Sigriður Sólan Guðlaugsdóttir 25. sep. 2020

Stuðningur við börn og unglinga sem missa foreldri

Nýleg lög tryggja ábyrgð samfélagsins gagnvart börnum í þessari stöðu

Krabbameinsfélagið vinnur nú að því að koma á fót stuðnings- og handleiðsluteymi fyrir fagfólk í nærumhverfi barna sem misst hafa foreldri. Verkefnið er unnið í samvinnu við heilbrigðisyfirvöld, Sorgarmiðstöðina, skólakerfið og fleiri.

Stuðnings- og handleiðsluteymi verður komið á fót, ekki síst fyrir kennara og starfsfólk skóla en einnig starfsfólk heilsugæslunnar sem lögum samkvæmt á að sinna börnum í þessari stöðu. 

Á síðasta ári tóku í gildi lög þar sem ábyrgð samfélagsins er betur skilgreind gagnvart réttindum barna undir 19 ára aldri sem missa foreldri. Heilsugæslan er skilgreind sem lykilaðili í eftirfylgni barna í þessari stöðu og skyldug til að athuga hagi þeirra og veita þann stuðning sem þörf er á. Samkvæmt tölum Hagstofunnar verða um 100 börn fyrir því árlega að missa foreldri. Helmingur þeirra tengist krabbameinum. 

Verkefnið er unnið í áföngum og fyrsti hluti þess felur í sér könnun á því hvers konar stuðning fagfólkið telur sig helst þurfa. Þarfagreiningin fer fram á Norðurlandi eystra í samvinnu við Krabbameinsfélag Akureyrar og nágrennis. Skólastjórnendur víðs vegar á landinu mega eiga von á því að fulltrúar Krabbameinsfélagsins falist eftir samstarfi um þróun verkefnisins. 

„Við viljum vita hvaða reynslu starfsfólk skólanna býr yfir og hvað það er helst sem sérþjálfað fagfólk Krabbameinsfélagsins getur aðstoðað við,“ segir Ásgeir R. Helgason, dósent í sálfræði og sérfræðingur í fræðslu og forvörnum hjá Krabbameinsfélaginu. 

Aðkoma Krabbameinsfélagsins felst fyrst og fremst í því að bjóða faglega handleiðslu varðandi vinnu með börnum í kjölfar andláts foreldris. 

„Það er gífurlega mikilvægt að veita þessum faghópi bakland sem hann getur leitað til svo hægt sé að veita börnunum besta mögulegan stuðning í samræmi við nýjustu þekkingu og rannsóknir,“ segir Ásgeir.

Krabbameinsfélagið veitir þeim sem greinast með krabbamein og aðstandendum þeirra ráðgjöf og stuðning án endurgjalds og er reglulega með námskeið fyrir ungmenni sem misst hafa foreldri.

Greinin birtist í Blaði Krabbameinsfélagsins veturinn 2020-2021.


Fleiri nýjar fréttir

16. apr. 2024 : Krabba­meins­skráning á Íslandi í 70 ár - Afmælis­málþing

Í tilefni af 70 ára afmæli krabbameinsskráningar á Íslandi býður Krabbameinsfélagið til afmælismálþings.

Lesa meira

16. apr. 2024 : Með þínum stuðningi getum við gert svo ótal margt!

Krabbameinsfélagið þakkar öllum þeim fjölmörgu sem lögðu félaginu lið í Mottumars, árverkni- og fjáröflunarátaki félagsins, í ár. Við erum hrærð yfir þeirri velvild, samkennd og hlýju sem við fundum svo vel fyrir. Öll starfsemi félagsins er rekin fyrir sjálfsaflafé og því er stuðningur almennings og fyrirtækja forsenda fyrir starfinu.

Lesa meira

12. apr. 2024 : Saga Ómars Einarssonar

Ómar fékk krabbamein í háls, árið 2008, á sama tíma og Geir H. Haarde blessaði Ísland. Hann var geislaður í upphafi og síðar skorinn. Í framhaldinu var honum bent á að hitta Ragnar Davíðsson, formann félagsins Ný rödd, sem er eitt af aðildarfélögum Krabbameinsfélagsins. Ragnar hafi hjálpað sér og öðrum mikið.

Lesa meira

8. apr. 2024 : Frábær þátttaka í Skegg­keppni Mottu­mars 2024

Þátttakendur í Skeggkeppni Krabbameinsfélagsins þetta árið voru 360 talsins og alls söfnuðust rétt rúmlega 7,3 milljónir króna. Krabbameinsfélagið þakkar öllum þeim sem tóku þátt og öllum sem styrktu.

Lesa meira

25. mar. 2024 : Saga Sigurgeirs Líndal Ingólfssonar

Sigurgeir segir að fræðslan og kynningin í kringum Mottumars sé þýðingarmikil og hafi ýtt við honum þegar einkenni gerðu vart við sig og gert það að verkum að hann fór til læknis. Einkennin voru ekki ólík þvagfærasýkingu en það var einmitt svarið sem hann fékk fyrst þegar hann leitaði sér hjálpar.

Lesa meira

Var efnið hjálplegt?