Anna Margrét Björnsdóttir 27. mar. 2023

Stuðningur í verki

Viðtal við hjónin Hildi Ýr Kristinsdóttur og Helga Rúnar Bragason, þátttakanda í Skeggkeppni Mottumars og heiðursfélaga Round Table Ísland. Söfnunarsíðu Helga Rúnars í Skeggkeppni Mottumars má nálgast hér.

Helgi Rúnar Bragason hefur náð eftirtektarverðum árangri í Skeggkeppni Mottumars undanfarin tvö ár, en samanlagt hefur hann safnað tæplega 3 milljónum króna. Helgi Rúnar og Hildur Ýr litu við hjá Krabbameinsfélaginu í vikunni og ræddu við okkur um krabbameinsgreiningu Helga Rúnars, Round Table félagsskapinn og mikilvægi þess að gefa af sér.

Helgi Rúnar rekur söguna af krabbameinsgreiningunni á söfnunarsíðunni sinni, en hann greindist með illkynja krabbamein við tungurót í júní 2021. Hann leitaði til læknis vegna verks í eyra og þau hjónin eru sammála um að allt hafi gengið hratt og örugglega fyrir sig um leið og meinið uppgötvaðist. „Þegar við hittum lækni var búið að undirbúa allt. Búið að panta tíma hjá tannlækni og næringarfræðingi og svo vorum við bara leidd áfram,“ segir Hildur Ýr. Helgi Rúnar fór í kjölfarið í 35 geislameðferðir, 6 lyfjameðferðir og aðgerð til að uppræta meinið. Því miður greindist nýtt ólæknandi mein í nefholi stuttu síðar og um þessar mundir er Helgi Rúnar í tíu skipta geislameðferð á ný til að létta á þrengslum í nefholinu og bæta lífsgæði hans.

Dýrmætur félagsskapur

Helgi Rúnar er heiðursfélagi Round Table á Íslandi, en Round Table samtökin eru alþjóðlegur félagsskapur ungra manna á aldrinum 20-45 ára. Tilgangur samtakanna er að vera stuðnings- og félagsnet fyrir karlmenn og einnig að láta gott af sér leiða. „Ég er búinn að vera í félaginu síðan 2006, en er því miður genginn upp vegna aldurs. Ég var hins vegar gerður að heiðursfélaga í nóvember og er fimmti maðurinn í sögu Round Table til að hljóta þann heiður. Það var mikil viðurkenning fyrir gott starf og hefur hjálpað mér mikið í gegnum þessi veikindi,“ segir Helgi Rúnar.

Það er auðheyrt á Helga Rúnari að það er mikill kærleikur á milli félaga innan Round Table samtakanna og fjölskyldan er þakklát fyrir stuðningsnetið sem félagsskapurinn myndar. „Þeir hafa hver af öðrum komið og stutt okkur í einu og öllu með símtölum, heimsóknum og faðmlögum. Það þarf bara eitt orð og þá er einhver kominn til að hjálpa. Ef eitthvað vantar að gera heima fyrir þá er einhver mættur. Það góða við Round Table er líka að við erum svo ólíkir, tilheyrum mismunandi starfsstéttum og myndum því dýrmætt tengslanet.“

Þau hjónin hafa nýtt þjónustu Krabbameinsfélagsins og Krabbameinsfélags Akureyrar og nágrennis og bera félögunum vel söguna. „Við höfum sótt ýmis námskeið, auk þess sem okkur bauðst að fara í endurnærandi helgarferð til Húsavíkur í febrúar á vegum Krabbameinsfélags Akureyrar og Sjálfsræktar. Svo höfum við aðgengi að ráðgjafa fyrir norðan og höfum nýtt það. Aðstaðan er mjög góð, gott að koma í hús og maður veit að maður er alltaf velkominn aftur.“ Að auki nýttist íbúð Krabbameinsfélagsins þeim á meðan Helgi Rúnar lá inni á spítala í fimm vikur, en Hildur Ýr gat þá verið nálægt spítalanum á meðan.

Sælla að gefa en þiggja

Yfirskrift Mottumars í ár er Ekki humma fram af þér heilsuna og þar eru karlmenn hvattir sérstaklega til að leita sér læknishjálpar ef þeir eru með einkenni. Helgi Rúnar tekur undir það hversu brýnt og áhrifamikið það er að tala sérstaklega til karlmanna eins og gert er í Mottumars. „Maður finnur alveg að þetta hristir aðeins upp í karlmönnum. Með þessu er stuðlað að samfélagslegu samþykki fyrir því að karlmenn tali um krabbamein og það að fara í skoðun. Þetta var tabú fyrir ekkert svo löngum tíma síðan, en núna mega þeir einhvern veginn segja frá. Það gerist bara með opinni umræðu.“

Helgi er mjög ánægður með sokkanálgunina í Mottumars og finnst hún gera stuðninginn sýnilegan. „Maður upplifir einhverja samkennd og þetta skilur eitthvað eftir sig.“ Í sönnum anda Round Table lýkur Helgi Rúnar viðtalinu með því að koma á framfæri þökkum fyrir stuðninginn sem hann hefur fengið í Mottumars söfnuninni og ítreka mikilvægi þess að gefa af sér. „Ég er ótrúlega hreykinn af stuðningnum sem ég hef fengið. Það er gaman að geta skilið svona framlag eftir sig, því þá finnst manni eins og maður sé ekki bara að þiggja heldur líka að gefa. Ég er svolítið meira þannig í eðli mínu. Mér finnst auðveldara að gefa heldur en þiggja.“

Krabbameinsfélagið þakkar þeim Helga Rúnari og Hildi Ýr fyrir viðtalið og ómetanlegan liðsauka í baráttunni gegn krabbameinum. Söfnunarsíðu Helga Rúnars í Skeggkeppni Mottumars má nálgast hér.


Fleiri nýjar fréttir

30. maí 2023 : Bylting - hálfur milljarður til krabbameinsrannsókna

Vísindasjóður Krabbameinsfélagsins hefur frá stofnun sjóðsins árið 2015 styrkt 41 krabbameinsrannsókn um samanlagt 384 miljónir króna. Næsta úthlutun úr sjóðnum verður í júní næstkomandi.

Lesa meira

30. maí 2023 : Krabbameinsskimanir – mikið fyrir lítið

Áratugir eru síðan skimanir fyrir legháls- og brjóstakrabbameini voru teknar upp á Íslandi. Þær hafa fyrir löngu sannað gildi sitt þó þær veiti aldrei fullkomna vörn. Konur hér á landi hafa með afgerandi hætti sýnt að þær kunna að meta aðgengi að þeim.

Lesa meira

30. maí 2023 : Á Ís­landi greinast um 1800 manns á hverju ári með krabba­mein

Þeir gætu verið færri. Þó að ekki sé hægt að koma í veg fyrir öll krabbamein sýna rannsóknir að áhættuþættir margra krabbameina tengjast lífsstíl. Með bættri lýðheilsu þjóðar er hægt að fækka verulega ákveðnum krabbameinum.

Lesa meira

28. maí 2023 : Lokað 30. maí í ráðgjafarþjónustu vegna vinnufundar ráðgjafarteymis

Lokaða verður hjá ráðgjafarþjónustu Krabbameinsfélagsins þriðjudaginn 30. maí vegna vinnufundar ráðgjafarteymis. Hægt er að senda fyrirspurnir og erindi á radgjof@krabb.is og er þeim svarað eins fljótt og hægt er.

Lesa meira

25. maí 2023 : Bjóðum Brakkasamtökin velkomin í hópinn

Á aðalfundi Krabbameinsfélagsins var staðfest ákvörðun stjórnar um aðild Brakkasamtakanna að Krabbameinsfélagi Íslands. Krabbameinsfélagið fagnar ákvörðun aðalfundarins og býður Brakkasamtökin velkomin í hópinn.

Lesa meira

Var efnið hjálplegt?