Björn Teitsson 1. júl. 2021

Orðinn sérfræðingur í að matreiða íslenskan fisk

  • Ravi-1

Ravi Dhawan hefur dvalið í Reykjavík í mánuð og stundað starfsnám hjá Rannsókna- og skráningarsetri Krabbameinsfélagsins. Hann er hæstánægður með reynsluna og ætlar að snúa aftur til Íslands með foreldrum sínum.

„Ég held ég hafi aldrei nokkurn tímann lært jafn mikið á einum mánuði á mínum námsferli,“ segir Ravi Dhawan, bandarískur starfsnemi við Rannsókna – og skráningarsetur Krabbameinsfélagsins. Ravi er 21 árs og hefur nýlokið við BS-gráðu frá Cornell-háskóla í New York-ríki og hefur verið á Íslandi undanfarinn mánuð við nám og störf. Hann heldur síðan til Massachussetts þar sem hann hefur meistaranám við Harvard T.H. Chan School of Public Health, lýðheilsusvið hins heimfræga Harvard-háskóla. Ravi hefur verið afar ánægður með dvölina á Íslandi en hann heldur heim á leið þann 4. júlí – á þjóðhátíðardegi Bandaríkjanna. „Þessi mánuður hefur verið fljótur að líða og ég hef náð að skoða mig um, bæði í borginni eftir að vinnu lýkur á virkum dögum en svo hef ég einnig náð að fara í lengri ferðir um helgar. Ég hef farið á Snæfellsnes, farið langt meðfram Suðurströndinni og meira að segja til Vestmannaeyja.“ En hefur Ravi ekki farið að sjá gosið í Geldingardölum? „Jú, vissulega. Ég fór reyndar á 17 júní!“

Þetta er í fyrsta skiptið sem Ravi kemur til Íslands. Hann hafði lengi langað til að koma og það sama á við um foreldra Ravis sem búa í New York-ríki Bandaríkjanna. „Við höfðum tekið eftir mikilli og aukinni umfjöllun um landið síðasta áratug þar sem ferðamannaiðnaðurinn á Íslandi hefur greinilega verið í talsverðum vexti. Við fjölskyldan ferðumst mikið saman og höfum heimsótt fjölmarga staði um allan heim. Hugurinn stefndi til Íslands en auðvitað hafði faraldurinn eitthvað um það að segja, að við komumst ekki öll í þetta skiptið. En hve vel tókst hér á landi í baráttunni við Covid greiddi auðvitað mína götu – og nú hef ég séð margt og mikið og get tekið að mér að vera leiðsögumaður fyrir foreldra mína þegar við ferðumst hingað saman innan tíðar,“ segir Ravi og brosir.

Ravi-2Ravi kynnir verkefni sitt á hádegisfundi. (Mynd: Guðmundur Pálsson). 

Að sögn Ravi hefur starfsnámið hjá Rannsókna – og skráningarsetri gengið vonum framar, hann hafi líklega aldrei lært jafn mikið á einum mánuði á sínum námsferli. Hann segir afar ljúfar viðtökur starfsfólksins í Skógarhlíð hafa skipt sköpum. „Ég er viss um að rannsóknarvinnan hér hafi gengið jafn vel og raun ber vitni, því hér hefur fólk tekið mér opnum örmum. Ég hef tekið þátt í rannsóknarstarfi áður og oft vill það verða þannig að einhver núningur myndast þegar nýr aðili kemur inn – einhverjum kann að finnast vera stigið á sínar tær og þar fram eftir götunum. Ekki hér, í Krabbameinsfélaginu hefur mér verið tekið svakalega vel, ég á varla orð og er mjög þakklátur.“ En hafði Ravi heyrt um Krabbameinsfélagið á Íslandi? Hvernig datt honum í hug að koma hingað? „Það má segja að það hafi verið tilviljun, og þó ekki. Ég var svo til nýbyrjaður að spá í faraldsfræði og þegar þú dýfir tá í þau fræði kemur fljótlega í ljós að Norðurlöndin eru paradís faraldsfræðinnar ef svo má að orði komast. Hvergi annars staðar eru til jafn nákvæmar upplýsingar um sjúklinga og sjúkdóma sem helgast af vönduðum heilbrigðisskrám, þar á meðal krabbameinsskrám. Svo gerist það að ég er að lesa fræðigrein og þá er Laufey [Tryggvadóttir, framkvæmdastjóri Rannsóknasetursins] auðvitað höfundur þeirrar greinar. Þar fæ ég fyrst tölvupóstfangið hennar og hef samband. Þannig það var einhver tilviljun sem réði því að ég kom hingað en kannski var mér að einhverju leyti stýrt hingað líka.

Nú er komið að lokum dvalarinnar og rétt að spyrja hvað er svo eftirminnilegast við Ísland? „Það eru auðvitað þessir löngu dagar. Sólin sest aldrei og það er alltaf bjart. Ég hef gert mikið af því að labba hérna í bænum, íbúðin mín er hérna í 3 kílómetra fjarlægð og gott að ganga frá henni um allan bæ. Ég hef líka gert mikið af því að elda og er þar spenntastur fyrir þessu frábæra fiskmeti sem er í boði, úrvalið og gæðin eru ótrúleg. Ég hef gert mikið af því að fara í fiskbúðir og prófa mig áfram í eldamennskunni með íslenskan fisk. Ég myndi segja að ég sé að verða fær í flestan sjó í þeim efnum. Ég ætla pottþétt að elda fisk handa foreldrum mínum þegar ég kem heim, svo mikið er víst.“


Fleiri nýjar fréttir

Sol-og-solarvarnir-frettabref-1-

17. maí 2024 : Fréttabréf maí mánaðar

Sólin er umræðuefni fréttabréfs maí mánaðar. Við tökum fyrir sólarvarnir og hve miklu máli þær skipta fyrir alla, þó sérstaklega börnin. Þá ræðum við húðkrabbamein sem og ráð fyrir þau sem eru með krabbamein í sumarfríinu.

Lesa meira

16. maí 2024 : Styrkir til gæða­verkefna og vísinda­rannsókna í heil­brigðis­þjónustu

Auglýst er eftir umsóknum um styrki í Minningarsjóð um hjónin Bergþóru Magnúsdóttur og Jakob Júlíus Bjarnason.

Lesa meira

8. maí 2024 : Málþing: Stöðluð greiningar- og meðferðarferli, allt frá því að grunur vaknar um krabbamein

Myndi innleiðing slíkra ferla hér á landi hjálpa til við að takast á við þær áskoranir sem fylgja krabbameinum í framtíðinni? 

Lesa meira

7. maí 2024 : „Kíkjugataaðgerð“ við lungnakrabbameini styttir legutíma um helming

Vísindasjóður Krabbameinsfélags Íslands styrkti rannsóknina. Árangur blaðnámsaðgerða með aðstoð brjóstholssjár við lungnakrabbameini. Niðurstöðurnar sýna að á ekki stærra sjúkrahúsi en Landspítala er hægt er að taka upp tæknilega flókna skurðaðgerð án þess að slegið sé af kröfum um öryggi. Þannig lifðu allir sjúklingarnir aðgerðina af en færri fylgikvillar og minni verkir styttu legutíma um helming. 

Lesa meira

24. apr. 2024 : Fundarboð: Aðal­fundur Krabba­meins­félagsins

Hér með er boðað til aðalfundar Krabbameinsfélagsins sem fer fram laugardaginn 25. maí kl. 13 í húsnæði félagsins að Skógarhlíð 8, Reykjavík.

Lesa meira

Var efnið hjálplegt?