Björn Teitsson 30. des. 2020

Reykingar og Covid-19

  • Screen-Shot-2020-12-30-at-09.51.22

COVID-19 getur skaðað hjarta-, æða- og öndunarfærakerfi og skemmdir sem reykingar hafa valdið á lungunum gera sjúklingana móttækilegri fyrir lungnasýkingum bæði af völdum baktería og veira  

Reykingar eru áhættuþáttur fyrir marga sjúkdóma og valda dauða meira en 8 milljóna manna um heim allan á hverju ári. Það er margsannað að hvers kyns reykingar eru skaðlegar og hafa alvarleg áhrif á hjarta-, æða- og öndunarfærakerfi manna. COVID-19 getur skaðað hjarta-, æða- og öndunarfærakerfi og skemmdir sem reykingar hafa valdið á lungunum gera sjúklingana móttækilegri fyrir lungnasýkingum bæði af völdum baktería og veira. Gögn frá Kína, þar sem faraldurinn átti upptök sín, sýna að fólk með heilsufarsvandamál í þessum tveimur kerfum af völdum reykinga er í meiri hættu á að þróa alvarleg COVID-19 einkenni. Niðurstöður annarrar nýlegrar rannsóknar sýna að reykingar geta aukið viðbrögð ensímviðtaka sem kallast ACE2 og er þekktur sem viðtaki fyrir bæði SARS-kórónaveiruna og öndunarfæraveiru í mönnum sem kallast NL638. Sem þýðir að þeir sem reykja eru í meiri hættu á að veikjast alvarlega ef þeir smitast af kórónaveirunni.

Hér að neðan má sjá nýjustu faraldsfræðilegu gögnin úr rannsóknum sem þegar hafa verið birt í Kína:

● Zhou og samstarfsmenn hans fengu þær niðurstöður að af þeim sem sýktir voru af COVID-19 og létust höfðu 9% reykt en einungis 4% þeirra lifðu af.

● Zhang og samstarfsmenn fengu þær niðurstöður meðal þungt haldinna sjúklinga að 3,4% reyktu og 6,9% voru fyrrverandi reykingamenn en samanborið við lítið veika sjúklinga voru engir reykingamenn og 3,7% fyrrverandi reykingamenn sem gefur hlutfallið 2,23; (95% CI: 0,65–7,63; p=0,2).

● Guan og samstarfsmenn hans framkvæmdu stærstu rannsóknina með 1.099 COVID-19 sjúklingum. Niðurstöður þeirra sýndu að meðal sjúklinga með alvarleg einkenni voru 16,9% reykingamenn og 5,2% fyrrverandi reykingamenn en til samanburðar við lítið veika sjúklinga þá voru 11,8% þeirra reykingamenn og 1,3% fyrrverandi reykingamenn. Í þeim hópi sjúklinga sem þurfti að fara í öndunarvél, voru lagðir inn á gjörgæslu eða létust voru 25,5% reykingamenn og 7,6% fyrrverandi reykingamenn.

● Liu og samstarfsmenn komust að þeirri niðurstöðu að meðal sjúklinga með alvarleg einkenni voru 16,9% reykingamenn og 5,2% fyrrverandi reykingamenn og reykingar sýndu sig að vera áhættuþáttur hvað varðaði neikvæða þróun sjúkdómsins (OR=14,28; 95% CI: 1,58–25,00; p= 0,018).

Niðurstöður rannsóknanna hér að ofan sýna fram á að reykingamenn verði veikari af völdum COVID-19 eða 2,4 sinnum líklegra er að þeir séu lagðir inn á gjörgæsludeild, þarfnist aðstoðar öndunarvéla eða látist miðað við sjúklinga sem ekki reyktu (95% CI: 1,43–4,04); og svo er að sjá sem líkur þeirra á að fá alvarleg sjúkdómseinkenni aukist einnig (Δ: 40%).

Þær niðurstöður sem fást frá reykingamönnum vekja upp spurninguna um hvort þetta eigi einnig við um fólk sem notar vatnspípur eða hefur skipt yfir í „öruggari“ kosti á borð við rafsígarettur eða hitaðar tóbaksvörur.

Mikilvægt er að hafa í huga að burtséð frá því hvort varan framleiðir gufu eða reyk getur hún eftir sem áður valdið lungnaskemmdum af völdum sýkinga rétt eins og hefðbundnar sígarettur gera og því er ekki hægt að álíta þessar vörur „öruggari“ kosti.

Rannsóknir á COVID-19 sýna kynjamun þannig að karlar kunni að vera viðkvæmari miðað við tölur um staðfest smit og andlát. Níu af fyrstu 13 ríkjunum sem gáfu upp niðurstöður um staðfest smit út frá kyni tilkynntu um fleiri smit meðal karla. Fyrstu sex ríkin (Kína, Frakkland, Þýskaland, Íran, Ítalía og Suður-Kórea) sem birtu niðurstöður um dauðsföll í staðfestum tilvikum, flokkuð eftir kyni, tilkynntu að hlutfall karla væri hærra en kvenna og að munurinn væri meiri en 50% (15).

Samantekt á niðurstöðum vegna reykingamanna og notenda nýnæmistóbaksvara:

  • Reykingar hækka hlutfall þeirra sem fá alvarleg COVID-19 einkenni.
  • Reykingar hækka hlutfall þeirra sem þurfa að fara í öndunarvél, leggjast inn á gjörgæsludeild eða látast.
  • Notkun rafsígaretta og hitaðra tóbaksvara er ekki „öruggari“ kostur og getur leitt til aukinnar hættu á alvarlegum einkennum og sjúkrahússinnlögn.
  • Vatnspípur geta verið hvati fyrir samkomur manna og aukið hættuna á sjúkdómasmiti.
  • Óbeinar reykingar sem fólk verður fyrir geta valdið aukinni hættu á alvarlegum einkennum og sjúkrahússinnlögn.
  • Að hætta að reykja gæti til lengri tíma litið dregið úr álaginu á heilbrigðiskerfið af völdum COVID-19 og aukið heilbrigði manna.

Tilmæli ENSP - European Network for Smoking and Tobacco Prevention

  • Styðja þarf reykingamenn, sem fólk í áhættuhópi, til að hætta reykingum.
  • Þeir sem ekki geta hætt reykingum strax ættu að draga úr fjölda þeirra sígaretta sem þeir reykja á degi hverjum. Þótt svo þetta dragi ekki nægilega úr hættunni getur það aukið möguleikana á að hætta síðar og minnkað þannig afleiðingar vegna COVID-19 í framtíðinni.
  • Þar sem reykingamenn teljast áhættuhópur ættu þeir að forðast staði þar sem þeir gætu smitast af COVID-19.
  • Notendur tóbaks, rafsígaretta, hitaðra tóbaksvara og vatnspípa eru mögulega í minni hættu á að sýkjast ef þeir hætta neyslunni, þar sem það myndi minnka stórlega hreyfingar og snertingu við andlit og, þar sem vatnspípur eru notaðar, hættuna á að notendur deili búnaðinum og safnist saman.
  • Að hætta reykingum hefur strax í för með sér bætta virkni lungna, hjarta og kransæða, auðveldar meðferð fjölkvilla og dregur einnig mögulega úr alvarlegum COVID-19 einkennum.
  • Það er ekki alltaf auðvelt að hætta en notkun reykleysislyfja tvöfaldar að minnsta kosti líkurnar á að ná því að hætta til langframa. Slík lyf geta líka dregið úr fráhvörfum.
  • Atferlisráðgjöf og meðferðartækni geta aðstoðað fólk við að hætta reykingum.

Símaþjónusta og reykleysissímanúmer geta veitt reykingamönnum upplýsingar og stuðning. Ráðgjöf í reykbindindi er í síma 800 6030. Síminn er opinn virka daga milli kl. 17:00 og 20:00.

Mikið er af upplýsingum og fróðleik fyrir þá sem vilja hætta að reykja á hinum ýmsu vefsíðum. Einnig er mikill fróðleikur og verkfæri fyrir heilbrigðisstarfsfólk sem vill aðstoða skjólstæðinga sína við að hætta reykingum og annarri tóbaksnotkun hjá ENSP á vefsíðunni http://elearning-ensp.eu/.

Þýtt og staðfært frá staðreyndasyrpu #1/2020 – The European Network For Smoking And Tobacco Prevention (ENSP).     

Hér má hlaða niður bækling á pdf-formi. 


Fleiri nýjar fréttir

9. jún. 2023 : Láttu mig vita ef ég get gert eitthvað fyrir þig

Þegar einhver í kringum okkur greinist með krabbamein er eðlilegt að upplifa óöryggi. þótt flestir vilji leggja sitt af mörkum til að vera til staðar getur óttinn við að segja ekki réttu hlutina eða að vita ekki hvað á að segja leitt til þess að jafnvel verði minna samband við viðkomandi en áður.

Lesa meira

30. maí 2023 : Bylting - hálfur milljarður til krabbameinsrannsókna

Vísindasjóður Krabbameinsfélagsins hefur frá stofnun sjóðsins árið 2015 styrkt 41 krabbameinsrannsókn um samanlagt 384 miljónir króna. Næsta úthlutun úr sjóðnum verður í júní næstkomandi.

Lesa meira

30. maí 2023 : Krabbameinsskimanir – mikið fyrir lítið

Áratugir eru síðan skimanir fyrir legháls- og brjóstakrabbameini voru teknar upp á Íslandi. Þær hafa fyrir löngu sannað gildi sitt þó þær veiti aldrei fullkomna vörn. Konur hér á landi hafa með afgerandi hætti sýnt að þær kunna að meta aðgengi að þeim.

Lesa meira

30. maí 2023 : Á Ís­landi greinast um 1800 manns á hverju ári með krabba­mein

Þeir gætu verið færri. Þó að ekki sé hægt að koma í veg fyrir öll krabbamein sýna rannsóknir að áhættuþættir margra krabbameina tengjast lífsstíl. Með bættri lýðheilsu þjóðar er hægt að fækka verulega ákveðnum krabbameinum.

Lesa meira

28. maí 2023 : Lokað 30. maí í ráðgjafarþjónustu vegna vinnufundar ráðgjafarteymis

Lokaða verður hjá ráðgjafarþjónustu Krabbameinsfélagsins þriðjudaginn 30. maí vegna vinnufundar ráðgjafarteymis. Hægt er að senda fyrirspurnir og erindi á radgjof@krabb.is og er þeim svarað eins fljótt og hægt er.

Lesa meira

Var efnið hjálplegt?