Björn Teitsson 27. apr. 2021

Síðasta tækifæri til að taka þátt í Áttavitanum

Áttavitinn er umfangsmikil rannsókn um hagi og líðan þeirra sem greinst hafa með krabbamein á Íslandi. Markmiðið er að finna leiðir til að bæta meðferðarferlið fyrir bæði krabbameinsgreinda og aðstandendur þeirra. 

Síðasta tækifæri til að taka þátt í rannsókn á reynslu fólks sem greinst hefur með krabbamein.

Þann 1. maí næstkomandi verður síðasta tækifærið til að skrá sig í Áttavitann, eina stærstu rannsókn á Íslandi um hagi og líðan þeirra sem greinst hafa með krabbamein á síðustu árum og reynslu þeirra af greiningar- og meðferðarferlinu. Mjög mikilvægt er að sem flestir taki þátt, því með þátttöku sem flestra er hægt að vinna að því meðal annars að gera greiningarferli og meðferð enn betri.

Á Íslandi greinast á ári hverju um 1700 einstaklingar með krabbamein. Með breyttri aldurssamsetningu þjóðarinnar er ljóst að krabbameinsgreiningum mun fjölga. Meðferð fleygir fram svo fleiri lifa með krabbamein sem langvinnan sjúkdóm. Því er afar mikilvægt að allt sé gert til að greining og meðferð sé þannig að lífsgæði fólks séu eins góð og kostur er.

Krabbameinsfélagið hvetur alla sem hafa fengið boð að taka þátt í rannsókninni. Þátttaka er einföld, en hún felst í því að svara stöðluðum rafrænum spurningalista þar sem nafnleyndar er gætt í samræmi við ítrustu kröfur Persónuverndar. Skráning í rannsóknina fer fram með rafrænum skilríkjum hér: https://www.krabb.is/rannsokn/taka-thatt

Áttavitinn er umfangsmikil rannsókn sem snýst fyrst og fremst um reynslu krabbameinsgreindra af greiningu og meðferð. Rannsóknin tekur meðal annars til sálrænna og líkamlega þátta sem fylgja krabbameinum og meðferð. Rannsóknin nær yfir tímabilið 2015-2019 fyrir allar krabbameinsgreiningar. Nú þegar hafa um 1800 manns tekið þátt í þessari rannsókn.

Krabbameinsfélagið stendur fyrir rannsókninni með það að markmiði að greina það jákvæða og neikvæða sem tengist greiningu og meðferð og dýpka þannig þekkingu á því hvaða þættir eru mikilvægir í öllu ferlinu. Íslendingar standa mjög framarlega þegar kemur að greiningum og meðferð á krabbameinum. Þátttaka í Áttavitanum er mikilvægt framlag til að bæta þekkingu okkar á hvar í ferlinu er þörf á frekari umbótum.

Nánari upplýsingar um rannsóknina veitir Jóhanna E. Torfadóttir (johanna@krabb.is) ábyrgðarmaður Áttavitans. 


Fleiri nýjar fréttir

9. jún. 2023 : Láttu mig vita ef ég get gert eitthvað fyrir þig

Þegar einhver í kringum okkur greinist með krabbamein er eðlilegt að upplifa óöryggi. þótt flestir vilji leggja sitt af mörkum til að vera til staðar getur óttinn við að segja ekki réttu hlutina eða að vita ekki hvað á að segja leitt til þess að jafnvel verði minna samband við viðkomandi en áður.

Lesa meira

30. maí 2023 : Bylting - hálfur milljarður til krabbameinsrannsókna

Vísindasjóður Krabbameinsfélagsins hefur frá stofnun sjóðsins árið 2015 styrkt 41 krabbameinsrannsókn um samanlagt 384 miljónir króna. Næsta úthlutun úr sjóðnum verður í júní næstkomandi.

Lesa meira

30. maí 2023 : Krabbameinsskimanir – mikið fyrir lítið

Áratugir eru síðan skimanir fyrir legháls- og brjóstakrabbameini voru teknar upp á Íslandi. Þær hafa fyrir löngu sannað gildi sitt þó þær veiti aldrei fullkomna vörn. Konur hér á landi hafa með afgerandi hætti sýnt að þær kunna að meta aðgengi að þeim.

Lesa meira

30. maí 2023 : Á Ís­landi greinast um 1800 manns á hverju ári með krabba­mein

Þeir gætu verið færri. Þó að ekki sé hægt að koma í veg fyrir öll krabbamein sýna rannsóknir að áhættuþættir margra krabbameina tengjast lífsstíl. Með bættri lýðheilsu þjóðar er hægt að fækka verulega ákveðnum krabbameinum.

Lesa meira

28. maí 2023 : Lokað 30. maí í ráðgjafarþjónustu vegna vinnufundar ráðgjafarteymis

Lokaða verður hjá ráðgjafarþjónustu Krabbameinsfélagsins þriðjudaginn 30. maí vegna vinnufundar ráðgjafarteymis. Hægt er að senda fyrirspurnir og erindi á radgjof@krabb.is og er þeim svarað eins fljótt og hægt er.

Lesa meira

Var efnið hjálplegt?