Ása Sigríður Þórisdóttir 5. des. 2021

Takk sjálfboðaliðar!

Krabbameinsfélagið þakkar ykkur af heilum hug, ykkar er dagurinn í dag! Sjálfboðaliðar Krabbameinsfélaganna eru fjölmargir, alls staðar á landinu og eru meðal þeirra sem gera félaginu kleift að standa við bakið á fjölmörgum fjölskyldum sem þurfa að takast á við krabbamein í sínu daglega lífi.

Á alþjóðlegum degi sjálfboðaliða, sem er í dag 5. desember, er um allan heim vakin athygli á því mikilvæga hlutverki sem sjálfboðaliðar sinna í samfélaginu. Dagurinn á rætur sínar að rekja til átaks Sameinuðu þjóðanna sem vilja minna á fjölbreyttu starfi sjálfboðaliða sem oft skiptir algerlega sköpum í samfélaginu. Krabbameinsfélag Íslands tekur undir það og vill nýta þennan dag til þess að þakka sjálfboðaliðum sem leggja málefnum félagsins lið með því að gefa tíma sinn og krafta til málstaðarins.

Markmið Krabbameinsfélags Íslands eru m.a. að fækka þeim sem veikjast af krabbameinum og bæta lífsgæði þeirra sem greinast með krabbamein og fjölskyldna þeirra. Aðildarfélög Krabbameinsfélags Íslands eru 25 talsins. Félögin eru ýmist svæðafélög, sem starfa á tilteknum svæðum á landinu eða félög sem eru eyrnamerkt ákveðnum krabbameinum eða aldurshópi. Félögin eru fjölbreytt, misstór og starfsemin auðvitað mismikil. Þau eiga sameiginlegt að þeim er öllum stjórnað af sjálfboðaliðum sem einnig sinna flest öllu starfi félaganna hvort sem það er jafningjastuðningur, fræðsla eða skipulagning viðburða og námskeiða fyrir þá sem hafa greinst með krabbamein og aðstandendur þeirra.  Í Reykjavík er starfandi akstursþjónusta þar sem sjálfboðaliðar aðstoða einstaklinga sem eiga erfitt með að komast í og úr meðferð, til dæmis vegna framkvæmda og skorts á bílastæðum. Í gegnum Stuðningsnetið getur fólk sótt stuðning frá fólki sem hefur reynslu af krabbameinum, og hefur setið námskeið til þess að geta lagt lið fólki sem stendur í sömu sporum.

Þá eru ónefndir allir þeir sem skipa stjórn Krabbameinsfélagsins, stjórn Vísindasjóðs Krabbameinsfélagsins og Vísindaráð félagsins.

Sjálfboðaliðarnir eru oft á tíðum fólkið bakvið tjöldin en á sama tíma fólkið sem oftar en ekki knýr hlutina áfram. Það má segja að sjálfboðaliðastörf séu eins og gjöf sem heldur áfram að gefa, því þau gagnast líka þeim sem sinna þeim. Rannsóknir sýna að það að sinna sjálfboðaliðastarfi eykur vellíðan, það er gott að gera gagn.

Kæru sjálfboðaliðar – Krabbameinsfélagið þakkar ykkur af heilum hug, ykkar er dagurinn í dag!

Halla Þorvaldsdóttir, framkvæmdastjóri Krabbameinsfélagsins

Ómetanleg aðstoð sjálfboðaliða Stuðningsnetsins


Fleiri nýjar fréttir

Halla Þorvaldsdóttir

15. jan. 2022 : Dýrkeypt heimsóknabann

Þær aðstæður sem skapast af heimsóknarbanni gera fólki ókleift að vera saman í erfiðum aðstæðum og eru í raun óboðlegar og ómannúðlegar. Það getur haft víðtæk áhrif til lengri tíma litið bæði fyrir sjúklinga, aðstandendur og starfsfólk. Leita verður allra leiða til lausna meðan staðan er þessi og þar ríður á að fólk standi saman, sjúklingar, aðstandendur og heilbrigðisstarfsfólk, gefist ekki upp gagnvart verkefninu heldur takist á við aðstæðurnar með þrautseigju en ekki síður útsjónarsemi að leiðarljósi. 

Lesa meira

14. jan. 2022 : Bláa Lónið styrkir Vísindasjóð Krabbameinsfélagsins um 3 milljónir

„Það er okkur sönn ánægja að geta veitt fjárstuðning sem þennan, enda er, hér eftir sem hingað til, afar mikilvægt að efla og styrkja íslenskar rannsóknir á krabbameinum og er Vísindasjóður Krabbameinsfélagsins vel til þess fallinn að halda utan um þær,“ segir Grímur Sæmundsen, forstjóri Bláa Lónsins.

Lesa meira

10. jan. 2022 : Doktorsvörn - Keratinocyte krabbamein á Íslandi: Faraldsfræði og lyfjanotkun

Þann 20. desember sl. varði Jónas Aðalsteinn Aðalsteinsson doktorsritgerð sína í læknavísindum við Læknadeild Háskóla Íslands. Verkefnið byggði á gögnum Krabbameinsskrár. Unnið í samstarfi við Rannsókna- og Skráningarsetur Krabbameins­félagsins og var forstöðumaður setursins annar tveggja leiðbeinenda.

Lesa meira

5. jan. 2022 : Fundur með heilbrigðisráðherra um nýja dagdeild

Í morgun átti Krabbameinsfélagið góðan fund með nýjum heilbrigðisráðherra Willum Þór Þórssyni og starfsmönnum ráðuneytisins. Á fundinum var farið stuttlega yfir starfsemi félagsins en meginefni fundarins var alvarlega staða á dagdeild blóð- og krabbameinslækninga á Landspítala en aðstaða deildarinnar er óboðleg, fyrir sjúklinga, aðstandendur og starfsfólk. 

Lesa meira

5. jan. 2022 : Tölfræði um krabbamein uppfærð til ársins 2020

Á heimasíðu Rannsókna- og skráningarseturs Krabbameinsfélags Íslands (RSKÍ) má finna ýmsa tölfræði um krabbamein, undir Rannsóknir og skráning. Nýgengi, dánartíðni og lifun eru birt sem meðaltal 5 ára til að jafna út tilviljunarsveiflum sem eru algengar í hinu fámenna íslenska þýði. Þessi tölfræði er uppfærð árlega. Nýgengi og dánartíðni eru aldursstöðluð með norrænum aldursstaðli.

Lesa meira

Var efnið hjálplegt?