Sigriður Sólan Guðlaugsdóttir 25. sep. 2020

Rannsókn: Vaxtarhraði á unglingsárum og mataræði á lífsleiðinni

  • Ólöf Guðný Geirsdóttir (t.v.), dósent við Háskóla Íslands og Álfheiður Haraldsdóttir ganga inn í hátíðarsal Háskóla Íslands ásamt doktorsnefndinni þar sem doktorsvörnin fór fram.

Brjóstakrabbamein er algengasta krabbamein meðal kvenna. Helstu áhættuþættir tengjast æxlunarþáttum en einnig hreyfingu, áfengisneyslu og líkamsþyngd. 

Mataræði er einnig talið tengjast áhættunni á að greinast með meinið þótt niðurstöður rannsókna séu misvísandi og óljósar. 

Álfheiður Haraldsdóttir rannsakaði þessi tengsl í doktorsnámi sínu í lýðheilsuvísindum við Matvæla- og næringarfræðideild Háskóla Íslands. Doktorsvörnin fór fram í febrúar 2020 og sátu tveir starfsmenn Krabbameinsfélagsins í doktorsnefndinni, þær Jóhanna E. Torfadóttir, sérfræðingur og Laufey Tryggvadóttir framkvæmdastjóri Krabbameinsskrárinnar. 

Notuð voru gögn frá Hjartavernd og Krabbameinsskrá fyrir rannsóknina. Meginmarkmið þessarar rannsóknar var að auka þekkingu á tengslum brjóstakrabbameins og mataræðis og vaxtar á unglingsárum, þegar brjóstvefurinn er að vaxa og þroskast. Fáar rannsóknir hafa verið birtar um það.

Helstu niðurstöður rannsóknarinnar benda til þess að bæði mataræði á unglingsárum og vaxtarhraði tengist brjóstakrabbameinsáhættu síðar á ævinni. Rífleg neysla á fiski og haframjöli tengdist minni áhættu en mikil rúgbrauðsneysla á unglingsárum sem og á miðjum aldri tengdist aukinni hættu á að greinast með meinið. 

Þá reyndist hraður vöxtur á unglingsárum auka áhættuna og einnig voru vísbendingar um að fæðumynstur á efri árum sem einkenndist af sætmeti tengdist aukinni áhættu. Þessar niðurstöður undirstrika mikilvægi lífshátta í þróun brjóstakrabbameins, bæði á fyrri hluta ævinnar en einnig síðar á ævinni, og eru mikilvægt framlag til aukinnar þekkingar. 

Krabbameinsfélagið óskar Álfheiði innilega til hamingju með doktorsgráðuna og mikilvægt framlag í þágu krabbameinsrannsókna.

Ljósmynd: Kristinn Ingvarsson.

Greinin birtist í Blaði Krabbameinsfélagsins veturinn 2020-2021.


Fleiri nýjar fréttir

16. apr. 2024 : Krabba­meins­skráning á Íslandi í 70 ár - Afmælis­málþing

Í tilefni af 70 ára afmæli krabbameinsskráningar á Íslandi býður Krabbameinsfélagið til afmælismálþings.

Lesa meira

16. apr. 2024 : Með þínum stuðningi getum við gert svo ótal margt!

Krabbameinsfélagið þakkar öllum þeim fjölmörgu sem lögðu félaginu lið í Mottumars, árverkni- og fjáröflunarátaki félagsins, í ár. Við erum hrærð yfir þeirri velvild, samkennd og hlýju sem við fundum svo vel fyrir. Öll starfsemi félagsins er rekin fyrir sjálfsaflafé og því er stuðningur almennings og fyrirtækja forsenda fyrir starfinu.

Lesa meira

12. apr. 2024 : Saga Ómars Einarssonar

Ómar fékk krabbamein í háls, árið 2008, á sama tíma og Geir H. Haarde blessaði Ísland. Hann var geislaður í upphafi og síðar skorinn. Í framhaldinu var honum bent á að hitta Ragnar Davíðsson, formann félagsins Ný rödd, sem er eitt af aðildarfélögum Krabbameinsfélagsins. Ragnar hafi hjálpað sér og öðrum mikið.

Lesa meira

8. apr. 2024 : Frábær þátttaka í Skegg­keppni Mottu­mars 2024

Þátttakendur í Skeggkeppni Krabbameinsfélagsins þetta árið voru 360 talsins og alls söfnuðust rétt rúmlega 7,3 milljónir króna. Krabbameinsfélagið þakkar öllum þeim sem tóku þátt og öllum sem styrktu.

Lesa meira

25. mar. 2024 : Saga Sigurgeirs Líndal Ingólfssonar

Sigurgeir segir að fræðslan og kynningin í kringum Mottumars sé þýðingarmikil og hafi ýtt við honum þegar einkenni gerðu vart við sig og gert það að verkum að hann fór til læknis. Einkennin voru ekki ólík þvagfærasýkingu en það var einmitt svarið sem hann fékk fyrst þegar hann leitaði sér hjálpar.

Lesa meira

Var efnið hjálplegt?