Ása Sigríður Þórisdóttir 21. sep. 2022

Rannsókn á krabbameinum í Reykjanesbæ: Eru tengsl við starfsemi varnarliðsins og lífsstíl?

Íbúar á Suðurnesjum hafa lengi haft áhyggjur af mengun í tengslum við herstöðina og að hún geti hafa valdið aukinni tíðni krabbameina. Rannsókn Krabbameinsfélagsins beindist að mengun í vatnsbólum og sýnir að mjög fá krabbamein á tímabilinu 1955 - 2010 skýrast af slíkri mengun. En talsverður fjöldi krabbameina reyndist tengjast lifnaðarháttum og voru slík mein marktækt fleiri en annars staðar á landinu.

Íbúar á Suðurnesjum hafa í áratugi búið við ótta um að efnamengun frá herstöðinni geti hafa valdið aukinni tíðni krabbameina á svæðinu. Þeir hafa ítrekað vakið athygli á málefninu og nýlega var lögð fram þingsályktunartillaga þar sem hvatt var til rannsóknar á því.

Nýgengi krabbameina er nú hærra á Suðurnesjum en á öðrum stöðum á landinu (Mynd 1). Rannsókna- og skráningarsetur Krabbameinsfélagsins ákvað því að kanna hvort mengun í vatnsbólum sem kom til vegna hersetunnar gæti skýrt hækkað nýgengi krabbameina. Einu vatnsbólin utan varnarsvæðisins sem gátu hafa orðið fyrir mengun frá hernum voru staðsett í Keflavík og Njarðvíkum (núverandi Reykjanesbæ) og því beindist rannsóknin eingöngu að vatnsbólum þar.

Mynd 1

Mynd-1

Mynd-2

Rannsóknin

Í fyrsta lagi var kannað hvort til staðar hefði, á tímum Varnarliðsins, verið krabbameinsvaldandi efnamengun í vatnsbólum Keflavíkur og Njarðvíkur. Einnig að hve miklu leyti hún gæti tengst nýgengi krabbameina á svæðinu allt fram til ársins 2010, eða 20 árum eftir að ný vatnsból að Lágum voru tekin í notkun árið 1991 og þau gömlu aflögð.

Í öðru lagi var athuguð tíðni tiltekinna þekktra lífsstílstengdra krabbameinsvalda í Reykjanesbæ, hún borin saman við önnur landsvæði og tengsl við krabbameinsnýgengið könnuð.

Aðferðir

Eftir að orsakasamband milli tiltekins áhættuþáttar og krabbameins hefur verið staðfest, telst hann vera „Group 1 carcinogen“ samkvæmt flokkun Alþjóða-krabbameinsrannsóknarstofnunarinnar (IARC).

Í úttektum IARC kemur einnig fram hversu mikið meiri áhætta þeirra er sem útsettir eru fyrir „Group 1" áhættuþætti en áhætta þeirra sem ekki hafa verið útsettir. Kallast sú stærð hlutfallsleg áhætta. Hægt er að áætla hve stórt hlutfall krabbameina greinist í þýði á tilteknum tímabili í tengslum við tiltekna staðfesta orsakaþætti. Þetta hlutfall kallast á ensku Population Attributable Risk fraction (PAR) og inn í þá jöfnu koma i) hlutfallsleg áhætta og ii) hve stórt hlutfall þýðisins var útsett á viðkomandi tímabili. Oftast er miðað við að tímabil útsetningar sé 20 árum áður en krabbameinstilfellin greinast því það tekur allt að 20 árum fyrir áhættuþátt að valda krabbameininu. Ef ekki eru til upplýsingar um hlutfall þýðis sem var útsett 20 árum áður er notast við styttra tímabil. Í rannsókninni var miðað við að útsetning fyrir Trichloroethene (TCE) yfir viðmiðunarmörkum hefði verið til staðar í einu vatnsbóli stöðugt árin 1951 til og með 1991 þótt ekki sé víst að útsetning hafi verið yfir viðmiðamörkun fyrstu árin eða áratugina. Varðandi reykingar voru til tölur um hlutfall þeirra sem reyktu daglega á árunum 1991-2000 en fyrir ofþyngd/offitu og áfengisneyslu eftir búsetu voru ekki til eldri tölur en frá árinu 2007.

Aðferðir - fyrri hluti - TCE mengun í vatnsbólum

Í lokadrögum og nýrri útgáfu viðamikillar skýrslu Verkís frá árinu 1988 eru skráðar niðurstöður mælinga á rokgjörnum leysiefnum sem leitað var að í vatnsbólum í nágrenni herstöðvarinnar, m.a. í Keflavík, Ytri Njarðvík og Innri Njarðvík. Ef efni var til staðar var kannaður styrkur þess og hann borinn saman við skilgreind hættumörk. Af þeim 28 efnum sem leitað var að telst aðeins eitt til staðfestra krabbameinsvalda (Group 1), Trichloroethene sem eykur áhættu á nýrnakrabbameini.

Mikið magn TCE var í vökva sem notaður var til þvotta á herflugvélum varnarliðsins á flugvellinum. Rann þetta niður í grunnvatnið og því var kannað í skýrslunni frá 1988 hvort eitthvað hefði borist í vatnsból Keflavíkur og Njarðvíka.

Aðferðir - seinni hluti – reykingar, ofþyngd/offita og áfengisneysla

Á heimasíðu embættis landlæknis sést að a.m.k. frá og með árinu 2007 hefur hlutfall þeirra sem reykja daglega á Suðurnesjum verið með því hæsta sem gerist á landinu. Svo var einnig á áhættutímabili því sem notað var í núverandi rannsókn fyrir reykingar (árin 1991-2000), sbr. Töflu 1. Reykingar eru vel staðfestur krabbameinsvaldur (Group 1) sem eykur áhættu á krabbameinum í lungum, vörum og munni, vélinda, maga, lifur, brisi, barka, lungum, nýrum, þvagblöðru, ristli- og endaþarmi, leghálsi, eggjastokkum og hvítblæði.

Tafla 1

Tafla-1

Einnig voru ofþyngd og offita algengari í Reykjanesbæ á áhættutímabilinu (árið 2007), sjá Töflu 2 miðað við aðra staði á landinu, en ofþyngd og offita eru vel staðfestir krabbameinsvaldar (Group 1) sem tengist krabbameinum í brjóstum, ristli, endaþarmi, brisi, legbol, nýrum, eggjastokkum, lifur, skjaldkirtli, gallblöðru, vélinda og maga, auk mergfrumuæxla.

Tafla 2

Tafla-2

Áfengisneysla var aftur á móti ekki algengari í Reykjanesbæ en annars staðar (Tafla 3). Hún er engu að síður tekin með í útreikningum þar sem hún er vel staðfestur krabbameinsvaldur (Group 1) og tengist krabbameinum í brjóstum, ristli og endaþarmi, vör og munni, lifur, barka og vélinda.

Tafla 3

Tafla-3

Niðurstöður

Niðurstöður - fyrri hluti - TCE mengun í vatnsbólum

Engin mengun reyndist vera í vatnsbólum á Suðurnesjum utan Keflavíkur og Njarðvíkur (núverandi Reykjanesbæjar) en eitt af sex vatnsbólum í Keflavík og Njarðvíkum hafði TCE styrk yfir viðmiðunarmörkum þegar mælt var árið 1988 (Mynd 2).

Mynd 2

Mynd-nr-2

Áætlað er að fjögur krabbameinstilvik sem greindust á tímabilinu 1955-2010 tengist TCA menguninni (Tafla 4).

Tafla 4

Tafla-4

Niðurstöður - seinni hluti – reykingar, ofþyngd/offita og áfengisneysla

Heildarfjöldi krabbameina sem greindust árin 2011-2020 í Reykjanesbæ og áætlað er að tengist reykingum er 140. Til viðbótar er áætlað að 11 krabbamein tengist áfengisneyslu og 47 ofþyngd/offitu, samtals 198 krabbamein. Samanlagt hlutfall krabbameinstilfella sem tengdist þessum krabbameinsvöldum á rannsóknartímabilinu var 6 prósentustigum hærra í Reykjanesbæ en annars staðar á landinu og er munurinn tölfræðilega marktækur (Tafla 5).

Tafla 4

4-tafla

Samanteknar niðurstöður um fjölda krabbameina

Áætlað er að 4 tilfelli nýrnakrabbameins sem greindust á 56 ára tímabili (1955-2010) í Reykjanesbæ tengist TCE mengun í drykkjarvatni, en staðfest samband er milli TCE mengunar og nýrnakrabbameins. Þessi fjögur tilvik yfir 56 ára tímabil samsvara 0,7 tilfellum á hverjum tíu árum að meðaltali. Ólíklegt er að fleiri slík tilfelli muni koma upp þar sem nýtt, ómengað vatnsból var tekið í gagnið fyrir íbúabyggð á Suðurnesjum árið 1991.

Áætlað er að allt að 198 tilfelli krabbameina sem greindust í Reykjanesbæ á tíu ára tímabilinu 2011-2020 tengist lifnaðarháttum. Þar af má rekja 140 tilfelli til daglegra reykinga, 11 tilfelli til áfengisneyslu og 47 tilfelli til offitu/ofþyngdar. Marktækt hærra hlutfall allra krabbameinstilfella tengdist þessum þáttum í Reykjanesbæ en annars staðar á landinu.

Reykingar og ofþyngd/offita voru algengari í Reykjanesbæ á rannsóknartímabilinu miðað við aðra staði á landinu, en aftur á móti var áfengisneysla síst meiri í Reykjanesbæ en annars staðar.

Lokaorð

Krabbameinsvaldandi áhrif umhverfismengunar voru mun minni í vatnsbólum Reykjanesbæjar en óttast var. Hins vegar er ljóst að margfalt fleiri krabbamein má rekja til lifnaðarhátta. Hægt er að fyrirbyggja mikinn fjölda krabbameina með heilsusamlegum lifnaðarháttum.

Þeirrar ánægjulegu staðreyndar ber að geta að mjög hefur dregið úr reykingum alls staðar á landinu síðustu 40-50 árin. Árið 2007 voru daglegar reykingar í heildina komnar niður í 18,3% samkvæmt heimasíðu embættis landlæknis og árið 2021 niður í 7,25%. Þessi þróun hefur komið í veg fyrir mikinn fjölda krabbameina og mun halda áfram að gera það næstu áratugi. Mikilvægt er að sofna ekki á verðinum og sjá til þess að áfram dragi úr reykingum.

Í gangi er óheillaþróun varðandi aukningu á ofþyngd/offitu, sem snúa þarf við. Sérstaklega er mikilvægt að koma í veg fyrir að börn og unglingar þyngist um of, því mun erfiðara er að léttast en að fyrirbyggja það að fitna.

Áfengisneysla landsmanna er að aukast hjá sumum hópum.

Reykjanesbær hefur sýnt þessari rannsókn mikinn áhuga og mjög jákvætt er að þar er til staðar lýðheilsuráð og sérstakur verkefnastjóri lýðheilsumála sem eru tilbúin að taka á málum.

Krabbameinsfélagið hvetur öll stjórnvöld, bæði ríki og sveitarstjórnir, til að taka höndum saman og huga með beinum og virkum hætti að krabbameinsforvörnum. Til þess er mikilvægt að nýta betur lýðheilsuvísa embættis landlæknis sem birtir eru reglulega. Rannsóknin styður það sem aðrar rannsóknir sýna að í það minnsta fjögur af hverjum tíu krabbameinum tengjast lifnaðarháttum. Stjórnvöld bera mikla ábyrgð varðandi það að haga aðgerðum sínum í takt við stefnumótun um lýðheilsu og auðvelda einstaklingum og fjölskyldum ákvarðanir varðandi lifnaðarhætti sem eru til þess fallnir að draga úr krabbameinum. Það nýtist einnig gegn öðrum sjúkdómum.

Rannsóknir sýna að lýðheilsuaðgerðir sem koma frá stjórnvöldum og beinast að samfélaginu öllu eru einkar áhrifaríkar. Aðgerðir í reykingaforvörnum hér á landi staðfesta það. Aðgengi barna og ungmenna að hollu mataræði og nægri hreyfingu er lykilatriði, auk aðgerða sem draga úr líkum á ofneyslu sykurs, sætinda og sætra drykkja. Þetta má til dæmis gera með hjálp verðlagningar.

Mikilvægt er að rannsaka vel og skoða hvernig málum er háttað í dag og að allir aðilar vinni saman, ríki, sveitarfélög, félagasamtök og fleiri. Með öflugum lýðheilsuaðgerðum, tóbaks, áfengis og ofþyngdarforvörnum má fyrirbyggja mikinn fjölda af krabbameinum í samfélaginu.

  • Niðurstöðurnar voru kynntar á málþingi Krabbameinsfélagsins og Samtak um krabbameinsrannsóknir á Íslandi (SKÍ) sem haldið var í tilefni Alþjóðadags krabbameinsrannsókna miðvikudaginn 21. september kl. 17:30-20:00 í Veröld – húsi Vigdísar. 


Fleiri nýjar fréttir

24. apr. 2024 : Fundarboð: Aðal­fundur Krabba­meins­félagsins

Hér með er boðað til aðalfundar Krabbameinsfélagsins sem fer fram laugardaginn 25. maí kl. 13 í húsnæði félagsins að Skógarhlíð 8, Reykjavík.

Lesa meira

16. apr. 2024 : Krabba­meins­skráning á Íslandi í 70 ár - Afmælis­málþing

Í tilefni af 70 ára afmæli krabbameinsskráningar á Íslandi býður Krabbameinsfélagið til afmælismálþings.

Lesa meira

16. apr. 2024 : Með þínum stuðningi getum við gert svo ótal margt!

Krabbameinsfélagið þakkar öllum þeim fjölmörgu sem lögðu félaginu lið í Mottumars, árverkni- og fjáröflunarátaki félagsins, í ár. Við erum hrærð yfir þeirri velvild, samkennd og hlýju sem við fundum svo vel fyrir. Öll starfsemi félagsins er rekin fyrir sjálfsaflafé og því er stuðningur almennings og fyrirtækja forsenda fyrir starfinu.

Lesa meira

12. apr. 2024 : Saga Ómars Einarssonar

Ómar fékk krabbamein í háls, árið 2008, á sama tíma og Geir H. Haarde blessaði Ísland. Hann var geislaður í upphafi og síðar skorinn. Í framhaldinu var honum bent á að hitta Ragnar Davíðsson, formann félagsins Ný rödd, sem er eitt af aðildarfélögum Krabbameinsfélagsins. Ragnar hafi hjálpað sér og öðrum mikið.

Lesa meira

8. apr. 2024 : Frábær þátttaka í Skegg­keppni Mottu­mars 2024

Þátttakendur í Skeggkeppni Krabbameinsfélagsins þetta árið voru 360 talsins og alls söfnuðust rétt rúmlega 7,3 milljónir króna. Krabbameinsfélagið þakkar öllum þeim sem tóku þátt og öllum sem styrktu.

Lesa meira

Var efnið hjálplegt?