraukningar. Sé komið í veg fyrir þyngdaraukningu á fullorðinsárum er dregið úr líkunum á að einstaklingur fái sykursýki af gerðinni tvö, hjarta- og æðasjúkdóma og ýmsar gerðir krabbameina.

Jóhanna E. Torfadóttir, næringar- og lýðheilsufræðingur og fræðslufulltrúi hjá Krabbameinsfélaginu.

Heimildir
1: https://www.bmj.com/content/352/bmj.h6704
2: https://www.ncbi.nlm.nih.gov/pubmed/28228484
3: https://www.ncbi.nlm.nih.gov/pubmed/?term=Impact+of+the+Berkeley+Excise+Tax+on+Sugar-Sweetened+Beverage+Consumption


Fleiri nýjar fréttir

28. jún. 2022 : 70 andlit fyrir 70 ár: Heildar­verkið lítur dagsins ljós!

Krabbameinsfélagið fagnaði 70 ára afmæli sínu með ýmsum hætti á afmælisárinu sem lauk formlega í gær, mánudaginn 27. júní.

Lesa meira

28. jún. 2022 : „Kær­leik­urinn, hlátur­inn og sam­hugur­inn stækkaði hjarta mitt”

Frásögn Guðnýjar Hansen sem tók þátt í verkefninu „Kastað til bata” í byrjun mánaðarins.

Lesa meira

21. jún. 2022 : Reykja­víkur­mara­þon 2022: „Ég hleyp af því ég get það”

Nú verður hlaupið til góðs á ný eftir nokkurt hlé - loksins! Hlaupið hefur fest sig í sessi sem einn stærsti fjölskylduviðburður í Reykjavík, þar sem allir geta fundið vegalengd við sitt hæfi.

Lesa meira

20. jún. 2022 : Sumarhappdrætti 2022: Fékkst þú vinning?

Dregið hefur verið í sumarhappdrætti Krabbameinsfélagsins. Vinningar eru að þessu sinni 268 talsins að verðmæti ríflega 53 milljónir króna.

Lesa meira

16. jún. 2022 : Sumar­happ­drætti: Dregið 17. júní - átt þú miða?

Hægt er að greiða heimsenda miða í sumarhappdrætti Krabbameinsfélagsins til og með 17. júní í heimabanka eða netbanka. 

Lesa meira

Var efnið hjálplegt?