Sigriður Sólan Guðlaugsdóttir 25. sep. 2020

Rannsókn á bólusetningu gegn leghálskrabbameini bendir til langtímaverndar

Í norrænni rannsókn á áhrifum bóluefnisins Gardasil sem nýlega birtist í læknaritinu EClinicalMedicine mynduðust engar hágráðuforstigsbreytingar hjá þeim konum sem fengu bóluefnið. 

Krabbameinsskrá Krabbameinsfélagsins tók þátt í rannsókninni sem stóð yfir í 14 ár og náði til fjögurra norrænna ríkja. Árið 2011 hófst hér á landi almenn bólusetning hjá 12 ára stúlkum gegn leghálskrabbameini og forstigsbreytingum sem eru forstig krabbameinsins. Bóluefnið Cervarix hefur verið notað á Íslandi og hefur þátttakan verið yfir 90%. 

„Leghálskrabbamein orsakast af HPV-veirum. Í ofangreindri norrænni rannsókn var um að ræða bóluefni sem verkar gegn fjórum gerðum HPV-veira, þar á meðal þeim tveimur sem valda 70% allra leghálskrabbameina. Nú hefur verið þróað nýtt bóluefni sem nær til níu gerða HPV-veira og gefur því enn betri vernd gegn forstigsbreytingum í leghálsi og þar með leghálskrabbameini,“ segir Laufey Tryggvadóttir, framkvæmdastjóri Krabbameinsskrár og einn rannsakenda 

Langtímaáhrif bólusetningarinnar voru könnuð hjá ungum konum (16-23 ára) frá Danmörku, Íslandi, Noregi og Svíþjóð og var þeim fylgt eftir í 14 ár frá bólusetningu. Engin tilfelli forstigsbreytinga komu upp hjá þessum hópi meðan á rannsókninni stóð. Sýnt var fram á 100% virkni bóluefnisins í allt að 12-14 ár. 

„Niðurstöðurnar gefa mikilvægar upplýsingar um langtímavirkni bóluefnisins og sýna að ekki er þörf á endurbólusetningu í að minnsta kosti 14 ár eftir bólusetningu hjá ungum konum. Ánægjulegt er að sjá að engar vísbendingar voru um minnkandi ónæmi kvennanna á tímabilinu,“ segir Laufey að lokum.

Greinin birtist í Blaði Krabbameinsfélagsins veturinn 2020-2021.


Fleiri nýjar fréttir

30. jún. 2022 : Veglegur stuðningur Velunnara Krabba­meins­félagsins við starfið á lands­byggðinni

Velunnarasjóður hefur úthlutað rúmlega 26 milljónum til aðildarfélaga það sem af er árinu.

Lesa meira

28. jún. 2022 : 70 andlit fyrir 70 ár: Heildar­verkið lítur dagsins ljós!

Krabbameinsfélagið fagnaði 70 ára afmæli sínu með ýmsum hætti á afmælisárinu sem lauk formlega í gær, mánudaginn 27. júní.

Lesa meira

28. jún. 2022 : „Kær­leik­urinn, hlátur­inn og sam­hugur­inn stækkaði hjarta mitt”

Frásögn Guðnýjar Hansen sem tók þátt í verkefninu „Kastað til bata” í byrjun mánaðarins.

Lesa meira

21. jún. 2022 : Reykja­víkur­mara­þon 2022: „Ég hleyp af því ég get það”

Nú verður hlaupið til góðs á ný eftir nokkurt hlé - loksins! Hlaupið hefur fest sig í sessi sem einn stærsti fjölskylduviðburður í Reykjavík, þar sem allir geta fundið vegalengd við sitt hæfi.

Lesa meira

20. jún. 2022 : Sumarhappdrætti 2022: Fékkst þú vinning?

Dregið hefur verið í sumarhappdrætti Krabbameinsfélagsins. Vinningar eru að þessu sinni 268 talsins að verðmæti ríflega 53 milljónir króna.

Lesa meira

Var efnið hjálplegt?