Birna Þórisdóttir 27. nóv. 2018

Tengsl brjóstapúða við fágætt krabbamein

  • © Krabbameinsfélagið

Umræða í fjölmiðlum í dag um hugsanleg tengsl brjóstapúða með hrjúfu yfirborði við fágætt eitilfrumukrabbamein, anaplastic lar­ge cell lymp­homa (ALCL), byggir ekki á nýjum rannsóknum. Á árunum 1989-2018 greindust 27 einstaklingar á Íslandi með ALCL, þar af einungis fjórar konur. Ekki er vitað hvort einhver kvennanna hafi verið með brjóstapúða.

Umræðuna má rekja til ársins 1997 og styrktist hún árið 2011 þegar yfirvöld, meðal annars í Bretlandi og Bandaríkjunum, lögðu áherslu á að bæði heilbrigðisstarfsfólk og fólk sem fengi brjóstapúða væri meðvitað um hugsanleg tengsl við krabbameinið. Árið 2016 byrjaði Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin (WHO) að nota breast implant-associated anaplastic large cell lymphoma (BIA-ALCL) yfir eitilfrumukrabbamein sem gæti myndast vegna brjóstapúða.

ANSM, franska lyfjastofnunin, hyggst boða almenning, heilbrigðisstarfsfólk, rannsakendur og aðra hagsmunaaðila til fundar í byrjun febrúar 2019. Þar er ætlunin að fara yfir stöðu þekkingar á hugsanlegum tengslum brjóstapúða við ALCL og gefa álit á málinu. Þar til ályktun af fundinum liggur fyrir mælir ANSM með því að brjóstapúðar með slétt yfirborð séu notaðir. 

Erfitt er að meta tengsl milli brjóstapúða og ALCL vegna þess hve krabbameinið er fátítt og skráningum á notkun og tegundum brjóstapúða er ábótavant. Almennt eru um 85-90% allra brjóstapúða með hrjúft yfirborð. Krabbameinsfélagið hefur ekki getað fengið upplýsingar um hvaða tegund púða er mest notuð á Íslandi.

Félagið fylgist með rannsóknum og ályktunum um hugsanleg tengsl brjóstapúða og krabbameins. Það er í samræmi við hlutverk félagsins að vera í fylkingarbrjósti í baráttunni gegn krabbameinum. 

Hafi einhver spurningar eða áhyggjur af umræddu krabbameini, eða öðru er tengist krabbameinum almennt, er bent á að hafa samband við ráðgjafa á Ráðgjafarþjónustu Krabbameinsfélagsins í síma 800-4040 eða með tölvupósti á radgjof@krabb.is.


Fleiri nýjar fréttir

16. apr. 2024 : Krabba­meins­skráning á Íslandi í 70 ár - Afmælis­málþing

Í tilefni af 70 ára afmæli krabbameinsskráningar á Íslandi býður Krabbameinsfélagið til afmælismálþings.

Lesa meira

16. apr. 2024 : Með þínum stuðningi getum við gert svo ótal margt!

Krabbameinsfélagið þakkar öllum þeim fjölmörgu sem lögðu félaginu lið í Mottumars, árverkni- og fjáröflunarátaki félagsins, í ár. Við erum hrærð yfir þeirri velvild, samkennd og hlýju sem við fundum svo vel fyrir. Öll starfsemi félagsins er rekin fyrir sjálfsaflafé og því er stuðningur almennings og fyrirtækja forsenda fyrir starfinu.

Lesa meira

12. apr. 2024 : Saga Ómars Einarssonar

Ómar fékk krabbamein í háls, árið 2008, á sama tíma og Geir H. Haarde blessaði Ísland. Hann var geislaður í upphafi og síðar skorinn. Í framhaldinu var honum bent á að hitta Ragnar Davíðsson, formann félagsins Ný rödd, sem er eitt af aðildarfélögum Krabbameinsfélagsins. Ragnar hafi hjálpað sér og öðrum mikið.

Lesa meira

8. apr. 2024 : Frábær þátttaka í Skegg­keppni Mottu­mars 2024

Þátttakendur í Skeggkeppni Krabbameinsfélagsins þetta árið voru 360 talsins og alls söfnuðust rétt rúmlega 7,3 milljónir króna. Krabbameinsfélagið þakkar öllum þeim sem tóku þátt og öllum sem styrktu.

Lesa meira

25. mar. 2024 : Saga Sigurgeirs Líndal Ingólfssonar

Sigurgeir segir að fræðslan og kynningin í kringum Mottumars sé þýðingarmikil og hafi ýtt við honum þegar einkenni gerðu vart við sig og gert það að verkum að hann fór til læknis. Einkennin voru ekki ólík þvagfærasýkingu en það var einmitt svarið sem hann fékk fyrst þegar hann leitaði sér hjálpar.

Lesa meira

Var efnið hjálplegt?