Sigriður Sólan Guðlaugsdóttir 30. jan. 2020

Rannsóknir félagsins á BRCA2 stökkbreytingu og afleiðingum hennar

Árið 1995 tókst stórum alþjóðlegum hópi vísindamanna að finna BRCA2 genið. Í þessum hópi voru vísindamenn bæði frá Krabbameinsfélaginu og Landspítalanum.

Auk þess byggðu íslensku rannsóknirnar á ættagrunni og krabbameinsskráningu hjá Krabbameinsskrá Krabbameinsfélagsins. 

Árið áður höfðu erlendir vísindamenn staðsett BRCA1 genið, en BRCA er skammstöfun fyrir „BReast CAncer“ og fengu genin þessi nöfn þar sem gallar í þeim auka mjög líkur á brjóstakrabbameini. 

BRCA1 og BRCA2 genin forskrifa fyrir flóknum prótínum sem meðal annars gera við galla (stökkbreytingar) í erfðaefninu (DNA) og gegna lykilhlutverki í vernd líkamans gegn tilteknum krabbameinum. Sumir erfa stökkbreytt BRCA1 eða BRCA2 gen og ef stökkbreytingarnar eru á viðkvæmum stöðum í þessum stóru genum, myndast ekki eðlilegt BRCA prótín í nægilegu magni. Þar með laskast varnargeta líkamans gegn tilteknum krabbameinum. Stökkbreytingar í báðum þessum genum valda krabbameinum í brjóstum kvenna og eggjastokkum og til viðbótar valda stökkbreytingar í BRCA2 geninu hormónatengdum krabbameinum í körlum, þ.e. í brjóstum þeirra og blöðruhálskirtli. 

„BRCA1 stökkbreytingar eru fremur fátíðar á Íslandi, en hins vegar er ein tiltekin BRCA2 stökkbreyting, sem staðsett er framarlega í BRCA2 geninu, óvenju algeng í erfðamengi þjóðarinnar, þótt hún finnist sjaldan hjá öðrum þjóðum, en um 0,7% Íslendinga fæðast með hana,“ segir Laufey Tryggvadóttir, faraldsfræðingur og deildarstjóri hjá Krabbameinsfélaginu. 

Áhrif BRCA2 stökkbreytinga hafa verið mikið rannsökuð hjá Krabbameinsfélaginu. Árið 2006 kom í ljós að brjóstakrabbameinsáhætta hjá arfberum „íslensku“ BRCA2 stökkbreytingarinnar hafði fjórfaldast frá árinu 1900, svipað og sést hafði hjá bandarískum konum. Hækkandi áhætta með tímanum bendir til umhverfisáhrifa. 

„Þetta, ásamt því hve konurnar greinast á ólíkum aldri, undirstrikar hve áhættan er ólík á milli kvenna, jafnvel þótt þær séu með sömu BRCA2-stökkbreytinguna. Víða um heim er því unnið að gerð spáforrita fyrir einstaklingsbundna brjóstakrabbameinsáhættu BRCA2 arfbera eftir aldri, út frá þekktum áhættuþáttum úr umhverfi og erfðum. Ef vel tekst til, verður af þessu mikið gagn fyrir konur sem standa frammi fyrir erfiðri ákvarðanatöku, svo sem brottnámi brjósta og/eða eggjastokka, og á hvaða aldri þær ættu að fara í slíkar aðgerðir,“ segir Laufey. 

Verri horfur karla með BRCA2 

Árið 2007 varð Krabbameinsfélagið fyrst í heiminum til að staðfesta að karlar með BRCA2 stökkbreytingu sem fá krabbamein í blöðruhálskirtil hafa umtalsvert verri horfur en aðrir karlar með sama mein. Sambærilegar erlendar niðurstöður komu í kjölfarið. Þess vegna er nú mælt með því að karlar með BRCA2 stökkbreytingar séu undir eftirliti frá 45 ára aldri. 

„Tvær nýlegar rannsóknir okkar á horfum kvenna með brjóstakrabbamein bentu til að konur með meðfædda BRCA2 stökkbreytingu hefðu heldur verri horfur en aðrar konur. En í rannsóknarhópnum voru engar konur sem vissu um stökkbreytingu er þær fóru í meðferð. Lyfjameðferð hafði mjög jákvæð áhrif á horfurnar og er það í samræmi við erlendar rannsóknir sem sýna að þegar meðferðin tekur mið af tilvist BRCA2 stökkbreytingar eru horfurnar síst verri en hjá öðrum konum,“ segir Laufey. 

Krabbameinsfélagið stýrir nú norrænni rannsókn á sérstöðu brjóstakrabbameina hjá konum með brjóstakrabbamein og BRCA2 stökkbreytingu. Fyrstu niðurstöður benda til að stökkbreytingin valdi breytingum á eðli meinanna og ef það verður staðfest, geta niðurstöðurnar leitt til bættrar meðferðar hjá arfberum og aukins skilnings á eðli brjóstakrabbameina.

Greinin birtist í Blaði Krabbameinsfélagsins 2020.


Fleiri nýjar fréttir

29. sep. 2023 : Slökkti fyrst eld og keypti svo Bleiku slaufuna

Það hefur vonandi ekki farið framhjá neinum að sala Bleiku slaufunnar hófst á miðnætti í dag, 29. september. Nágranni Krabbameinsfélagsins, Bergrún Ingimarsdóttir, varð fyrst til að tryggja sér slaufu ársins. Það mátti þó litlu muna að það tækist ekki vegna elds sem hún þurfti að ráða niðurlögum að.

Lesa meira

27. sep. 2023 : Bleika slaufan 2023

Gullsmiðirnir Lovísa Halldórsdóttir (by lovisa) og Unnur Eir Björnsdóttir (EIR) eru hönnunarteymið á bak við Bleiku slaufuna í ár. Það er óhætt að segja að þeim hafi tekist ætlunarverk sitt, en slaufan í ár er sú bleikasta sem við höfum séð lengi

Lesa meira

26. sep. 2023 : "Mikilvægt að segja líka frá því sem gengur vel"

Styttri legutími, skjótari bati, lægri dánartíðni og betri lifun. Ný aðferðafræði við skurðaðgerðir við lungnakrabbameini var tekin upp nærri því á einni nóttu og hefur gefið reglulega góða raun í baráttunni gegn lungnakrabbameini. Tómas Guðbjartsson skurðlæknir og Viktor Ásbjörnsson læknanemi segja hér frá byltingarkenndri þróun í skurðaðgerðum við lungnakrabbameini og mikilvægi rannsókna og stuðnings við þær fyrir framþróun í málaflokkinum. 

Lesa meira

26. sep. 2023 : Takk fyrir komuna

Nýafstaðið málþing í tilefni af alþjóðadegi krabbameinsrannsókna vakti greinilega forvitni margra, því húsfyllir var í Skógarhlíðinni auk þess sem fjölmargir fylgdust með í streymi. Krabbameinsfélagið vill koma á framfæri kærum þökkum til allra sem tóku þátt.

Lesa meira
Elísa Dögg Björnsdóttir frá TVG-Zimsen, Árni Reynir Alfredsson, forstöðumaður markaðsmála og  fjáröflunar hjá Krabbameinsfélaginu og Magnús Ingi Guðmundsson frá IDÉ House of brands, sem sér um framlei

25. sep. 2023 : Nú er það bleikt!

Að baki átaki eins og Bleiku slaufunni búa fjölmörg handtök og undirbúningur hefst mörgum mánuðum áður en afurðin berst landsmönnum í hendur og hjörtu. Það er því alltaf stór stund þegar við fáum sjálfa slaufuna í hús og niðurtalningin fyrir upphaf átaksins hefst formlega.

Lesa meira

Var efnið hjálplegt?