Sigriður Sólan Guðlaugsdóttir 30. ágú. 2019

Sterk tengsl milli notkunar tíðahvarfahormóna og brjóstakrabbameins

Í dag birtust í vísindaritinu Lancet niðurstöður stórrar fjölþjóðlegar rannsóknar um tengsl milli notkunar tíðarhvarfahormóna og brjóstakrabbameins. Rannsókninni er stýrt af hópi við Oxford háskóla og í henni er meðal annars stuðst við gögn frá Krabbameinsfélaginu.

Rannsóknin er samantekt úr miklum fjölda rannsókna víðs vegar að úr heiminum þar sem byggt er á samtals yfir 100.000 brjóstakrabbameinstilfellum. Niðurstöðurnar staðfesta að það er sterkt samband milli notkunar tíðahvarfahormóna og brjóstakrabbameins. Rannsóknin sýndi líka að þeim mun lengur sem konur nota tíðahvarfahormóna því meiri verður hættan á brjóstakrabbameini.

Þannig voru konur sem tóku hormónablöndur (estrógen og prógesterón) í 1-4 ár (meðaltal 3 ár) í 60% aukinni áhættu. Þær sem tóku blöndurnar í 5-14 ár voru í tvöfaldri áhættu miðað við konur sem ekki höfðu tekið tíðahvarfahormóna. Notkun í aðeins eitt ár eða minna sýndi enga aukna áhættu á brjóstakrabbameini og lægri áhætta tengdist töku estrógena eingöngu, heldur en lyfja sem gerð voru úr hormónablöndum.

„Þetta kemur okkur ekki á óvart, því niðurstöður okkar sem birtust í erlendu vísindariti fyrir tveimur árum sýna svipuð áhrif og þessi stóra rannsókn gerir,“ segir Laufey Tryggvadóttir, framkvæmdastjóri Krabbameinsskrár Krabbameinsfélagsins.

Allar gerðir tíðahvarfahormóna nema estrógen skeiðatöflur tengdust aukinni áhættu á brjóstakrabbameini. Áhættan var ekki eins há ef hormónatakan hófst fyrst við 60 ára aldur.

Niðurstöðurnar benda til þess að notkun á tíðahvarfahormónum hafi valdið einni milljón brjóstakrabbameina af þeim 20 milljónum sem hafa greinst í heiminum frá árinu 1990. Notkun hormónanna hófst um 1970 og var lítil í byrjun en jókst upp úr 1980. Gífurleg aukning varð svo milli 1990 og 2000. Vegna þess að rannsóknir sýndu fram á þessi neikvæð áhrif lyfjanna fór aftur að draga úr notkun upp úr árinu 2000. Í dag er áætlað að um 12 milljónir kvenna noti tíðahvarfahormóna í heiminum.

Laufey segir að höfundar áætli að af hverjum 50 til 70 konum sem byrja að nota hormónablöndur um 50 ára aldurinn og nota lyfin í 5 ár, fái ein kona brjóstakrabbamein vegna hormónatökunnar á aldrinum 50-69 ára. Búast má við um það bil tvöfalt fleiri tilfellum ef tíðarhvarfahormónarnir eru teknir samfellt í 10 ár.


Fleiri nýjar fréttir

16. apr. 2024 : Krabba­meins­skráning á Íslandi í 70 ár - Afmælis­málþing

Í tilefni af 70 ára afmæli krabbameinsskráningar á Íslandi býður Krabbameinsfélagið til afmælismálþings.

Lesa meira

16. apr. 2024 : Með þínum stuðningi getum við gert svo ótal margt!

Krabbameinsfélagið þakkar öllum þeim fjölmörgu sem lögðu félaginu lið í Mottumars, árverkni- og fjáröflunarátaki félagsins, í ár. Við erum hrærð yfir þeirri velvild, samkennd og hlýju sem við fundum svo vel fyrir. Öll starfsemi félagsins er rekin fyrir sjálfsaflafé og því er stuðningur almennings og fyrirtækja forsenda fyrir starfinu.

Lesa meira

12. apr. 2024 : Saga Ómars Einarssonar

Ómar fékk krabbamein í háls, árið 2008, á sama tíma og Geir H. Haarde blessaði Ísland. Hann var geislaður í upphafi og síðar skorinn. Í framhaldinu var honum bent á að hitta Ragnar Davíðsson, formann félagsins Ný rödd, sem er eitt af aðildarfélögum Krabbameinsfélagsins. Ragnar hafi hjálpað sér og öðrum mikið.

Lesa meira

8. apr. 2024 : Frábær þátttaka í Skegg­keppni Mottu­mars 2024

Þátttakendur í Skeggkeppni Krabbameinsfélagsins þetta árið voru 360 talsins og alls söfnuðust rétt rúmlega 7,3 milljónir króna. Krabbameinsfélagið þakkar öllum þeim sem tóku þátt og öllum sem styrktu.

Lesa meira

25. mar. 2024 : Saga Sigurgeirs Líndal Ingólfssonar

Sigurgeir segir að fræðslan og kynningin í kringum Mottumars sé þýðingarmikil og hafi ýtt við honum þegar einkenni gerðu vart við sig og gert það að verkum að hann fór til læknis. Einkennin voru ekki ólík þvagfærasýkingu en það var einmitt svarið sem hann fékk fyrst þegar hann leitaði sér hjálpar.

Lesa meira

Var efnið hjálplegt?