Sigriður Sólan Guðlaugsdóttir 4. des. 2019

Stuðningur við fagaðila sem vinna með börn eftir foreldramissi

  • Ásgeir R. Helgason, dósent í sálfræði og sérfræðingur í fræðslu og forvörnum hjá Krabbameinsfélaginu.

Krabbameinsfélagið undirbýr nú opnun fræðslu- stuðnings- og handleiðslumiðstöðvar sem ætluð er fagaðilum sem vinna í nærumhverfi barna sem misst hafa foreldri. Samkvæmt gögnum frá Hagstofu Íslands má gera ráð fyrir að um 100 börn missi foreldri ár hvert.

Með „fagaðilum” er átt við kennara, skólastjórnendur, frístundakennara, skólasálfræðinga og skólahjúkrunarfræðinga. Ef á þarf að halda mun félagið einnig bjóða heilbrigðisstarfsfólki, sem kemur að umönnun barnanna, uppá stuðning og handleiðslu.

„Það er búið að setja lög um að börn sem missa foreldri eigi rétt á ýmsum stuðningi og fagfólkið sem á að sinna þessum börnum þarf að hafa einhver úrræði og aðgang að  handleiðslu og öðrum stuðningi,“ segir Ásgeir R. Helgason verkefnastjóri verkefnisins sem og sérfræðingur í fræðslu og forvörnum hjá Krabbameinsfélaginu.

Í handleiðsluteymi Krabbameinsfélagsins verður fólk með menntun í félagsráðgjöf, sálfræði og hjúkrunarfræði sem hefur reynslu og sérþjálfun í umönnun barna í sorg.

Fulltrúar Krabbameinsfélagsins hafa heimsótt leikskóla, grunnskóla og framhalsskóla, aðallega á Norðurlandi. Markmið þessara vettvangsheimsókna er að ræða við skólastjórnendur og kennara um þeirra reynslu af umönnun barna sem misst hafa foreldri og gera þarfagreiningu sem verður undirstaða frekari vettvangsheimsókna.

Samstarf er í gangi við hóp sem unnið hefur að þróun laga sem eiga að tryggja það að börn sem missa foreldri fái viðunandi hjálp. Lögin hafa nýlega verið samþykkt á Alþingi. Krabbameinsfélagið hefur einnig innleitt samtarf við nýstofnaða Sorgarmiðstöð sem er til húsa í St. Jósefsspítala í Hafnarfirði varðandi miðstöðina.


Fleiri nýjar fréttir

4. des. 2023 : Ný rannsókn styður við einstaklingssniðna meðferð

Ný íslensk rannsókn sem birtist í dag í npj Breast Cancer og var unnin í samstarfi Krabbameinsfélagsins við meinafræðideild og krabbameinslækningadeild Landspítala, og við Háskóla Íslands. 

Lesa meira

1. des. 2023 : Minningarorð um Jón Þorgeir Hallgrímsson

Jón Þorgeir Hallgrímsson, læknir, fyrrverandi formaður Krabbameinsfélags Íslands og Krabbameinsfélags Reykjavíkur lést þann 21. nóvember sl., 92 ára að aldri. Jóns Þorgeirs er minnst hjá Krabbameinsfélaginu með mikilli virðingu og þakklæti. Aðstandendum vottar félagið innilega samúð. 

Lesa meira

28. nóv. 2023 : Taktu þátt í skemmtilegum jólaleik

Litríkt, jólalegt og hollt á borðið þitt. Krabbameinsfélagið í samstarfi við Banana og Hagkaup óska eftir jólalegum útfærslum á framsetningu á grænmeti, ávöxtum og berjum til að nýta á jólaborðið eða veislubakkann. Veglegir vinningar í boði.

Lesa meira
Ljósmynd: Thule Photos

28. nóv. 2023 : Dýrmætt að vita að maður stendur ekki einn í þessu

Flestir sem hafa upplifað það að missa einhvern náinn sér eru líklega sammála um að sorgin er erfið og þungbær. Sorg barna er sérstaklega vandmeðfarin og það getur skipt máli fyrir úrvinnslu þeirra að fá réttan stuðning frá nærsamfélaginu. Hannes missti eiginkonu sína úr krabbameini árið 2022, en þau áttu tvær dætur saman. Hann segir hér frá sorgarúrvinnslunni og helstu úrræðum sem þau feðgin hafa nýtt sér, en þar á meðal er stuðningur Krabbameinsfélagsins við börn sem missa foreldri.

Lesa meira

28. nóv. 2023 : „Mig langaði til að taka þessa byrði og bera hana sjálf“

Rakel Ósk Þórhallsdóttir, eigandi vefverslunarinnar Central Iceland, hefur undanfarin þrjú ár stutt dyggilega við Bleiku slaufuna, en í heildina telur framlag hennar 7.385.000 kr. Rakel segir hér frá drifkraftinum á bak við verkefnið, en hún hefur persónulega tengingu við málstaðinn.

Lesa meira

Var efnið hjálplegt?