Ása Sigríður Þórisdóttir 11. jún. 2020

Sorgin á tímum CO­VID-19

Grein sem birtist í Fréttablaðinu 11. júní 2020.

  • Lóa Björk Ólafsdóttir hjúkrunarfræðingur

Mér líður eins og ég hafi verið rænd,“ er það fyrsta sem hún segir þegar við setjumst niður í samtalsherberginu. Þessi saga endurspeglar upplifun margra þeirra sem undanfarið hafa leitað til Ráðgjafarþjónustu Krabbameinsfélagsins í tengslum við ástvinamissi á Covid-19 tímabilinu.

Mér líður eins og ég hafi verið rænd,“ er það fyrsta sem hún segir þegar við setjumst niður í samtalsherberginu. Þau höfðu verið einstaklega samrýmd, hún og ástin í lífi hennar til tuga ára, en nú var hann látinn.

Henni leið eins og hún hefði verið rænd þessum litla tíma sem hún hefði getað átt með manninum sem í gegnum lífið varð smám saman helmingurinn af henni sjálfri. Hann hafði háð snarpa baráttu við krabbamein og hrakað hratt síðustu vikurnar. Undir venjulegum kringumstæðum hefðu hún og börnin hennar setið hjá honum öllum stundum. Verið með honum á spítalanum þessar síðustu tvær vikur sem hann átti eftir ólifaðar. Því miður urðu hins vegar þær aðgerðir sem grípa varð til vegna Covid-19 veirunnar til þess að svo gat ekki orðið.

Þessi saga endurspeglar upplifun margra þeirra sem undanfarið hafa leitað til Ráðgjafarþjónustu Krabbameinsfélagsins í tengslum við ástvinamissi á Covid-19 tímabilinu.

Það er þakkarvert hversu vel tókst til hér á landi við að ná stjórn á útbreiðslu faraldursins og í raun magnað að verða vitni að þeim samhug sem ríkti og átti þátt í að hefta hann með styrkri stjórn og handleiðslu frá sérfræðingum, heilbrigðisstarfsfólki og ráðamönnum. Enginn þarf að efast um hve erfið sú staða að þurfa að banna eða takmarka heimsóknir hefur verið fyrir heilbrigðisstarfsfólk sem alla jafna leggur mikla áherslu á að styðja og hvetja aðstandendur til að vera í nánd við mikið veika ástvini. Að því sögðu er þó mikilvægt að færa í orð þann fórnarkostnað og þær tilfinningar sem margir þeir sem misstu ástvin í faraldrinum sitja eftir með.

Það er vel þekkt að í sorgarferlinu getur það hjálpað og haft mikla þýðingu fyrir þann sem syrgir að hafa fengið tækifæri til að vera í nánd við ástvin sinn vikurnar fyrir andlátið, þegar á annað borð sá aðdragandi gefst. Fyrir marga er þetta dýrmætur tími til samskipta þar sem hægt er að tjá ást, væntumþykju, þakklæti og virðingu með eða án orða. Þú vilt vera til staðar og gera allt sem í þínu valdi stendur til að styðja við ástvin þinn í gegnum þennan tíma. Stundum gefst líka tækifæri til að ræða mikilvæg og praktísk mál. Þessu raskaði Covid-19 veiran. Einnig hefur faraldurinn í mörgum tilvikum breytt þeirri mikilvægu athöfn sem jarðarförin er, þar sem fjölskylda og vinir safnast saman til að votta hinum látna virðingu og sýna þeim sem honum voru nánastir samkennd og stuðning. Stuðningur og nánd við fjölskyldu og vini er yfirleitt afar mikilvægur þeim sem syrgir og má því búast við að margir sem misstu ástvin á þessum tíma hafi upplifað félagslega einangrun og einmanaleika í meira mæli í takt við þær takmarkanir sem settar voru um samskipti og nánd.

Í sorginni er eðlilegt að upplifa ólíkar og erfiðar tilfinningar. Þar á meðal geta verið tilfinningar á borð við reiði, sektarkennd og einmanaleika. Þessar tilfinningar saman eða einar og sér geta oft orðið til þess að þyngja sorgina og úrvinnslu á henni verulega. Það er hætt við að margir þeir sem misstu ástvin á meðan takmarkanir vegna faraldursins voru sem mestar séu útsettari fyrir því að upplifa slíkar tilfinningar í sorgarferlinu.

Fyrir þig sem tekst á við sorg um þessar mundir er mikilvægt að þú munir að þú ert ekki ein/n um að takast á við erfiðar tilfinningar og hugsanir. Það er mikilvægt að þú sýnir tilfinningum þínum og hugsunum umburðarlyndi og leitir leiða til að hlúa að þér eins og þú best getur. Að reyna eftir fremsta megni að halda rútínu í dögunum og reglu á svefni, hreyfingu og mataræði er flestum gagnlegt. Þannig styrkirðu þá þætti í lífinu þínu sem þú getur haft stjórn á sem oft er mikilvægt þegar atburðir og breytingar verða í lífinu sem ekki er ráðið við. Að reyna að draga úr einangrun og halda tengslum við þá sem þér líður vel í kringum skiptir miklu máli. Þú gætir einnig viljað íhuga að leita þér utanaðkomandi stuðnings eða hitta aðra sem standa í svipuðum sporum.

Ráðgjafarþjónusta Krabbameinsfélagsins býður þeim sem hafa misst ástvin úr krabbameini upp á stuðningsviðtöl án endurgjalds og aðgang að öllum námskeiðum og föstum tímum sem boðið er upp á. Hægt er að panta tíma í síma 800 4040 eða á radgjof@krabb.is . Einnig er hægt að koma við án þess að gera boð á undan sér.

Sorgarmiðstöð eru samtök sem sinna fræðslu og ráðgjöf til syrgjenda og bjóða reglulega upp á stuðningshópa. Hægt er að kynna sér starf Sorgarmiðstöðvar á heimasíðu þeirra.

Mundu að eins óhugsandi og það kann að hljóma núna segja flestir sem hafa farið í gegnum sorg í kjölfar ástvinamissis að með tímanum verði góðu dagarnir fleiri en þeir erfiðu. Hugsanir og tilfinningar sem sækja á þig geta verið mismunandi frá einum tíma til annars. Stundum geta tilfinningarnar orðið mjög yfirþyrmandi og lamandi en á öðrum tímum taka þær minna pláss. Mikilvægast er að þú leyfir þér að vera þar sem þú ert stödd eða staddur á hverjum tíma fyrir sig, á hverjum degi fyrir sig.

Höfundur er hjúkrunarfræðingur hjá Ráðgjafarþjónustu Krabbameinsfélagsins og HERU, sérhæfðri líknaþjónustu landspítala.

 


Fleiri nýjar fréttir

30. maí 2023 : Bylting - hálfur milljarður til krabbameinsrannsókna

Vísindasjóður Krabbameinsfélagsins hefur frá stofnun sjóðsins árið 2015 styrkt 41 krabbameinsrannsókn um samanlagt 384 miljónir króna. Næsta úthlutun úr sjóðnum verður í júní næstkomandi.

Lesa meira

30. maí 2023 : Krabbameinsskimanir – mikið fyrir lítið

Áratugir eru síðan skimanir fyrir legháls- og brjóstakrabbameini voru teknar upp á Íslandi. Þær hafa fyrir löngu sannað gildi sitt þó þær veiti aldrei fullkomna vörn. Konur hér á landi hafa með afgerandi hætti sýnt að þær kunna að meta aðgengi að þeim.

Lesa meira

30. maí 2023 : Á Ís­landi greinast um 1800 manns á hverju ári með krabba­mein

Þeir gætu verið færri. Þó að ekki sé hægt að koma í veg fyrir öll krabbamein sýna rannsóknir að áhættuþættir margra krabbameina tengjast lífsstíl. Með bættri lýðheilsu þjóðar er hægt að fækka verulega ákveðnum krabbameinum.

Lesa meira

28. maí 2023 : Lokað 30. maí í ráðgjafarþjónustu vegna vinnufundar ráðgjafarteymis

Lokaða verður hjá ráðgjafarþjónustu Krabbameinsfélagsins þriðjudaginn 30. maí vegna vinnufundar ráðgjafarteymis. Hægt er að senda fyrirspurnir og erindi á radgjof@krabb.is og er þeim svarað eins fljótt og hægt er.

Lesa meira

25. maí 2023 : Bjóðum Brakkasamtökin velkomin í hópinn

Á aðalfundi Krabbameinsfélagsins var staðfest ákvörðun stjórnar um aðild Brakkasamtakanna að Krabbameinsfélagi Íslands. Krabbameinsfélagið fagnar ákvörðun aðalfundarins og býður Brakkasamtökin velkomin í hópinn.

Lesa meira

Var efnið hjálplegt?