Ása Sigríður Þórisdóttir 17. mar. 2022

Innilega til hamingju með glæsilegan árangur!

Sigurður Yngvi Kristinsson, prófessor í blóðsjúkdómum við Læknadeild Háskóla Íslands og sérfræðilæknir við Landspítala, hefur hlotið tveggja milljóna evra styrk, jafnvirði um 290 milljóna króna, frá Evrópska rannsóknarráðinu (ERC) til þess að halda áfram rannsóknarverkefninu Blóðskimun til bjargar – þjóðarátaki gegn mergæxlum. 

Á fjórða þúsund manns hefur greinst með forstig slíks æxlis í rannsókninni og lyfjarannsókn, sem sjúklingunum sem greinst hafa með lengra genginn sjúkdóm hefur verið boðið að taka þátt í, lofar afar góðu. 

  • Rúm fimm ár eru liðin frá því að þjóðarátakinu Blóðskimun til bjargar var ýtt úr vör.
  • Þátttakendur yfir 80 þúsund.
  • Markmiðið er að koma í veg fyrir mergæxli á Íslandi með skimun og meðferð.
  • Tæplega 60 manns hafa hafið lyfjameðferð við mallandi mergæxli – Fyrstu sjúklingarnir sýna gríðargóða svörun við meðferðinni.
  • Blóðskimun til bjargar hefur fengið gefins lyf að verðmæti 2,5 milljarða króna.
  • Rannsóknin hefur áður hlotið stóra rannsóknarstyrki. 

Mergæxli er beinmergskrabbamein og ólæknandi sjúkdómur. Krabbameinið hefur ákveðinn undanfara, svokallað forstig mergæxlis (MGUS) og mallandi mergæxli (SMM), sem auðvelt er að greina með einfaldri blóðprufu. Litlar líkur eru á því að forstig mergæxlis þróist yfir í mallandi mergæxli en miklar líkur eru á að mallandi mergæxli þróist yfir í mergæxli og almennt greinast allt að 97% mergæxlistilfella þegar sjúkdómurinn er langt genginn. Greinist mergæxlið hins vegar snemma eru horfur sjúklinga almennt betri en undanfarin ár hafa komið fram nýjar lyfjameðferðir við mergæxli sem hafa leitt til byltingar í meðferð og horfum sjúkdómsins.

3600 greinst með forstig mergæxlis og 300 með lengra genginn sjúkdóm

Þjóðarátakinu Blóðskimun til bjargar var ýtt úr vör haustið 2016 í samstarfi Háskóla Íslands, Landspítala og Krabbameinsfélags Íslands. Markmið rannsóknarinnar er að rannsaka áhrif skimunar fyrir forstigi mergæxlis, kanna orsakir og afleiðingar sjúkdómsins og bæta líf þeirra sem greinast með mergæxli og leita leiða til lækningar.

Þverfræðilegur rannsóknarhópur undir forystu Sigurðar Yngva Kristinssonar, prófessors í blóðsjúkdómum við Læknadeild Háskóla Íslands og sérfræðings við Landspítala, hefur unnið að rannsókninni sem er ein sú umfangsmesta sem gerð hefur verið í heiminum. Öllum einstaklingum, sem fæddir eru 1975 eða fyrr hér á landi, var boðið að taka þátt í henni og skráðu yfir 80 þúsund manns sig til þátttöku.

Nú hafa ríflega 75 þúsund sýni verið skimuð og alls hafa rúmlega 3600 manns greinst með forstig mergæxlis og tæplega 300 með lengra genginn sjúkdóm eða mallandi mergæxli. Einstaklingum með mallandi mergæxli hefur verið boðin þátttaka í lyfjarannsókn með það að markmiði að koma í veg fyrir framþróun sjúkdómsins yfir í mergæxli. Með skimuninni hefur því verið hægt að finna einkennalausa einstaklinga og hefja lyfjameðferð fyrr en ella hefði verið mögulegt. Auk þess er fylgst með þátttakendum sem greinast með forstig mergæxlis með árlegu eftirliti.

Rýna nánar í mallandi mergæxli

Styrkurinn sem vísindahópurinn hefur nú hlotið frá Evrópska rannsóknaráðinu er til fimm ára. Hann verður nýttur til frekari rannsókna tengdum mallandi mergæxli en allar fyrri rannsóknir á þessu forstigi sjúkdómsins hafa verið á sjúklingum sem greinst hafa fyrir tilviljun. Því er mikilvægum spurningum um sjúkdóminn ósvarað. „Í þessari rannsókn munum við greina alla sjúklinga með mallandi mergæxli, sem fundust í Blóðskimun til bjargar, með það að markmiði að bæta verulega skilning og meðferð byggða á snemmgreiningu og snemmmeðferð. Meginmarkmiðin eru að auka skilning á faraldsfræði og klínískri hegðun mallandi mergæxlis, meta andlega líðan þátttakenda í eftirliti og í meðferð, meðhöndla mallandi mergæxli til að koma í veg fyrir mergæxli og grunnrannsóknir til að þróa nýjar aðferðir til að greina sjúkdóminn og mæla svörun meðferðar,“ segir Sigurður Yngvi.

Nú þegar hafa tæplega 60 manns hafið lyfjameðferð með líftæknilyfjum við mallandi mergæxli. Fyrstu sjúklingarnir hafa nú lokið meðferð og virðist meðferðin vera mjög áhrifarík og sjúklingar þola hana vel. Í tengslum við rannsóknina hefur forsvarsfólk Blóðskimunar til bjargar fengið lyf að verðmæti 2,5 milljarða íslenskra króna til að nota í lyfjarannsókninni, Íslendingum að kostnaðarlausu. „Með því að nota nýjustu líftæknilyf fá sjúklingarnir bestu mögulegu meðferð við sjúkdómi sínum. Lífsgæðahluti rannsóknarinnar er einnig mikilvægur því niðurstöður þaðan gefa vísbendingar um hvaða áhrif skimun eða vitneskja um mögulega sjúkdóma getur haft á líf og líðan fólks,“ segir Sigurður Yngvi enn fremur.

Annar styrkurinn frá ERC í harðri samkeppni

Þetta er í annað sinn sem Sigurður Yngvi hlýtur styrk frá Evrópska rannsóknaráðinu til verkefnisins en undir lok árs 2016 hlaut hópurinn 180 milljóna króna styrk frá þessum anga rannsóknaáætlunar Evrópusambandsins. Meginmarkmið ERC er að hvetja til hágæðagrunnrannsókna í Evrópu og samkeppni um styrki frá ráðinu er gríðarhörð en styrkumsóknir að þessu sinni voru yfir 2600. Vísindamenn við Háskóla Íslands hafa fengið 4 slíka styrki á síðustu 15 árum og Sigurður Yngvi er fyrsti íslenski vísindamaðurinn sem fær tvo slíka. Rannsóknarhópurinn á bak við Blóðskimun til bjargar hefur frá árinu 2016 einnig fengið aðra sambærilega styrki frá samtökunum The International Myeloma Foundation í Bandaríkjunum og öndvegisstyrki frá Rannsóknasjóði Rannís en rannsóknin er eingöngu rekin með styrktarfé.

Styrkurinn frá ERC er mikil viðurkenning á því gríðargóða vísindastarfi sem þegar hefur verið unnið í tengslum við verkefnið og undirstrikar þýðingu þess á alþjóðavettvangi. „Styrkurinn hefur gríðarlega þýðingu fyrir rannsóknina og gerir okkur kleift að ráða inn fleiri vísindamenn í teymið til að tryggja að rannsóknin verði áfram í hæsta gæðaflokki á heimsvísu. Nú starfa 20 manns í fullu starfi við verkefnið auk 5 doktorsnema, 4 nýdoktora og um það bil 20 meðrannsakenda. Þetta frábæra samstarfsfólk mitt sem samanstendur af framúrskarandi vísindafólki mun án efa halda áfram að ryðja brautina með nýrri þekkingu á mergæxlum á næstu misserum og árum,“ segir Sigurður Yngvi sem m.a. hefur fengið alþjóðleg heiðursverðlaun fyrir framúrskarandi rannsóknir á sviði mergæxla.

Sigurður Yngvi segir vísindahópinn gríðarlega þakklátan þeim risastóra hópi sem svarað hafi kallinu og lagt sitt af mörkum til framþróunar vísindalegrar þekkingar og samfélagsins með þátttöku í rannsókninni. „Með rannsókninni mun fyrst og fremst skapast ómetanleg vitneskja um forstig mergæxlis og eftirfylgni þess. Að geta greint mergæxli fyrr en ella mun verða til þess að sjúklingar framtíðarinnar fái nákvæmari greiningu en nú er mögulegt og sjúklingar með mergæxli fá bestu meðferð við sjúkdómi sínum og á réttum tíma. Þátttakendur sem greinast með forstig mergæxlis verða í áframhaldandi eftirliti og sjúklingar með mergæxli eru meðhöndlaðir fyrr en ella.“ 

Krabbameinsfélagið er stolt af samstarfi sínu við rannsóknarhópinn. Fyrstu fimm árin var rannsóknin rekin í húsnæði Krabbameinsfélagsins endurgjaldslaust þar sem hún er enn til húsa. Rannsóknir tengdar Blóðskimun til bjargar hafa hlotið styrki úr Vísindasjóði Krabbameinsfélagsins.


Fleiri nýjar fréttir

29. sep. 2023 : Slökkti fyrst eld og keypti svo Bleiku slaufuna

Það hefur vonandi ekki farið framhjá neinum að sala Bleiku slaufunnar hófst á miðnætti í dag, 29. september. Nágranni Krabbameinsfélagsins, Bergrún Ingimarsdóttir, varð fyrst til að tryggja sér slaufu ársins. Það mátti þó litlu muna að það tækist ekki vegna elds sem hún þurfti að ráða niðurlögum að.

Lesa meira

27. sep. 2023 : Bleika slaufan 2023

Gullsmiðirnir Lovísa Halldórsdóttir (by lovisa) og Unnur Eir Björnsdóttir (EIR) eru hönnunarteymið á bak við Bleiku slaufuna í ár. Það er óhætt að segja að þeim hafi tekist ætlunarverk sitt, en slaufan í ár er sú bleikasta sem við höfum séð lengi

Lesa meira

26. sep. 2023 : "Mikilvægt að segja líka frá því sem gengur vel"

Styttri legutími, skjótari bati, lægri dánartíðni og betri lifun. Ný aðferðafræði við skurðaðgerðir við lungnakrabbameini var tekin upp nærri því á einni nóttu og hefur gefið reglulega góða raun í baráttunni gegn lungnakrabbameini. Tómas Guðbjartsson skurðlæknir og Viktor Ásbjörnsson læknanemi segja hér frá byltingarkenndri þróun í skurðaðgerðum við lungnakrabbameini og mikilvægi rannsókna og stuðnings við þær fyrir framþróun í málaflokkinum. 

Lesa meira

26. sep. 2023 : Takk fyrir komuna

Nýafstaðið málþing í tilefni af alþjóðadegi krabbameinsrannsókna vakti greinilega forvitni margra, því húsfyllir var í Skógarhlíðinni auk þess sem fjölmargir fylgdust með í streymi. Krabbameinsfélagið vill koma á framfæri kærum þökkum til allra sem tóku þátt.

Lesa meira
Elísa Dögg Björnsdóttir frá TVG-Zimsen, Árni Reynir Alfredsson, forstöðumaður markaðsmála og  fjáröflunar hjá Krabbameinsfélaginu og Magnús Ingi Guðmundsson frá IDÉ House of brands, sem sér um framlei

25. sep. 2023 : Nú er það bleikt!

Að baki átaki eins og Bleiku slaufunni búa fjölmörg handtök og undirbúningur hefst mörgum mánuðum áður en afurðin berst landsmönnum í hendur og hjörtu. Það er því alltaf stór stund þegar við fáum sjálfa slaufuna í hús og niðurtalningin fyrir upphaf átaksins hefst formlega.

Lesa meira

Var efnið hjálplegt?