Sigriður Sólan Guðlaugsdóttir 24. ágú. 2018

Öll áfengisneysla skaðleg heilsu

Ný viðamikil alþjóðleg rannsókn sem birtist í læknaritinu Lancet sýnir að hver einasti áfengissopi er skaðlegur heilsunni. Þriðjungur mannkyns neytir áfengis og árið 2016 voru 2,8 milljónir dauðsfalla raktar til áfengisneyslu. Í rannsókninni er lagt til að fólk drekki ekki áfengi.

Rannsóknin Global Burden of Disease byggir á upplýsingum um 30 milljónum einstaklinga á aldrinum 15-95 í 195 löndum á 26 ára tímabili. Bornir voru saman einstaklingar sem drekka ekki og þeir sem drekka einn drykk á dag.

Auk þess að auka líkur á örorku og ótímabærum dauðsföllum hjá 15-49 ára einstaklingum umtalsvert, er skýr fylgni á milli drykkju og sjúkdóma á borð við krabbamein og hjarta- og æðasjúkdóma. Rannsakendur viðurkenna þó að hófleg drykkja geti unnið gegn hjartasjúkdómum, en hún auki á sama tíma hættuna á krabbameinum og öðrum sjúkdómum.

Konur yfir fimmtugu eiga frekar á hættu að fá krabbamein vegna neyslu áfengis. Tengja má áfengisneyslu á heimsvísu við 27% dauðsfalla vegna krabbameina hjá konum og tæp 19% hjá körlum yfir fimmtugu.

„Niðurstöður þessarar rannsóknar eru í takti við rannsókn sem við birtum í mars ásamt öðrum norrænum krabbameinsskrám, þar sem við áætlum að 83.000 krabbameinstilvik á næstu 30 árum megi rekja til áfengisneyslu á Norðurlöndunum. Það eru 5,5% allra áfengistengdra krabbameina,“ segir Laufey Tryggvadóttir, framkvæmdastjóri Krabbameinsskrár; „Stærstur hluti þessara meina eru brjóstakrabbamein hjá konum eftir tíðahvörf, yfir 28.000 krabbamein, og í næsta sæti eru ristil- og endaþarmskrabbamein eða um 23.000 tilvik.“

„Þessi rannsókn sýnir hversu mikilvægt það er að stjórnvöld forgangsraði í þágu lýðheilsu og taki mið af rannsóknum í allri stefnumótun,” segir Halla Þorvaldsdóttir, framkvæmdastjóri Krabbameinsfélags Íslands.

Rannsóknina má sjá hér .

 


Fleiri nýjar fréttir

12. apr. 2024 : Saga Ómars Einarssonar

Ómar fékk krabbamein í háls, árið 2008, á sama tíma og Geir H. Haarde blessaði Ísland. Hann var geislaður í upphafi og síðar skorinn. Í framhaldinu var honum bent á að hitta Ragnar Davíðsson, formann félagsins Ný rödd, sem er eitt af aðildarfélögum Krabbameinsfélagsins. Ragnar hafi hjálpað sér og öðrum mikið.

Lesa meira

8. apr. 2024 : Frábær þátttaka í Skegg­keppni Mottu­mars 2024

Þátttakendur í Skeggkeppni Krabbameinsfélagsins þetta árið voru 360 talsins og alls söfnuðust rétt rúmlega 7,3 milljónir króna. Krabbameinsfélagið þakkar öllum þeim sem tóku þátt og öllum sem styrktu.

Lesa meira

25. mar. 2024 : Saga Sigurgeirs Líndal Ingólfssonar

Sigurgeir segir að fræðslan og kynningin í kringum Mottumars sé þýðingarmikil og hafi ýtt við honum þegar einkenni gerðu vart við sig og gert það að verkum að hann fór til læknis. Einkennin voru ekki ólík þvagfærasýkingu en það var einmitt svarið sem hann fékk fyrst þegar hann leitaði sér hjálpar.

Lesa meira

25. mar. 2024 : Saga Egils Þórs Jónssonar

Egill Þór telur að hann væri ekki á lífi ef hann hefði þagað í gegnum sína meðferð og hvetur alla til að sækja sér alla þá hjálp sem í boði er, nýta sér stuðningsfélögin sem eru að styðja við þá sem greinast. Jafningjastuðningur hafi verið honum afar mikilvægur, að finna fyrir sterkri tengingu við einhvern sem búinn var að ganga í gegnum það sama og hann var að ganga í gegnum í fyrsta sinn, hafi verið ómetanlegt.

Lesa meira

22. mar. 2024 : Gleðilegan Mottudag

Mottumars nær hámarki í dag, föstudaginn 22. mars, þegar Mottudagurinn er haldinn hátíðlegur. Krabbameinsfélagið hvetur alla landsmenn, konur og karla, til að gera sér glaðan dag með fjölskyldunni, vinum og vinnufélögum og vekja þannig athygli á baráttunni gegn krabbameinum hjá körlum. 

Lesa meira

Var efnið hjálplegt?