Sigriður Sólan Guðlaugsdóttir 13. nóv. 2019

Rekstur skimana verði áfram ein eining

  • Guðrún Birgisdóttir, geislafræðingur, í brjóstamyndatöku á Leitarstöð 2019.

Heilbrigðisráðherra hefur nú ákveðið að færa framkvæmd skimana frá Krabbameinsfélaginu til heilsugæslunnar (fyrir leghálskrabbameinum) og til Landspítala (fyrir brjóstakrabbameinum). Ekki liggur fyrir ákvörðun um hvar utanumhaldi um gagnagrunn, boðunum í skimanir, uppgjöri þeirra og frumurannsóknarstofu verði fyrir komið. 

Krabbameinsfélagið telur afar mikilvægt að skimanir verði áfram ein eining. Ákvarðanir ráðherra byggja að hluta til á tillögum skimunarráðs sem skilað var snemma árs og minnisblaði landlæknis, en eru að hluta til aðrar.

Umræða um að færa skimunina til opinberra stofnana hefur skapað aukna óvissu í rekstri verkefnisins og valdið starfsfólki Krabbameinsfélagsins miklu álagi. Við skimanirnar starfar sérhæft fagfólk sem sinnir verkefninu af miklum metnaði og hollustu, þrátt fyrir mikla óvissu um framtíðina.

„Krabbameinsfélagið leggst ekki gegn því að starfsemin verði flutt til opinberra stofnana. Félagið hefur hins vegar talað fyrir því að starfsemin verði ekki aðskilin, heldur rekin áfram í einni einingu sem skapar mikla þekkingarlega samlegð, er hagkvæm rekstrarlega og að auki eingöngu með fókus á skimanir,“ segir Halla Þorvaldsdóttir, framkvæmdastjóri Krabbameinsfélagsins.

Halla Þorvaldsdóttir

Tilgangur skimana fyrir krabbameinum er að fækka dauðsföllum af völdum sjúkdómanna. Í dag mæla alþjóðastofnanir með skimunum fyrir brjóstakrabbameinum, þar sem reynt er að finna sjúkdómana á byrjunarstigi, fyrir leghálskrabbameinum og krabbameinum í ristli og endaþarmi þar sem í báðum tilfellum er skimað fyrir forstigum krabbameinanna. Stefnt skal að því að þátttaka í skimunum sé sem mest.

Sérstaða Leitarstöðvarinnar

„Leitarstöðin hefur ákveðna sérstöðu því þar er einungis sinnt skimunum og þangað leita konur af öllu landinu, þrátt fyrir að skimun sé í boði í þeirra heimabyggð,“ segir Halla: „Því miður hefur ekki verið hljómgrunnur fyrir tillögu félagsins um að halda starfinu í sömu einingu en félagið ítrekar mikilvægi þess að horft sé á skimunina sem eitt heildarverkefni, frá boðum í skimun til uppgjörs.“

Á hverju ári koma um 2000 konur sem eiga lögheimili á landsbyggðinni í skimun fyrir leghálskrabbameini á Leitarstöðina og um 3000 konur sem eiga lögheimili á landsbyggðinni í skimun fyrir brjóstakrabbameini. Talsverður hluti kvenna sem tekur þátt í skimun fyrir brjóstakrabbameini eða 30% nýtir sér að geta farið í skimun fyrir leghálskrabbameini í sömu heimsókn.

Þátttaka í skimun hefur aukist

Þátttöku kvenna hér á landi í skimun hefur verið ábótavant og þátttaka fór örlítið minnkandi um árabil. Á þessu ári hefur náðst mikill árangur vegna ýmissa aðgerða Krabbameinsfélagsins. Komur kvenna í skimun fyrir brjóstakrabbameinum eru á þessu ári 29% fleiri en á sama tímabili fyrir ári og 19% fleiri í skimun fyrir krabbameini í leghálsi. Hjá sumum aldurshópum er aukningin mun meiri.

Komur-i-leghalsskimun-2019-2019Timabil

Komur-i-brjostaskimun-2018-2019

Frá árinu 2014 hafa Sjúkratryggingar Íslands gert þjónustusamning við Krabbameinsfélagið um skimanir fyrir krabbameinum. Félagið hefur sinnt skimununum af metnaði. Þjónustukönnun sem Maskína vann fyrir Leitarstöðina síðastliðið vor leiddi í ljós að 94% kvenna þótti viðmót starfsfólk mjög gott eða fremur gott, 90% kvenna sögðu almenna upplifun sína af komu á Leitarstöðina mjög góða eða frekar góða, 91% kvenna taldi sig fá mjög eða fremur fullnægjandi svör við spurningum sínum hjá starfsfólki Leitarstöðvar, 87% kvenna þótti aðstaðan á Leitarstöðinni mjög góð eða frekar góð og 96% kvenna þótti tími heimsóknar á Leitarstöðina hæfilegur.

Skimanir undirfjármagnaðar af ríkinu

Það fjármagn sem ríkið hefur lagt til leitarstarfsins hefur ekki staðið undir kostnaði. Félagið hefur því þurft að leggja tugi milljóna til verkefnisins á ári hverju. Á árunum 2016 – 2018 lagði félagið sem dæmi 173 milljónir til verkefnisins auk söfnunarfjár Bleiku slaufunnar 2016 sem rann óskipt til uppfærslu tækja til brjóstamyndatöku, bæði tækja á Leitarstöð, farandtækis sem farið er með um landið og tækis á Sjúkrahúsinu á Akureyri. Heilbrigðisráðuneytið hefur viðurkennt undirfjármögnunina með 50 milljóna viðbótarframlagi í tveimur síðustu samningum, fyrir árin 2018 – 2020.

„Samningar um skimunina hafa því miður verið til skamms tíma í senn sem hefur skapað erfiðleika í rekstri og óhjákvæmilega bundið hendur félagsins varðandi ákveðna þætti og framkvæmdir. Því miður hefur það fjármagn sem eyrnamerkt er skimunum ekki dugað til þrátt fyrir að rekstrarkostnaði sé haldið í lágmarki. Þetta hefur verið félaginu þungur baggi, en með stuðningi landsmanna í fjáröflunarátökum og Velunnurum félagsins, sem styðja starfið mánaðarlega, hefur þrátt fyrir allt verið hægt að halda skimuninni áfram, á sem bestan hátt“ segir Halla.

Vorið 2017 var félaginu tilkynnt um að velferðarráðuneytið hygðist semja við félagið um skimun fyrir krabbameinum til lengri tíma en áður eða 3 til 5 ára. Af því varð ekki og frá árinu 2018 hefur verið í deiglunni að færa verkefnið til opinberra stofnana. Krabbameinsfélagið varð við beiðni heilbrigðisráðuneytisins um að tryggja aðgengi að skimunum út árið 2020, á meðan gengið væri frá framtíðarfyrirkomulagi.

Skimanir á Íslandi

Krabbameinsfélagið kom á fót skimunum fyrir legháls- og brjóstakrabbameinum fyrir áratugum síðan. Félagið hefur unnið í samstarfi við velferðarráðuneytið að undirbúningi að skimun fyrir krabbameinum í ristli og endaþarmi og þrýst mjög á um að henni verði komið á sem fyrst. Frá upphafi hefur Krabbameinsfélagið séð um skimanir fyrir brjósta- og leghálskrabbameinum og haft með alla framkvæmdina að gera, allt frá sendingu boðsbréfa til uppgjörs skimananna og árangursmats, auk skimananna sjálfra og framhaldsskoðana þegar þörf krefur. Verkefnið hefur frá upphafi verið hluti af hugsjónastarfi félagsins.

Það er heilbrigðisyfirvalda að tryggja aðgengi að skimunum sem draga úr dauðsföllum af völdum krabbameina. Hvar sem skimunin fer fram verður hið opinbera að tryggja nægilegt fjármagn til verkefnisins svo skimunin geti verið eins og best lætur og í samræmi við alþjóðleg viðmið. Skimuninni þarf að sinna af þjálfuðu starfsfólki, hún þarf að fara fram við góðar aðstæður og vera aðgengileg öllum. Í því síðastnefnda sýnir reynsla bæði annarra þjóða og reynsla af tilraunaverkefni Krabbameinsfélagsins að gjaldfrjáls skimun spilar stórt hlutverk.

Gjaldfrjáls skimun

Ráðherra lýsti því yfir í mars að skimun yrði gjaldfrjáls og fulltrúar heilsugæslunnar hyggjast bjóða upp á gjaldfrjálsa skimun. Það er mikið fagnaðarefni. Krabbameinsfélagið ákvað að kanna áhrif þess að skimun væri gjaldfrjáls og hefur þar sem af er árinu lagt 9 milljónir í að bjóða tveimur árgöngum ókeypis skimun á árinu 2019. Niðurstöðurnar sýna að gjaldfrjáls skimun skiptir sköpum. Komum 23 ára kvenna á Leitarstöðina í leghálsskimun fjölgaði um 92% og komum 40 ára kvenna á Leitarstöðina í brjóstaskimun fjölgaði um 90% frá fyrra ári.

Tugir milljóna í undirbúning fyrir skimun í ristli og endaþarmi

Það er baráttumál Krabbameinsfélagsins að hér á landi sé alltaf í boði skimun fyrir þeim krabbameinum sem alþjóðastofnanir mæla með. Ekki má sofna á verðinum. Skimun fyrir krabbameinum í ristli og endaþarmi má ekki bíða lengur en reyndin er. Búið er að leggja tugi milljóna í undirbúning þeirrar skimunar og einungis ákvörðun stjórnvalda kemur í veg fyrir að hafist sé handa. Krabbamein í ristli og endaþarmi er skaðvaldur sem veldur dauða eins íbúa landsins í viku hverri.

Áskorun um styttingu biðtíma á Brjóstamiðstöð Landspítalans

Þátttakendur á málþingi Krabbameinsfélagsins um brjóstakrabbamein í október sendu framkvæmdastjórn Landspítala ogheilbrigðisráðherra áskorun um að finna lausn á óviðunandi bið kvenna í framhaldsskoðun komi upp grunur um brjóstakrabbamein. Biðtíminn er sjö sinnum lengri en alþjóðleg viðmið segja til um, að meðaltali 35 dagar en ekki 5.

„Landspítalinn hefur alfarið séð um þessar sérskoðanir í tæp þrjú ár, eða eftir að ráðherra tók ákvörðun um að færa verkefnið þangað. Þetta er algerlega óviðunandi staða og sannarlega víti til varnaðar í fyrirhuguðum breytingum. Við heyrum ítrekað fréttir af gríðarlegu álagi og jafnvel samdrætti í þjónustu Landspítalans. Spyrja má hvort hægt sé að bæta skimunum fyrir brjóstakrabbameinum á spítala sem er í þeirri stöðu að geta vart annað öðru starfi, fyrir utan áhyggjur okkar af því að fjármagnið sem fylgir skimunum muni ekki duga til. Spítalinn á varla mikla varasjóði til að bæta upp á þar sem á vantar,“ segir Halla.

„Það verður að tryggja að vandað sé til undirbúnings á tilfærslu verkefna og þar duga góðar hugmyndir skammt. Nægilegar fjárveitingar verða að vera til staðar, mannauður og aðstaða, áður en lagt er af stað, því annars er betur heima setið,“ segir Halla.

Sýni fram á getu til að sinna skimunum

Krabbameinsfélagið telur mikilvægt að stofnanir sem taki við jafn viðamiklu verkefni og skimanir í landinu eru, kynni markmið sín og sýni fram á þær geti tryggt aðgengi að skimun, sem stenst alþjóðleg gæðaviðmið. 


Fleiri nýjar fréttir

16. apr. 2024 : Krabba­meins­skráning á Íslandi í 70 ár - Afmælis­málþing

Í tilefni af 70 ára afmæli krabbameinsskráningar á Íslandi býður Krabbameinsfélagið til afmælismálþings.

Lesa meira

16. apr. 2024 : Með þínum stuðningi getum við gert svo ótal margt!

Krabbameinsfélagið þakkar öllum þeim fjölmörgu sem lögðu félaginu lið í Mottumars, árverkni- og fjáröflunarátaki félagsins, í ár. Við erum hrærð yfir þeirri velvild, samkennd og hlýju sem við fundum svo vel fyrir. Öll starfsemi félagsins er rekin fyrir sjálfsaflafé og því er stuðningur almennings og fyrirtækja forsenda fyrir starfinu.

Lesa meira

12. apr. 2024 : Saga Ómars Einarssonar

Ómar fékk krabbamein í háls, árið 2008, á sama tíma og Geir H. Haarde blessaði Ísland. Hann var geislaður í upphafi og síðar skorinn. Í framhaldinu var honum bent á að hitta Ragnar Davíðsson, formann félagsins Ný rödd, sem er eitt af aðildarfélögum Krabbameinsfélagsins. Ragnar hafi hjálpað sér og öðrum mikið.

Lesa meira

8. apr. 2024 : Frábær þátttaka í Skegg­keppni Mottu­mars 2024

Þátttakendur í Skeggkeppni Krabbameinsfélagsins þetta árið voru 360 talsins og alls söfnuðust rétt rúmlega 7,3 milljónir króna. Krabbameinsfélagið þakkar öllum þeim sem tóku þátt og öllum sem styrktu.

Lesa meira

25. mar. 2024 : Saga Sigurgeirs Líndal Ingólfssonar

Sigurgeir segir að fræðslan og kynningin í kringum Mottumars sé þýðingarmikil og hafi ýtt við honum þegar einkenni gerðu vart við sig og gert það að verkum að hann fór til læknis. Einkennin voru ekki ólík þvagfærasýkingu en það var einmitt svarið sem hann fékk fyrst þegar hann leitaði sér hjálpar.

Lesa meira

Var efnið hjálplegt?