Ása Sigríður Þórisdóttir 11. nóv. 2021

Pabbamein - Tíminn er dýrmætur. Ekki bíða til æviloka

Í tengslum við Feðradaginn, 14. nóvember er Krabbameinsfélagið með mikilvæg skilaboð til feðra: að fara inn á pabbamein.is og kynna sér helstu einkenni krabbameina og fara strax til læknis ef einkenna verður vart.

Tíminn er dýrmætur. Ekki bíða til æviloka

Skilaboðin eru afar þörf og brýn því nýjar niðurstöður úr Áttavitanum, rannsókn Krabbameinsfélagsins meðal fólks sem greindist með krabbamein á árunum 2015 - 2019 sýna að aðeins 35% karla samanborið við 60% kvenna leituðu til læknis innan mánaðar eftir að þeir fóru að finna fyrir einkennum eða óþægindum sem reyndust vera vegna krabbameins. Einn af hverjum sjö körlum (14%) beið lengur en í ár með að leita til læknis frá því þeir fóru að finna fyrir einkennum.

Því fyrr sem krabbamein uppgötvast, því meiri líkur eru á bata. Því er mjög mikilvægt að pabbar þekki einkennin og bregðist strax við þeim.

Pabbamein.is

Á pabbamein.is geta pabbar lesið sér til um einkenni krabbameina, tekið pabbameinsprófið og skráð sig í Karlaklúbb Krabbameinsfélagsins. Félagar í Karlaklúbbnum fá sérstök skilaboð um leiðir til að draga úr hættu á krabbameinum, um helstu einkenni og annað gott og gagnlegt.

Pabbamein.is er vefsvæði í Karlaklefa Krabbameinsfélagsins (karlaklefinn.is) þar sem fjallað er um heilsu, forvarnir, veikindi og reynslu karla tengda krabbameinum.

Þriðji hver karl greinist með krabbamein á ævinni

Árlega greinast 860 karlar með krabbamein og 320 karlar látast af völdum krabbameina (meðaltal). Krabbameinum hjá körlum fjölgar verulega upp úr fimmtugu. Á næstu 15 árum er spáð 28% fjölgun krabbameinstilvika á Íslandi, fyrst og fremst vegna hækkandi aldurs þjóðarinnar.

Pabbamein-Hus-verslunarinnar


Eitt merki fyrir hvern karl sem deyr úr krabbameini árlega

Risa bindi, 27 metrar, hefur verið sett á Hús verslunarinnar með 320 merkjum Krabbameinsfélagsins. 



Pabbar, er eitthvað öðruvísi en venjulega?

Hér eru möguleg einkenni sem pabbar ættu ekki að láta fram hjá sér fara. Hafðu samt í huga að í mjög mörgum tilvikum eiga einkennin sér aðrar skýringar en krabbamein. Það er öruggast að vera viss.

  • Óvenjuleg blæðing, til dæmis frá endaþarmi, blóð í hægðum, þvagi eða hráka
  • Þykkildi eða hnútar, til dæmis í pung, nára, handarkrika eða á tungu
  • Óútskýrt þyngdartap
  • Þrálátur hósti eða hæsi
  • Langvarandi kyngingarerfiðleikar
  • Sár sem ekki gróa, til dæmis í munni eða á kynfærum
  • Breytingar á hægðum eða þvaglátum, til dæmis langvarandi niðurgangur eða hægðatregða, blóð í hægðum, erfiðleikar við að pissa
  • Nýir fæðingarblettir eða breytingar á blettum, til dæmis stærð, lögun eða litur
  • Langvarandi óþægindi frá meltingarvegi, til dæmis magaverkir eða uppþemba
  • Þreyta sem ekki minnkar við hvíld
  • Viðvarandi verkir án þess að orsök sé ljós

Nánari upplýsingar má finna á pabbamein.is


Fleiri nýjar fréttir

16. apr. 2024 : Krabba­meins­skráning á Íslandi í 70 ár - Afmælis­málþing

Í tilefni af 70 ára afmæli krabbameinsskráningar á Íslandi býður Krabbameinsfélagið til afmælismálþings.

Lesa meira

16. apr. 2024 : Með þínum stuðningi getum við gert svo ótal margt!

Krabbameinsfélagið þakkar öllum þeim fjölmörgu sem lögðu félaginu lið í Mottumars, árverkni- og fjáröflunarátaki félagsins, í ár. Við erum hrærð yfir þeirri velvild, samkennd og hlýju sem við fundum svo vel fyrir. Öll starfsemi félagsins er rekin fyrir sjálfsaflafé og því er stuðningur almennings og fyrirtækja forsenda fyrir starfinu.

Lesa meira

12. apr. 2024 : Saga Ómars Einarssonar

Ómar fékk krabbamein í háls, árið 2008, á sama tíma og Geir H. Haarde blessaði Ísland. Hann var geislaður í upphafi og síðar skorinn. Í framhaldinu var honum bent á að hitta Ragnar Davíðsson, formann félagsins Ný rödd, sem er eitt af aðildarfélögum Krabbameinsfélagsins. Ragnar hafi hjálpað sér og öðrum mikið.

Lesa meira

8. apr. 2024 : Frábær þátttaka í Skegg­keppni Mottu­mars 2024

Þátttakendur í Skeggkeppni Krabbameinsfélagsins þetta árið voru 360 talsins og alls söfnuðust rétt rúmlega 7,3 milljónir króna. Krabbameinsfélagið þakkar öllum þeim sem tóku þátt og öllum sem styrktu.

Lesa meira

25. mar. 2024 : Saga Sigurgeirs Líndal Ingólfssonar

Sigurgeir segir að fræðslan og kynningin í kringum Mottumars sé þýðingarmikil og hafi ýtt við honum þegar einkenni gerðu vart við sig og gert það að verkum að hann fór til læknis. Einkennin voru ekki ólík þvagfærasýkingu en það var einmitt svarið sem hann fékk fyrst þegar hann leitaði sér hjálpar.

Lesa meira

Var efnið hjálplegt?