Sigriður Sólan Guðlaugsdóttir 25. okt. 2019

Ósk eftir samstarfi við stjórnvöld um endurhæfingu

Samstarfshópur sérfræðinga og hagsmunaaðila, hefur unnið aðgerðaráætlun um endurhæfingu fyrir þá sem greinast með krabbamein. Krabbameinsfélagið á fulltrúa í hópnum og vonar að aðgerðaráætlunin styðji við vinnu heilbrigðisráðuneytisins við endurhæfingarhluta nýrrar Krabbameinsáætlunar.

Bæta þarf möguleika á viðeigandi alhliða endurhæfingu fyrir fólk sem greinist með krabbamein og viðurkenna opinberlega rétt þeirra til endurhæfingar. Þetta er niðurstaða samstarfshóps sérfræðinga og hagsmunaaðila um mikilvægi endurhæfingar fyrir krabbameinsgreinda sem segir að auka þurfi þjónustu og samræma verklag, enda sýni rannsóknir að viðeigandi endurhæfing hjálpi einstaklingum að takast betur á við daglegt líf, stunda atvinnu og búa við betri lífsgæði. Óskað er eftir samstarfi við stjórnvöld og gefin hefur verið út aðgerðaráætlun.

Í samstarfshópnum eru fulltrúar endurhæfingarteymis fyrir krabbameinsgreinda á Landspítala, Heilsustofnunar NLFÍ, Krabbameinsfélags Íslands, Krafts, Ljóssins og Reykjalundar. Hópurinn stóð meðal annars að málþingi í maí 2018 þar sem skorað var á stjórnvöld að leggja fram stefnumótun og fjármagnaða aðgerðaráætlun um endurhæfingu þeirra sem greinast með krabbamein hér á landi.

Spá 30% aukningu á krabbameinstilfellum

Árlega greinast um 1600 manns með krabbamein á Íslandi. Í árslok 2017 voru 14.744 einstaklingar á lífi sem greinst höfðu með krabbamein. Spáð er um 30% aukningu nýgreininga á næstu 15 árum, fyrst og fremst vegna hækkandi meðalaldurs og fjölgun íbúa. Einstaklingum sem greinast, læknast og lifa með krabbamein sem langvinnan sjúkdóm mun því fjölga. Margvíslegir snemm- og síðbúnir fylgikvillar fylgja krabbameinum og krabbameinsmeðferðum, bæði líkamlegir, sálrænir, félagslegir og tilvistarlegir.

„Aukin þörf fyrir endurhæfingu hópsins blasir því við. Það er bráðnauðsynlegt að koma á markvissri endurhæfingu enda er mikill samfélagslegur ávinningur af því að hjálpa fólki að endurheimta virkni, heilsu og lífsgæði eftir að hafa verið kippt út úr daglegri rútínu við krabbameinsmeðferð. Endurhæfing getur dregið úr alls kyns fylgikvillum og hjálpað einstaklingum með krabbamein og þeirra nánusstu að takast betur á við daglegt líf. Þetta er þjóðþrifamál sem þarf að ganga í sem allra fyrst,“ segir Rannveig Björk Gylfadóttir, teymisstjóri endurhæfingarteymis fyrir krabbameinsgreinda á Landspítala.

Aðgerðaáætlun

Samstarfshópurinn stóð að vinnustofu síðasstliðið vor um endurhæfingu fyrir þá sem greinast með krabbamein. Fulltrúar sjúklingasamtaka og fagaðilar um allt land unnu að málinu af krafti og lögðu grunn að aðgerðaáætluninni sem nú er lögð fram. Í henni er lögð áhersla á að styrkja endurhæfingarteymi Landspítala, kortleggja endurhæfingarþörf og úrræði í boði, skilgreina og hanna samræmt og samfellt endurhæfingarferli allt frá greiningu krabbameins, nýta nýjustu tækni til að miðla rafrænt upplýsingum um endurhæfingu og liðka fyrir endurkomu á vinnumarkað.

Miklar vonir bundnar við krabbameinsáætlun

Heilbrigðisráðherra tilkynnti um samþykkt krabbameinsáætlunar í lok janúar 2019. Þar er meðal annars fjallað um endurhæfingu krabbameinsgreindra. Lítið hefur enn frést af vinnu við áætlunina. Ráðherra hefur opinberlega lýst yfir vilja til að efla endurhæfingu og forvarnir á Íslandi og tilkynnti í haust að heilbrigðisráðuneytinu hafi verið falin stefnumótun um það sem muni liggja fyrir í ársbyrjun 2020.

„Við fögnum þessu og vonumst til að aðgerðaáætlunin okkar styðji við vinnu ráðuneytisins, enda er nauðsynlegt að samfélagið eigi heildstæða áætlun um endurhæfingu þeirra sem greinast með krabbamein,“ segir Halla Þorvaldsdóttir, framkvæmdastjóri Krabbameinsfélagsins.


Fleiri nýjar fréttir

1. des. 2023 : Minningarorð um Jón Þorgeir Hallgrímsson

Jón Þorgeir Hallgrímsson, læknir, fyrrverandi formaður Krabbameinsfélags Íslands og Krabbameinsfélags Reykjavíkur lést þann 21. nóvember sl., 92 ára að aldri. Jóns Þorgeirs er minnst hjá Krabbameinsfélaginu með mikilli virðingu og þakklæti. Aðstandendum vottar félagið innilega samúð. 

Lesa meira

28. nóv. 2023 : Taktu þátt í skemmtilegum jólaleik

Litríkt, jólalegt og hollt á borðið þitt. Krabbameinsfélagið í samstarfi við Banana og Hagkaup óska eftir jólalegum útfærslum á framsetningu á grænmeti, ávöxtum og berjum til að nýta á jólaborðið eða veislubakkann. Veglegir vinningar í boði.

Lesa meira
Ljósmynd: Thule Photos

28. nóv. 2023 : Dýrmætt að vita að maður stendur ekki einn í þessu

Flestir sem hafa upplifað það að missa einhvern náinn sér eru líklega sammála um að sorgin er erfið og þungbær. Sorg barna er sérstaklega vandmeðfarin og það getur skipt máli fyrir úrvinnslu þeirra að fá réttan stuðning frá nærsamfélaginu. Hannes missti eiginkonu sína úr krabbameini árið 2022, en þau áttu tvær dætur saman. Hann segir hér frá sorgarúrvinnslunni og helstu úrræðum sem þau feðgin hafa nýtt sér, en þar á meðal er stuðningur Krabbameinsfélagsins við börn sem missa foreldri.

Lesa meira

28. nóv. 2023 : „Mig langaði til að taka þessa byrði og bera hana sjálf“

Rakel Ósk Þórhallsdóttir, eigandi vefverslunarinnar Central Iceland, hefur undanfarin þrjú ár stutt dyggilega við Bleiku slaufuna, en í heildina telur framlag hennar 7.385.000 kr. Rakel segir hér frá drifkraftinum á bak við verkefnið, en hún hefur persónulega tengingu við málstaðinn.

Lesa meira

23. nóv. 2023 : Fulltrúar Krabbameinsfélagsins á faraldsfæti

Um þessar mundir stendur Krabbameinsfélagið fyrir átaksverkefni sem miðar að því að fjölga í þeim góða hópi Velunnara sem styðja þétt við bakið á félaginu með mánaðarlegum framlögum. Í nóvember heimsækjum við Selfoss.

Lesa meira

Var efnið hjálplegt?