Sigriður Sólan Guðlaugsdóttir 25. sep. 2020

Ráðgjafi í fullu starfi á Austurlandi

Síðustu misseri hefur Krabbameinsfélagið unnið markvisst að því að auka stuðning og þjónustu við krabbameinsgreinda á landsbyggðinni.

Ráðgjafi á vegum félagsins er starfandi á Akureyri, boðið er upp á ráðgjöf aðra hverja viku á Selfossi og fyrirkomulagið er svipað á Suðurnesjum. Snemma árs 2020 tók svo Margrét Helga Ívarsdóttir, læknir, við starfi ráðgjafa á Austurlandi. 

„Viðtökurnar hafa verið vonum framar og það hefur verið afar ánægjulegt að gera ráðgjöf og stuðning aðgengilegan fyrir íbúa hér á Austurlandi. Við sem búum á landsbyggðinni vitum að aðgengi að þjónustu í minni bæjarfélögum getur verið skert. Oft er um langan veg að fara eftir sérhæfðri heilbrigðisþjónustu,“ segir Margrét. 

Þurfi fólk að sækja krabbameinsmeðferð til Reykjavíkur getur það fengið aðstöðu í einni af átta íbúðum Krabbameinsfélagsins á Rauðarárstíg eða á sjúkrahóteli Landspítala. Kostnaðurinn sem hlýst af dvöl í íbúðunum eða á sjúkrahótelinu er niðurgreiddur af krabbameinsfélögunum á landsbyggðinni. 

„Það er mjög mikilvægt að þeir sem greinast með krabbamein hafi jafnan aðgang að þjónustu hvar sem þeir búa á landinu. Mikill meirihluti fólks sem ég tala við fagnar þessari viðbótarþjónustu því þessar ferðir geta verið erfiðar, bæði fyrir sjúklinga og aðstandendur. Flestir vilja vera sem mest heima hjá sér,“ segir Margrét. 

Lyfjameðferðir eru í auknum mæli veittar á sjúkrahúsinu í Neskaupstað. Fjarheilbrigðisþjónusta hefur verið að sækja í sig veðrið og með tilkomu ráðgjafar og stuðnings á Austurlandi er verið að auka þjónustu með aðgengi að upplýsingum, ráðgjöf og stuðningi. 

„Þetta er mikið framfaraskref því þó að það sé mikilvægt að tryggja samfellu í meðferð krabbameinsgreindra og að þeir sæki sérhæfðari þjónustu þangað sem hún er í boði eykur það lífsgæði þessa hóps ef hægt er að efla þjónustu í heimabyggð. Þetta málefni er mér mjög kært og við höldum áfram að vinna að bættu aðgengi og þjónustu fyrir alla óháð búsetu - enda töluverð lífsgæði falin í því að búa á landsbyggðinni og því til mikils að vinna,“ segir Margrét að lokum.

Ljósmynd: Kormákur Máni Hafsteinsson

Greinin birtist í Blaði Krabbameinsfélagsins veturinn 2020-2021.


Fleiri nýjar fréttir

1. mar. 2024 : Við erum að kalla þig út, kall!

Við fögnum framförum í greiningu og meðferð en best er auðvitað ef hægt er að koma í veg fyrir krabbamein. Vísindin vísa okkur leiðina og rannsóknir sýna að 30 til 40% krabbameina tengjast lífsstíl. Það þýðir að ýmsar lífsvenjur, t.d. tóbaksnotkun, áfengisneysla, hreyfingarleysi, mataræði og fleiri þættir geta haft áhrif á líkurnar á ákveðnum tegundum krabbameina.

Lesa meira

29. feb. 2024 : Köllum kalla þessa lands út!

Mottumars, árlegt árvekni- og fjáröflunarátak tileinkað krabbameinum hjá körlum hefst í dag. Kallaútkall er yfirskrift átaksins í ár þar sem lögð er áhersla á forvarnargildi hreyfingar. Regluleg hreyfing dregur úr hættunni á krabbameinum, en allt of margir karlmenn hreyfa sig ekki nóg til að njóta þessara verndandi áhrifa. Það þarf ekki nema örfáar mínútur af hreyfingu á dag til að ná fram jákvæðum áhrifum.

Lesa meira

28. feb. 2024 : Upp með sokkana og í Mottumarshlaupið 2024

Komdu með í fyrsta Mottumarshlaup Krabbameinsfélagsins sem haldið verður á hlaupársdeginum 29. febrúar. Við lofum stuði og stemmningu um leið og við hreyfum okkur til stuðnings góðum málstað!

Lesa meira

27. feb. 2024 : Sjöunda árið í röð fær forsetinn fyrsta parið

Forseta Íslands, hr. Guðna Th. Jóhannessyni hefur frá árinu 2018 verið afhent fyrsta parið af Mottumarssokkunum sem seldir eru til styrktar Krabbameinsfélaginu í Mottumars, árlegu árvekni- og fjáröflunarátaki sem tileinkað er krabbameinum hjá körlum. Forsetinn hefur sýnt verkefninu ómetanlegan stuðning í gegnum árin.

Lesa meira

27. feb. 2024 : Mottumarssokkarnir hannaðir af AS WE GROW

Það eru þær Gréta Hlöðversdóttir, Snæfríð Þorsteins og Kamilla Henriau sem eru hugmyndasmiðirnir og hönnuðirnir á bakvið sokkana sem eru einstaklega fallegir. 

Lesa meira

Var efnið hjálplegt?