Björn Teitsson 29. apr. 2021

Sólarvarnir leikskólabarna: þetta þarftu að vita

  • Barn_solgleraugu

Eitt af markmiðum Krabbameins­félagsins er að fækka þeim sem fá krabbamein með öflugum forvörnum. Sólarvarnir skipta miklu máli fyrir alla og sérstaklega fyrir börn, sem eru viðkvæmari fyrir sólargeislum, en skaði af völdum sólar getur leitt til húðkrabbameins síðar á ævinni.

Á Íslandi þarf að huga að sólarvörnum frá apríl fram í september, sér í lagi milli klukkan 10 og 16. Þetta er tíminn sem mörg börn eru í leikskóla og því mikilvægt að þar sé gætt vel að sólarvörnum.

Við hjá Krabbameinsfélaginu höfum útbúið gátlista um sólarvarnir leikskólabarna fyrir annars vegar leikskóla og hins vegar foreldra. Þeir hafa verið sendir á alla leikskóla landsins með góðri kveðju til starfsfólks og foreldra. Það er von okkar að gátlistarnir geti komið að góðum notum en þá má til dæmis prenta út og hengja upp í fataklefum leikskóla.


Gátlisti fyrir leikskólann:

  • Við hugum að sólarvörnum frá apríl fram í september
  • Við pössum að börnin séu í fötum sem hylja axlir, bringu, handleggi og fótleggi
  • Við pössum að börnin séu með sólhatt eða derhúfu
  • Við hvetjum börnin til að nota sólgleraugu
  • Við berum sólarvörn með stuðulinn 30 til 50+ á börnin fyrir útiveru fyrir og eftir hádegi og svo eftir þörfum (t.d. ef þau svitna mikið, busla í vatni eða þeim er þvegið með þvottapoka)
  • Við berum sólarvörn á öll svæði sem ekki eru hulin með fötum, svo sem andlit, eyru, hnakka, handarbök og mögulega hársvörð
  • Við pössum að það séu svæði á leikskólalóðinni þar sem börnin geta leikið sér í skugga, til dæmis frá trjám eða tjöldum eða norðan megin við hús, og hvetjum börnin til að nýta sér þau
  • Við tökum hlé frá sólinni og færum leikinn inn eða í skugga
  • Við munum að sólargeislar geta borist í gegnum ský og hugum að sólarvörnum þó það sé skýjað
  • Við munum að sólargeislar geta endurkastast frá vatni og sandi
  • Við pössum að börnin drekki nóg vatn í og eftir útiveru í sólinni
  • Við erum góðar fyrirmyndir og verjum okkur sjálf fyrir sólinni
  • Við komum upp góðum venjum í kringum sólarvarnir á leikskólanum og erum í góðu samstarfi við foreldra
Barn_solgleraugu

Mynd: Jerry O'Connor/Flickr.


Gátlisti fyrir foreldra:


  • Við hugum að sólarvörnum frá apríl fram í september, sér í lagi milli klukkan 10 og 16
  • Við pössum að börnin séu með föt í leikskólanum sem hylja axlir, bringu, handleggi og fótleggi
  • Við munum eftir að koma með sólhatt eða derhúfu í leikskólann
  • Við munum eftir að koma með sólgleraugu í leikskólann
  • Við berum sólarvörn á börnin áður en þau fara í leikskólann nema við séum viss um að borið sé á þau fyrir fyrstu útiveru í leikskólanum: á öll svæði sem ekki eru hulin með fötum, svo sem andlit, eyru, hnakka, handarbök og mögulega hársvörð
  • Við munum eftir að koma með sólarvörn með stuðulinn 30 til 50+ í leikskólann
  • Við endurnýjum sólarvörnina eftir þörfum, almennt er mælt með að endurnýja sólarvörn árlega
  • Við pössum að börnin drekki nóg vatn eftir sólríka daga
  • Við erum góðar fyrirmyndir og verjum okkur sjálf fyrir sólinni
  • Við erum í góðu samstarfi við leikskólann varðandi sólarvarnir barnanna
  • Um helgar og í fríum fylgjum við gátlistanum fyrir leikskólann til að börnin geti notið sólarinnar heima á öruggan hátt

Hér má finna gátlistana og frekara efni. Unnið er að því að þýða gátlistana yfir á fleiri tungumál, sem verða aðgengilegir á síðunni.

Fleiri nýjar fréttir

30. maí 2023 : Bylting - hálfur milljarður til krabbameinsrannsókna

Vísindasjóður Krabbameinsfélagsins hefur frá stofnun sjóðsins árið 2015 styrkt 41 krabbameinsrannsókn um samanlagt 384 miljónir króna. Næsta úthlutun úr sjóðnum verður í júní næstkomandi.

Lesa meira

30. maí 2023 : Krabbameinsskimanir – mikið fyrir lítið

Áratugir eru síðan skimanir fyrir legháls- og brjóstakrabbameini voru teknar upp á Íslandi. Þær hafa fyrir löngu sannað gildi sitt þó þær veiti aldrei fullkomna vörn. Konur hér á landi hafa með afgerandi hætti sýnt að þær kunna að meta aðgengi að þeim.

Lesa meira

30. maí 2023 : Á Ís­landi greinast um 1800 manns á hverju ári með krabba­mein

Þeir gætu verið færri. Þó að ekki sé hægt að koma í veg fyrir öll krabbamein sýna rannsóknir að áhættuþættir margra krabbameina tengjast lífsstíl. Með bættri lýðheilsu þjóðar er hægt að fækka verulega ákveðnum krabbameinum.

Lesa meira

28. maí 2023 : Lokað 30. maí í ráðgjafarþjónustu vegna vinnufundar ráðgjafarteymis

Lokaða verður hjá ráðgjafarþjónustu Krabbameinsfélagsins þriðjudaginn 30. maí vegna vinnufundar ráðgjafarteymis. Hægt er að senda fyrirspurnir og erindi á radgjof@krabb.is og er þeim svarað eins fljótt og hægt er.

Lesa meira

25. maí 2023 : Bjóðum Brakkasamtökin velkomin í hópinn

Á aðalfundi Krabbameinsfélagsins var staðfest ákvörðun stjórnar um aðild Brakkasamtakanna að Krabbameinsfélagi Íslands. Krabbameinsfélagið fagnar ákvörðun aðalfundarins og býður Brakkasamtökin velkomin í hópinn.

Lesa meira

Var efnið hjálplegt?