Ása Sigríður Þórisdóttir 2. sep. 2022

Sorgarleyfi, næsta skref – áskorun til félags- og vinnumarkaðsráðherra

Grein birtist í Skoðun á Vísir.is 1. september 2022

Krabbameinsfélagið skorar á félags- og vinnumálaráðherra og alla þingmenn að víkka út lög um sorgarleyfi þannig að þau nái einnig til foreldra barna sem ýmist hafa misst foreldri skyndilega eða eftir langvinn veikindi, með það sérstaklega fyrir augum að auðvelda þeim að styðja við börn sín í erfiðum aðstæðum. 

Í júní var stigið mikilvægt skref þegar Alþingi samþykkti lög um sorgarleyfi fyrir foreldra sem missa barn.

Frá 1. janúar 2023 munu foreldrar sem missa barn geta tekið allt að 6 mánaða leyfi frá störfum og fengið greiðslur frá Vinnumálastofnun. Eins og segir í greinargerð með lögunum gefur sorgarleyfi foreldrum á innlendum vinnumarkaði svigrúm til sorgarúrvinnslu í kjölfar barnsmissis og auðveldar þeim, þegar það á við, að styðja við eftirlifandi systkin.

Ekki þarf að orðlengja það álag sem fylgir barnsmissi en áður en lögin komu til höfðu foreldrar sjaldnast önnur ráð en að bíta á jaxlinn og halda áfram vinnu eins og ekkert hefði í skorist nema þegar vinnuveitendur voru þeim hliðhollir og veittu þeim svigrúm. Aðrir nýttu rétt vegna veikinda. Sorg er hins vegar ekki veikindi.

Með lögunum eru viðurkennd áhrif sorgar vegna barnsmissis á fjölskyldur í heild. Það er lofsvert og Krabbameinsfélagið fagnar lögunum innilega.

Eins og félags- og vinnumarkaðsráðherra nefnir í pistli í Vísi þann 31. ágúst eru lögin mikilvægt fyrsta skref og fram kemur að í ráðuneytinu sé hafin vinna við undirbúning næsta skrefs.

Auðveldum foreldrum að styðja við börnin sín

Krabbameinsfélagið vill árétta þá skoðun sem félagið hefur lýst við önnur tækifæri, að ekki er síður mikilvægt að veita sorgarleyfi eftirlifandi foreldrum barna yngri en 18 ára, sem missa foreldri sitt.

Gögn Hagstofunnar sýna að á Íslandi misstu árlega um 100 börn yngri en 18 ára foreldri sitt á árunum 2009 til 2018. Í sumum tilfellum er um systkini að ræða. Um 40% foreldranna létust úr krabbameinum.

Krabbameinsfélagið skorar á félags- og vinnumálaráðherra og alla þingmenn að nýta næsta þing til að taka næsta skref í málinu: að víkka út lög um sorgarleyfi þannig að þau nái einnig til foreldra barna sem ýmist hafa misst foreldri skyndilega eða eftir langvinn veikindi, með það sérstaklega fyrir augum að auðvelda þeim að styðja við börn sín í erfiðum aðstæðum. Von Krabbameinsfélagsins er að eigi síðar en 1. janúar 2024 taki gildi breytt lög um sorgarleyfi, þar sem sorgarleyfi býðst einnig foreldrum barna yngri en 18 ára, sem misst hafa foreldri sitt.

Slík breyting er lítið skref en með mikla þýðingu.

Halla Þorvaldsdóttir, framkvæmdastjóri Krabbameinsfélagsins.


Fleiri nýjar fréttir

5. des. 2023 : Aðstoð við að velja mat sem eykur heilbrigði og vellíðan

Við þurfum hjálp! Ákall til matvælaframleiðenda og sölu- og markaðsaðila matvæla. Mörg fyrirtæki standa sig vel þegar kemur að markaðssetningu á mat og drykkjarvöru. Sum fyrirtæki sem bjóða upp á heilsueflandi mat en einnig mat- og drykkjarvörur sem geta haft neikvæð áhrif á heilsu hlífa til dæmis börnum við markaðssetningu á slíkum vörum.

Lesa meira

4. des. 2023 : Kírópraktorstöðin styrkir Bleiku slaufuna

Kírópraktorstöðin afhenti á dögunum 500.000 krónur til Krabbameinsfélagsins. Upphæðin er afrakstur af einstaklega vel heppnuðu Konukvöldi sem þau stóðu fyrir í tilefni af Bleikum október. Krabbameinsfélagið þakkar kærlega fyrir stuðninginn, sem kemur að góðum notum.

Lesa meira

4. des. 2023 : Ný rannsókn styður við einstaklingssniðna meðferð

Ný íslensk rannsókn sem birtist í dag í npj Breast Cancer og var unnin í samstarfi Krabbameinsfélagsins við meinafræðideild og krabbameinslækningadeild Landspítala, og við Háskóla Íslands. 

Lesa meira

2. des. 2023 : Taktu þátt í skemmtilegum jólaleik

Litríkt, jólalegt og hollt á borðið þitt. Krabbameinsfélagið í samstarfi við Banana og Hagkaup óska eftir jólalegum útfærslum á framsetningu á grænmeti, ávöxtum og berjum til að nýta á jólaborðið eða veislubakkann. Veglegir vinningar í boði.

Lesa meira

1. des. 2023 : Minningarorð um Jón Þorgeir Hallgrímsson

Jón Þorgeir Hallgrímsson, læknir, fyrrverandi formaður Krabbameinsfélags Íslands og Krabbameinsfélags Reykjavíkur lést þann 21. nóvember sl., 92 ára að aldri. Jóns Þorgeirs er minnst hjá Krabbameinsfélaginu með mikilli virðingu og þakklæti. Aðstandendum vottar félagið innilega samúð. 

Lesa meira

Var efnið hjálplegt?