Ása Sigríður Þórisdóttir 17. sep. 2020

Stóraukin þátttaka í skimunum

Frá árinu 2018 hefur Krabbameinsfélagið unnið markvisst að því að auka þátttöku kvenna í skimun og þær hvattar til þátttöku með ýmsum leiðum sem skilað hafa ótvíræðum árangri.

Þátttaka kvenna í skimunum hér á landi hefur minnkað nokkuð frá upphafi en miklu skiptir að þátttakan sé sem mest. Frá árinu 2018 hefur Krabbameinsfélagið unnið markvisst að því að auka þátttöku kvenna í skimun og þær hafa verið hvattar til þátttöku með ýmsum leiðum, ekki síst á samfélagsmiðlum.

Árangurinn er ótvíræður, komum kvenna í skimun hefur fjölgað mikið milli áranna 2018 og 2019:

  • Komum í brjóstaskimun hjá konum á aldrinum 40-69 ára fjölgaði um 24% úr 16.540 í 20.580.
  • Komum í leghálsskimun hjá konum á aldrinum 23-65 ára fjölgaði um 15% úr 19.443 í 22.301.

Varanlegur árangur

Ef frá er talið tímabundið hlé á skimunum vegna Covid faraldursins síðastliðið vor sést að fjöldi koma í skimun er áþekkur fjöldanum árið 2019 svo árangurinn er varanlegur.

Fjölbreyttar leiðir tryggja árangur

Árangurinn byggir á fjölbreyttum aðgerðum. Má þar nefna endurskoðun og uppfærslu á kynningar-, og boðsbréfum, notkun SMS-skilaboða, kynninga á samfélagsmiðlum og áherslu á skjóta þjónustu en skimunin tekur um 10 – 15 mínútur frá komu til brottfarar.

Skimunin var kynnt sérstaklega fyrir konum af erlendum uppruna með kynningum á samfélagsmiðlum á erlendum tungumálum og samfélagsmiðlar sömuleiðis nýttir til kynningar á skimunum á landsbyggðinni.

Konur geta nú nálgast skimunarsögu sína, boð og þátttöku á Heilsuvera.is og island.is auk þess sem niðurstöður, neikvæðar og jákvæðar, úr skimunum eru birtar á island.is.

Gjaldfrjáls skimun skiptir máli

Krabbameinsfélagið hefur lagt á það áherslu við stjórnvöld að skimunin verði gjaldfrjáls til að tryggja jafnt aðgengi að skimun.

Reynsla frá nágrannalöndunum sýnir að greiðsla komugjalds getur hindrað konur í að þiggja boð í skimun. Í ljósi þess ákvað Krabbameinsfélagið að setja af stað tilraunaverkefni árið 2019, þar sem þeim árgöngum kvenna sem fengu boð í skimun í fyrsta sinn, bauðst hún þeim að kostnaðarlausu. Verkefnið tók af allan vafa um að gjaldfrjáls skimun skiptir verulegu máli til að tryggja jafnt aðgengi að skimunum. Komum þessara hópa fjölgaði um 36% hjá konum sem komu í fyrstu leghálsskimun (23 ára) og 57% sem komu í fyrstu brjóstaskimun (40 ára) milli áranna 2018 og 2019. 11% þeirra sem komu í brjóstaskimun og 27% þeirra sem komu í leghálsskimun sögðust ekki hefðu mætt í skimunina nema af því að hún var ókeypis.

Fyrir tilstilli veglegar erfðagjafar frá Láru Vigfúsdóttur frá Vestmannaeyjum var ákveðið að nýta gjöfina í þágu kvenna með því að bjóða áfram gjaldfrjálsa fyrstu skimun út árið 2020.

Mikilvægt að auka þátttöku frekar

Aukin þátttaka kvenna í skimun er afar ánægjuleg og mikilvægt að sú aukning haldi áfram. Þær aðgerðir sem Krabbameinsfélagið hefur gripið til sýna að boðsbréf í skimun eitt og sér er ekki nægjanleg hvatning. Nýta þarf fjölbreyttar leiðir og aðferðir ekki síst til að ná til kvenna af ólíkum uppruna og búsetu.


Fleiri nýjar fréttir

16. apr. 2024 : Krabba­meins­skráning á Íslandi í 70 ár - Afmælis­málþing

Í tilefni af 70 ára afmæli krabbameinsskráningar á Íslandi býður Krabbameinsfélagið til afmælismálþings.

Lesa meira

16. apr. 2024 : Með þínum stuðningi getum við gert svo ótal margt!

Krabbameinsfélagið þakkar öllum þeim fjölmörgu sem lögðu félaginu lið í Mottumars, árverkni- og fjáröflunarátaki félagsins, í ár. Við erum hrærð yfir þeirri velvild, samkennd og hlýju sem við fundum svo vel fyrir. Öll starfsemi félagsins er rekin fyrir sjálfsaflafé og því er stuðningur almennings og fyrirtækja forsenda fyrir starfinu.

Lesa meira

12. apr. 2024 : Saga Ómars Einarssonar

Ómar fékk krabbamein í háls, árið 2008, á sama tíma og Geir H. Haarde blessaði Ísland. Hann var geislaður í upphafi og síðar skorinn. Í framhaldinu var honum bent á að hitta Ragnar Davíðsson, formann félagsins Ný rödd, sem er eitt af aðildarfélögum Krabbameinsfélagsins. Ragnar hafi hjálpað sér og öðrum mikið.

Lesa meira

8. apr. 2024 : Frábær þátttaka í Skegg­keppni Mottu­mars 2024

Þátttakendur í Skeggkeppni Krabbameinsfélagsins þetta árið voru 360 talsins og alls söfnuðust rétt rúmlega 7,3 milljónir króna. Krabbameinsfélagið þakkar öllum þeim sem tóku þátt og öllum sem styrktu.

Lesa meira

25. mar. 2024 : Saga Sigurgeirs Líndal Ingólfssonar

Sigurgeir segir að fræðslan og kynningin í kringum Mottumars sé þýðingarmikil og hafi ýtt við honum þegar einkenni gerðu vart við sig og gert það að verkum að hann fór til læknis. Einkennin voru ekki ólík þvagfærasýkingu en það var einmitt svarið sem hann fékk fyrst þegar hann leitaði sér hjálpar.

Lesa meira

Var efnið hjálplegt?