Sigriður Sólan Guðlaugsdóttir 25. sep. 2020

Stuðningur við börn og unglinga sem missa foreldri

Nýleg lög tryggja ábyrgð samfélagsins gagnvart börnum í þessari stöðu

Krabbameinsfélagið vinnur nú að því að koma á fót stuðnings- og handleiðsluteymi fyrir fagfólk í nærumhverfi barna sem misst hafa foreldri. Verkefnið er unnið í samvinnu við heilbrigðisyfirvöld, Sorgarmiðstöðina, skólakerfið og fleiri.

Stuðnings- og handleiðsluteymi verður komið á fót, ekki síst fyrir kennara og starfsfólk skóla en einnig starfsfólk heilsugæslunnar sem lögum samkvæmt á að sinna börnum í þessari stöðu. 

Á síðasta ári tóku í gildi lög þar sem ábyrgð samfélagsins er betur skilgreind gagnvart réttindum barna undir 19 ára aldri sem missa foreldri. Heilsugæslan er skilgreind sem lykilaðili í eftirfylgni barna í þessari stöðu og skyldug til að athuga hagi þeirra og veita þann stuðning sem þörf er á. Samkvæmt tölum Hagstofunnar verða um 100 börn fyrir því árlega að missa foreldri. Helmingur þeirra tengist krabbameinum. 

Verkefnið er unnið í áföngum og fyrsti hluti þess felur í sér könnun á því hvers konar stuðning fagfólkið telur sig helst þurfa. Þarfagreiningin fer fram á Norðurlandi eystra í samvinnu við Krabbameinsfélag Akureyrar og nágrennis. Skólastjórnendur víðs vegar á landinu mega eiga von á því að fulltrúar Krabbameinsfélagsins falist eftir samstarfi um þróun verkefnisins. 

„Við viljum vita hvaða reynslu starfsfólk skólanna býr yfir og hvað það er helst sem sérþjálfað fagfólk Krabbameinsfélagsins getur aðstoðað við,“ segir Ásgeir R. Helgason, dósent í sálfræði og sérfræðingur í fræðslu og forvörnum hjá Krabbameinsfélaginu. 

Aðkoma Krabbameinsfélagsins felst fyrst og fremst í því að bjóða faglega handleiðslu varðandi vinnu með börnum í kjölfar andláts foreldris. 

„Það er gífurlega mikilvægt að veita þessum faghópi bakland sem hann getur leitað til svo hægt sé að veita börnunum besta mögulegan stuðning í samræmi við nýjustu þekkingu og rannsóknir,“ segir Ásgeir.

Krabbameinsfélagið veitir þeim sem greinast með krabbamein og aðstandendum þeirra ráðgjöf og stuðning án endurgjalds og er reglulega með námskeið fyrir ungmenni sem misst hafa foreldri.

Greinin birtist í Blaði Krabbameinsfélagsins veturinn 2020-2021.


Fleiri nýjar fréttir

30. jún. 2022 : Veglegur stuðningur Velunnara Krabba­meins­félagsins við starfið á lands­byggðinni

Velunnarasjóður hefur úthlutað rúmlega 26 milljónum til aðildarfélaga það sem af er árinu.

Lesa meira

28. jún. 2022 : 70 andlit fyrir 70 ár: Heildar­verkið lítur dagsins ljós!

Krabbameinsfélagið fagnaði 70 ára afmæli sínu með ýmsum hætti á afmælisárinu sem lauk formlega í gær, mánudaginn 27. júní.

Lesa meira

28. jún. 2022 : „Kær­leik­urinn, hlátur­inn og sam­hugur­inn stækkaði hjarta mitt”

Frásögn Guðnýjar Hansen sem tók þátt í verkefninu „Kastað til bata” í byrjun mánaðarins.

Lesa meira

21. jún. 2022 : Reykja­víkur­mara­þon 2022: „Ég hleyp af því ég get það”

Nú verður hlaupið til góðs á ný eftir nokkurt hlé - loksins! Hlaupið hefur fest sig í sessi sem einn stærsti fjölskylduviðburður í Reykjavík, þar sem allir geta fundið vegalengd við sitt hæfi.

Lesa meira

20. jún. 2022 : Sumarhappdrætti 2022: Fékkst þú vinning?

Dregið hefur verið í sumarhappdrætti Krabbameinsfélagsins. Vinningar eru að þessu sinni 268 talsins að verðmæti ríflega 53 milljónir króna.

Lesa meira

Var efnið hjálplegt?