Sigriður Sólan Guðlaugsdóttir 25. sep. 2020

Rannsókn: Vaxtarhraði á unglingsárum og mataræði á lífsleiðinni

  • Ólöf Guðný Geirsdóttir (t.v.), dósent við Háskóla Íslands og Álfheiður Haraldsdóttir ganga inn í hátíðarsal Háskóla Íslands ásamt doktorsnefndinni þar sem doktorsvörnin fór fram.

Brjóstakrabbamein er algengasta krabbamein meðal kvenna. Helstu áhættuþættir tengjast æxlunarþáttum en einnig hreyfingu, áfengisneyslu og líkamsþyngd. 

Mataræði er einnig talið tengjast áhættunni á að greinast með meinið þótt niðurstöður rannsókna séu misvísandi og óljósar. 

Álfheiður Haraldsdóttir rannsakaði þessi tengsl í doktorsnámi sínu í lýðheilsuvísindum við Matvæla- og næringarfræðideild Háskóla Íslands. Doktorsvörnin fór fram í febrúar 2020 og sátu tveir starfsmenn Krabbameinsfélagsins í doktorsnefndinni, þær Jóhanna E. Torfadóttir, sérfræðingur og Laufey Tryggvadóttir framkvæmdastjóri Krabbameinsskrárinnar. 

Notuð voru gögn frá Hjartavernd og Krabbameinsskrá fyrir rannsóknina. Meginmarkmið þessarar rannsóknar var að auka þekkingu á tengslum brjóstakrabbameins og mataræðis og vaxtar á unglingsárum, þegar brjóstvefurinn er að vaxa og þroskast. Fáar rannsóknir hafa verið birtar um það.

Helstu niðurstöður rannsóknarinnar benda til þess að bæði mataræði á unglingsárum og vaxtarhraði tengist brjóstakrabbameinsáhættu síðar á ævinni. Rífleg neysla á fiski og haframjöli tengdist minni áhættu en mikil rúgbrauðsneysla á unglingsárum sem og á miðjum aldri tengdist aukinni hættu á að greinast með meinið. 

Þá reyndist hraður vöxtur á unglingsárum auka áhættuna og einnig voru vísbendingar um að fæðumynstur á efri árum sem einkenndist af sætmeti tengdist aukinni áhættu. Þessar niðurstöður undirstrika mikilvægi lífshátta í þróun brjóstakrabbameins, bæði á fyrri hluta ævinnar en einnig síðar á ævinni, og eru mikilvægt framlag til aukinnar þekkingar. 

Krabbameinsfélagið óskar Álfheiði innilega til hamingju með doktorsgráðuna og mikilvægt framlag í þágu krabbameinsrannsókna.

Ljósmynd: Kristinn Ingvarsson.

Greinin birtist í Blaði Krabbameinsfélagsins veturinn 2020-2021.


Fleiri nýjar fréttir

17. maí 2022 : 70 ár fyrir 70 andlit - Bjarni Bjarnason

Bjarni Bjarnason læknir var formaður Krabbameinsfélags Íslands frá 1966 til 1973 en hafði áður verið varaformaður þess síðan 1960. Hann var í stjórn Krabbameinsfélags Reykjavíkur frá 1951 og formaður frá 1960 til 1965. 

Lesa meira

16. maí 2022 : 70 andlit fyrir 70 ár - Guðbjartur Hannesson

Alþjóðlegi krabbameinsdagurinn 4. febrúar 2011 var merkisdagur. Þá tilkynnti Guðbjartur Hannesson, velferðarráðherra á árunum 2011 til 2013, að hann hygðist láta vinna krabbameinsáætlun fyrir Ísland. Ákvörðunina tengdi hann 60 ára afmæli Krabbameinsfélagsins.

Lesa meira

12. maí 2022 : Bjóðum Hörpu velkomna

Við erum stolt af því að bjóða nýjan starfsmann, Hörpu Ásdísi félagsráðgjafa, til starfa í ráðgjafarteymi Krabbameinsfélagsins. Harpa vann hjá Félagsþjónustu Reykjavíkur í 9 ár, áður en hún færði sig yfir á Reykjalund þar sem hún starfaði síðastliðin 22 ár.

Lesa meira

11. maí 2022 : Málþing: Krabba­meins­áætlun - á áætlun?

Málþing Krabbameinsfélags Íslands, laugardaginn 21. maí kl. 10 – 12 í Skógarhlíð 8, Reykjavík. Erindi á málþinginu flytja fulltrúar Krabba­meins­félagsins, Landspítala, heilbrigðis­ráðu­neytisins auk landlæknis.

Lesa meira

11. maí 2022 : 70 andlit í 70 ár - Lára Vigfúsdóttir

Fólk sem vill láta gott af sér leiða eftir sinn dag arfleiðir Krabbameinsfélagið reglulega að eigum sínum eða hluta þeirra. Lára Vigfúsdóttir, innanhússarkitekt frá Vestmannaeyjum er ein þeirra. Hennar erfðagjöf gerði Krabbameinsfélaginu mögulegt að bjóða fyrstu árgöngum sem boðið var í skimun fyrir legháls- og brjóstakrabbameinum á árinu 2020 ókeypis skimun. 

Lesa meira

Var efnið hjálplegt?