Björn Teitsson 4. jún. 2021

Samþykkt um fjárframlag send til yfirvalda

  • Skógarhlíð

Á aðalfundi Krabbameinsfélagsins sem fram fór á Selfossi 29. maí var samþykkt að veita allt að 450 milljónum króna til uppbyggingar nýrrar dagdeildar fyrir krabbameinssjúklinga. Sú samþykkt hefur nú verið send til ráðamanna. 

Krabbameinsfélagið sendi á miðvikudag síðastliðinn, 2. júní, samþykkt aðalfundar félagsins um allt að 450 milljóna framlag til uppbyggingar nýrrar dagdeildar til heilbrigðisráðherra, fjármálaráðherra, forstjóra Landspítala, formanni stýrihóps um Nýja Landspítalann sem og aðal- og varamönnum í velferðarnefnd Alþingis. 

Uppbygging nýrrar dagdeildar er bráðnauðsynleg en aðstæður fyrir sjúklinga, aðstandendur og starfsfólk er með öllu óviðunandi eins og sakir standa. Fjárframlag Krabbameinsfélagsins er háð því að stjórnvöld leggist á árar með félaginu og setji málið í forgang.

Er það von Krabbameinsfélagsins að vel verði tekið í samþykktina og uppbygging nýrrar dagdeildar geti hafist sem fyrst. Þannig verði hún tekin í notkun eigi síðar en árið 2024. 

Samþykktin í heild er svohljóðandi: 

Aðalfundur Krabbameinsfélags Íslands, haldinn á 70 ára afmæli félagsins, á Selfossi 29. maí 2021 lýsir yfir þungum áhyggjum af aðstöðuleysi dagdeildar blóð- og krabbameinslækninga á Landspítala. Landspítalinn er í lykilhlutverki varðandi greiningu og meðferð krabbameina hér á landi og flestir sem fá lyfjameðferð við krabbameinum fá hana á dagdeildinni. Deildin er staðsett í elsta hluta Landspítalans í húsnæði sem bæði er allt of lítið og hentar illa fyrir starfsemina.

Ef halda á þeim góða árangri sem náðst hefur hér á landi í baráttunni við krabbamein verður aðstaða til meðferðar fyrir sjúklinga og aðstandendur að vera fyrsta flokks. Til að laða að sérhæft starfsfólk og gera því kleift að sinna sínu starfi á bestan hátt verður aðstaðan að sama skapi að standast samanburð við það sem best gerist erlendis.

Vandinn er brýnn og hann verður að leysa hið fyrsta. Spár benda til 30% aukningar á fjölda krabbameinstilvika á næstu 15 árum. Sífellt betri árangur, þar sem fleiri lifa eftir að hafa greinst með krabbamein kallar einnig á aukið eftirlit og meðferð. Á Landspítala hefur verið unnin hugmynd að lausn til framtíðar, sem er tiltölulega auðvelt að hrinda í framkvæmd.

Aðalfundurinn samþykkir að styðja við Landspítala og heilbrigðisþjónustu á Íslandi með myndarlegum hætti, almenningi til heilla. Stuðningurinn felst í að félagið veiti 350 milljónum af eigin fé auk allt að 100 milljóna úr sérstakri fjáröflun til uppbyggingar nýrrar dagdeildar blóð- og krabbameinslækninga á Landspítalanum.

Stuðningurinn er háður því að stjórnvöld leggist á árar með félaginu og Landspítalanum og setji bygginguna í forgang, þannig að hægt verði að taka nýja deild í notkun árið 2024.

Leysum málið – lausnin er til!


Fleiri nýjar fréttir

12. apr. 2024 : Saga Ómars Einarssonar

Ómar fékk krabbamein í háls, árið 2008, á sama tíma og Geir H. Haarde blessaði Ísland. Hann var geislaður í upphafi og síðar skorinn. Í framhaldinu var honum bent á að hitta Ragnar Davíðsson, formann félagsins Ný rödd, sem er eitt af aðildarfélögum Krabbameinsfélagsins. Ragnar hafi hjálpað sér og öðrum mikið.

Lesa meira

8. apr. 2024 : Frábær þátttaka í Skegg­keppni Mottu­mars 2024

Þátttakendur í Skeggkeppni Krabbameinsfélagsins þetta árið voru 360 talsins og alls söfnuðust rétt rúmlega 7,3 milljónir króna. Krabbameinsfélagið þakkar öllum þeim sem tóku þátt og öllum sem styrktu.

Lesa meira

25. mar. 2024 : Saga Sigurgeirs Líndal Ingólfssonar

Sigurgeir segir að fræðslan og kynningin í kringum Mottumars sé þýðingarmikil og hafi ýtt við honum þegar einkenni gerðu vart við sig og gert það að verkum að hann fór til læknis. Einkennin voru ekki ólík þvagfærasýkingu en það var einmitt svarið sem hann fékk fyrst þegar hann leitaði sér hjálpar.

Lesa meira

25. mar. 2024 : Saga Egils Þórs Jónssonar

Egill Þór telur að hann væri ekki á lífi ef hann hefði þagað í gegnum sína meðferð og hvetur alla til að sækja sér alla þá hjálp sem í boði er, nýta sér stuðningsfélögin sem eru að styðja við þá sem greinast. Jafningjastuðningur hafi verið honum afar mikilvægur, að finna fyrir sterkri tengingu við einhvern sem búinn var að ganga í gegnum það sama og hann var að ganga í gegnum í fyrsta sinn, hafi verið ómetanlegt.

Lesa meira

22. mar. 2024 : Gleðilegan Mottudag

Mottumars nær hámarki í dag, föstudaginn 22. mars, þegar Mottudagurinn er haldinn hátíðlegur. Krabbameinsfélagið hvetur alla landsmenn, konur og karla, til að gera sér glaðan dag með fjölskyldunni, vinum og vinnufélögum og vekja þannig athygli á baráttunni gegn krabbameinum hjá körlum. 

Lesa meira

Var efnið hjálplegt?