Lára G. Sigurðardóttir læknir og fræðslustjóri KÍ 19. feb. 2016

Rafrettur–skaðlausar eða ekki?

Höfundar: Lára G. Sigurðardóttir læknir og fræðslustjóri Krabbameinsfélagsins og Hans Jakob Beck

Sígarettur voru taldar skaðlausar þegar þær dreifðust um heimsbyggðina í seinni heimstyrjöldinni. Nú sex og hálfum áratug síðar vitum við að tóbak dregur um helming neytenda þess til dauða.

Rafrettur markaðssettar sem skaðlaus vara

Söluaðilar halda margir hverjir því fram að rafrettur eigi eftir að leysa sígarettur af hólmi. Rafrettur hafa verið markaðssettar sem skaðlaus vara hér á landi og oftar en ekki settar í sælgætisbúning. Hægt er að velja á milli bragðefna eins og karamellu, súkkulaði eða annarra sætuefna sem höfða vel til barna. Ólöglegt er fyrir börn undir 18 ára aldri að kaupa rafrettur en samkvæmt nýlegum gögnum hefur fimmti hver nemandi í 10. bekk prófað rafrettu.

Þessar niðurstöður eru áhyggjuefni því lungu barna eru enn að taka út þroska og þar af leiðandi viðkvæmari fyrir efnum sem finnast í rafrettum. Einnig er veruleg ástæða til að hafa áhyggjur af útbreiðslu rafrettunnar því nýleg rannsókn frá Bandaríkjunum sýnir að táningar sem hafa notað rafrettur eru líklegri en aðrir til að verða reykingamenn.

Allt skaðminna en sígarettur

Samanborið við sígarettureykingar er nánast allt mun skaðminna en að halda áfram að reykja. Í þessu ljósi er rafrettan jákvæð fyrir afmarkaðan hóp fólks, sem ekki hefur tekist að hætta reykingum með öðrum aðferðum. Þar með er það upptalið. Hingað til hefur árangur af því að nota rafrettur eða aðra nikótíngjafa til að hætta sígarettureykingum verið nokkuð svipaður. Af þeim sem vilja hætta að reykja hefur 7,3% tekist að hætta með rafrettum, 5,8% með nikótínplástrum og 4,2% með lyfleysu. Óvissan um heilsufarsafleiðingar notkunar rafretta er mikil, en þó er vitað að þær eru alls ekki skaðlausar. Því er enn ráðlagt að nota frekar aðra nikótíngjafa en rafrettur.

Margar hættur sem fylgja rafrettum

Hættur sem fylgja rafrettum eru margar, ekki síst það að viðhalda nikótínneyslunni í samfélaginu. Háskalegt er að sjá að tóbaksframleiðendur eru mættir á svæðið. Þeir stýra stórum hluta rafrettuiðnaðarins og hafa hingað til látið sig lítið varða hagsmuni neytenda vegna afleiðinga tóbaksreykinga. Afar ólíklegt er að þeir muni vara okkur við hættum tengdum rafrettum.

Rafrettugufa er ertandi fyrir lungun og hefur neikvæð áhrif á öndunarstarfsemi. Efnið díasetýl er notað í bragðefni fyrir rafrettur og reyndar líka í matvælaframleiðslu. Það gefur tilefni til að hafa áhyggjur, því það getur valdið hættulegum bráðum lungnasjúkdómi hjá fólki þar sem það er notað í iðnaði (“popcorn lung” hjá starfsmönnum í örbylgjupoppsiðnaðinum) og því ástæða til að setja varnagla við það þegar fólk andar að sér þessu efni með rafrettueiminum.

Eitrunartilfellum meðal barna yngri en fimm ára hefur fjölgað verulega samhliða útbreiðslu rafrettunnar. Ófrískar konur ættu ekki að nota rafrettur því nikótín er skaðlegt fóstrinu og getur aukið hættu á ungbarnadauða.

Langtímaafleiðingar ekki þekktar

Mikilvægt er að hafa í huga að einungis um tíu ár eru liðin síðan rafrettur komu fyrst á markað í Kína og enn styttra síðan þær urðu fáanlegar í vestrænum löndum. Það er því allt of snemmt að segja til um mögulega skaðsemi þeirra því ætla má að það taki að minnsta kosti um 15-20 ár að koma í ljós hvort þær valdi alvarlegu heilsutjóni.

Vel má vera að rafrettur geti leyst sígarettur af hólmi fyrir vissa einstaklinga. Engu að síður þurfum við að vera vakandi fyrir mögulegum skaða af völdum þeirra. Matvæla- og lyfjaeftirlit Bandaríkjanna hefur rannsakað bragðefnin og komist að því að sum innihalda formaldehýð sem er þekkt krabbameinsvaldandi efni.

Hver á að gæta hagsmuna barna?

Alþjóðaheilbrigðisstofnunin áætlar að sala á rafrettum muni margfaldast á næstu árum. Við getum ekki ætlast til þess að börn séu upplýst um mögulega skaðsemi rafretta á sama tíma og við seljum bragðefni fyrir rafrettur innan um sælgæti. Við getum þó verið alveg viss um að framleiðendur munu ekki gæta hagsmuna okkar eða barna okkar. Það tók okkur meira en fimmtíu ár að viðurkenna skaðsemi sígarettureyks. Það mun taka að minnsta kosti næsta áratug áður en við verðum betur upplýst um heilsufarsafleiðingar rafretta.

Höfundar:
Lára G. Sigurðardóttir fræðslustjóri Krabbameinsfélagsins og Hans Jakob Beck

Greinin birtist á Visir.is 19. desember 2015

Heimildir


Fleiri nýjar fréttir

30. maí 2023 : Bylting - hálfur milljarður til krabbameinsrannsókna

Vísindasjóður Krabbameinsfélagsins hefur frá stofnun sjóðsins árið 2015 styrkt 41 krabbameinsrannsókn um samanlagt 384 miljónir króna. Næsta úthlutun úr sjóðnum verður í júní næstkomandi.

Lesa meira

30. maí 2023 : Krabbameinsskimanir – mikið fyrir lítið

Áratugir eru síðan skimanir fyrir legháls- og brjóstakrabbameini voru teknar upp á Íslandi. Þær hafa fyrir löngu sannað gildi sitt þó þær veiti aldrei fullkomna vörn. Konur hér á landi hafa með afgerandi hætti sýnt að þær kunna að meta aðgengi að þeim.

Lesa meira

30. maí 2023 : Á Ís­landi greinast um 1800 manns á hverju ári með krabba­mein

Þeir gætu verið færri. Þó að ekki sé hægt að koma í veg fyrir öll krabbamein sýna rannsóknir að áhættuþættir margra krabbameina tengjast lífsstíl. Með bættri lýðheilsu þjóðar er hægt að fækka verulega ákveðnum krabbameinum.

Lesa meira

28. maí 2023 : Lokað 30. maí í ráðgjafarþjónustu vegna vinnufundar ráðgjafarteymis

Lokaða verður hjá ráðgjafarþjónustu Krabbameinsfélagsins þriðjudaginn 30. maí vegna vinnufundar ráðgjafarteymis. Hægt er að senda fyrirspurnir og erindi á radgjof@krabb.is og er þeim svarað eins fljótt og hægt er.

Lesa meira

25. maí 2023 : Bjóðum Brakkasamtökin velkomin í hópinn

Á aðalfundi Krabbameinsfélagsins var staðfest ákvörðun stjórnar um aðild Brakkasamtakanna að Krabbameinsfélagi Íslands. Krabbameinsfélagið fagnar ákvörðun aðalfundarins og býður Brakkasamtökin velkomin í hópinn.

Lesa meira

Var efnið hjálplegt?