Sigriður Sólan Guðlaugsdóttir 25. sep. 2020

Stuðningur við börn og unglinga sem missa foreldri

Nýleg lög tryggja ábyrgð samfélagsins gagnvart börnum í þessari stöðu

Krabbameinsfélagið vinnur nú að því að koma á fót stuðnings- og handleiðsluteymi fyrir fagfólk í nærumhverfi barna sem misst hafa foreldri. Verkefnið er unnið í samvinnu við heilbrigðisyfirvöld, Sorgarmiðstöðina, skólakerfið og fleiri.

Stuðnings- og handleiðsluteymi verður komið á fót, ekki síst fyrir kennara og starfsfólk skóla en einnig starfsfólk heilsugæslunnar sem lögum samkvæmt á að sinna börnum í þessari stöðu. 

Á síðasta ári tóku í gildi lög þar sem ábyrgð samfélagsins er betur skilgreind gagnvart réttindum barna undir 19 ára aldri sem missa foreldri. Heilsugæslan er skilgreind sem lykilaðili í eftirfylgni barna í þessari stöðu og skyldug til að athuga hagi þeirra og veita þann stuðning sem þörf er á. Samkvæmt tölum Hagstofunnar verða um 100 börn fyrir því árlega að missa foreldri. Helmingur þeirra tengist krabbameinum. 

Verkefnið er unnið í áföngum og fyrsti hluti þess felur í sér könnun á því hvers konar stuðning fagfólkið telur sig helst þurfa. Þarfagreiningin fer fram á Norðurlandi eystra í samvinnu við Krabbameinsfélag Akureyrar og nágrennis. Skólastjórnendur víðs vegar á landinu mega eiga von á því að fulltrúar Krabbameinsfélagsins falist eftir samstarfi um þróun verkefnisins. 

„Við viljum vita hvaða reynslu starfsfólk skólanna býr yfir og hvað það er helst sem sérþjálfað fagfólk Krabbameinsfélagsins getur aðstoðað við,“ segir Ásgeir R. Helgason, dósent í sálfræði og sérfræðingur í fræðslu og forvörnum hjá Krabbameinsfélaginu. 

Aðkoma Krabbameinsfélagsins felst fyrst og fremst í því að bjóða faglega handleiðslu varðandi vinnu með börnum í kjölfar andláts foreldris. 

„Það er gífurlega mikilvægt að veita þessum faghópi bakland sem hann getur leitað til svo hægt sé að veita börnunum besta mögulegan stuðning í samræmi við nýjustu þekkingu og rannsóknir,“ segir Ásgeir.

Krabbameinsfélagið veitir þeim sem greinast með krabbamein og aðstandendum þeirra ráðgjöf og stuðning án endurgjalds og er reglulega með námskeið fyrir ungmenni sem misst hafa foreldri.

Greinin birtist í Blaði Krabbameinsfélagsins veturinn 2020-2021.


Fleiri nýjar fréttir

Halla Þorvaldsdóttir

15. jan. 2022 : Dýrkeypt heimsóknabann

Þær aðstæður sem skapast af heimsóknarbanni gera fólki ókleift að vera saman í erfiðum aðstæðum og eru í raun óboðlegar og ómannúðlegar. Það getur haft víðtæk áhrif til lengri tíma litið bæði fyrir sjúklinga, aðstandendur og starfsfólk. Leita verður allra leiða til lausna meðan staðan er þessi og þar ríður á að fólk standi saman, sjúklingar, aðstandendur og heilbrigðisstarfsfólk, gefist ekki upp gagnvart verkefninu heldur takist á við aðstæðurnar með þrautseigju en ekki síður útsjónarsemi að leiðarljósi. 

Lesa meira

14. jan. 2022 : Bláa Lónið styrkir Vísindasjóð Krabbameinsfélagsins um 3 milljónir

„Það er okkur sönn ánægja að geta veitt fjárstuðning sem þennan, enda er, hér eftir sem hingað til, afar mikilvægt að efla og styrkja íslenskar rannsóknir á krabbameinum og er Vísindasjóður Krabbameinsfélagsins vel til þess fallinn að halda utan um þær,“ segir Grímur Sæmundsen, forstjóri Bláa Lónsins.

Lesa meira

10. jan. 2022 : Doktorsvörn - Keratinocyte krabbamein á Íslandi: Faraldsfræði og lyfjanotkun

Þann 20. desember sl. varði Jónas Aðalsteinn Aðalsteinsson doktorsritgerð sína í læknavísindum við Læknadeild Háskóla Íslands. Verkefnið byggði á gögnum Krabbameinsskrár. Unnið í samstarfi við Rannsókna- og Skráningarsetur Krabbameins­félagsins og var forstöðumaður setursins annar tveggja leiðbeinenda.

Lesa meira

5. jan. 2022 : Fundur með heilbrigðisráðherra um nýja dagdeild

Í morgun átti Krabbameinsfélagið góðan fund með nýjum heilbrigðisráðherra Willum Þór Þórssyni og starfsmönnum ráðuneytisins. Á fundinum var farið stuttlega yfir starfsemi félagsins en meginefni fundarins var alvarlega staða á dagdeild blóð- og krabbameinslækninga á Landspítala en aðstaða deildarinnar er óboðleg, fyrir sjúklinga, aðstandendur og starfsfólk. 

Lesa meira

5. jan. 2022 : Tölfræði um krabbamein uppfærð til ársins 2020

Á heimasíðu Rannsókna- og skráningarseturs Krabbameinsfélags Íslands (RSKÍ) má finna ýmsa tölfræði um krabbamein, undir Rannsóknir og skráning. Nýgengi, dánartíðni og lifun eru birt sem meðaltal 5 ára til að jafna út tilviljunarsveiflum sem eru algengar í hinu fámenna íslenska þýði. Þessi tölfræði er uppfærð árlega. Nýgengi og dánartíðni eru aldursstöðluð með norrænum aldursstaðli.

Lesa meira

Var efnið hjálplegt?