Ása Sigríður Þórisdóttir 4. feb. 2022

Alþjóðlegi krabba­meins­dagurinn er í dag

Markmiðið í ár er að hvetja til þess að hugað sé að ójöfnuði í tengslum við krabbamein og unnið gegn honum, alls staðar. Ójöfnuður í tengslum við krabbamein hefur verið rannsakaður og kortlagður í meira mæli á hinum Norðurlöndunum en hér á landi. Þó er vitað að ójöfnuður er til staðar hér á landi og fátt sem bendir til að hann sé minni en í nágrannalöndunum.

Ójöfnuður í tengslum við krabbamein er gríðarlegur á heimsvísu. Milljarðar manna hafa ekki aðgang að sjálfsagðri heilbrigðisþjónustu, skimun og bólusetningum sem draga úr líkum á krabbameinum eða krabbameinsmeðferð. Í dag, á alþjóðlega krabbameinsdagsins er sjónum beint að ójöfnuði og hvatt til þess að vinna gegn honum, alls staðar.

Ójöfnuður í tengslum við krabbamein hefur verið rannsakaður og kortlagður í meira mæli á hinum Norðurlöndunum en hér á landi. Þó er vitað að ójöfnuður er til staðar hér á landi og fátt sem bendir til að hann sé minni en í nágrannalöndunum.

Í samstarfssáttmála ríkisstjórnarinnar, Heilbrigðisstefnu og lögum er fjallað um mikilvægi jöfnuðar í heilbrigðiskerfinu, oftast út frá kostnaði sjúklinga. Málið er flóknara. Í skýrslu embættis landlæknis frá því í júní síðastliðnum, Ójöfnuður í heilsu á Íslandi, kemur fram að tengsl séu á milli minni menntunar og verri fjárhagsstöðu og lakari heilsu og lifnaðarhátta. Heilsa ræðst af mörgum þáttum: einstaklingsbundnum, félagslegum, fjárhagslegum, menntun, uppruna og fleiru.  

Vísbendingar eru um að ójöfnuður sé að aukast hér á landi. Sem dæmi má nefna að þrátt fyrir að meðalævi sé að lengjast voru lífslíkur 30 ára karlmanna með grunnskólapróf fimm árum styttri en félaga þeirra með háskólapróf árið 2019.

Erlendar rannsóknir hafa sýnt að á milli 28–45% krabbameinstilfella tengjast áhættuþáttum sem hægt væri að koma í veg fyrir. Tóbak er stærsti áhættuþátturinn en aðrir þættir tengdir lifnaðarháttum svo sem áfengisneysla, sólargeislun, hreyfingarleysi, ofþyngd og fleira skipta líka máli. Áður er nefnt hvernig lifnaðarhættir tengjast meðal annars menntun og fjárhagsstöðu.

Ójöfnuður birtist með margvíslegum hætti í tengslum við krabbamein, allt frá því að líkur á að fá krabbamein eru meiri meðal ákveðinna hópa yfir í þætti sem snúa að greiningu og meðferð. 

Svo örfá dæmi séu nefnd fylgja nýjar áskoranir fjölbreyttara samfélagi. Staða fólks af erlendum uppruna getur verið viðkvæm af ýmsum ástæðum, til dæmis vegna tungumálaörðugleika, minna tengslanets og þekkingar á samfélaginu og kerfinu. Upplýsingar komast þá til dæmis síður til skila um þá þjónustu sem býðst. Mikilvægt er fyrir þennan hóp að samfella í þjónustu sé tryggð, að ferlar í heilbrigðisþjónustunni séu skýrir og fólki leiðbeint þannig að ekki þurfi að ,,þekkja mann“ til að fá viðeigandi þjónustu. Í nýrri rannsókn Krabbameinsfélagsins eru vísbendingar um minni þátttöku kvenna af erlendum uppruna í skimun en annarra kvenna.

Sumir þurfa að ferðast um langan veg til að fá viðeigandi krabbameinsmeðferð. Takmarkanir á endurgreiðslu ferðakostnaðar fylgdarmanna fólks með illkynja sjúkdóma gerir að verkum að erfitt getur verið fyrir fólk sem þarf að nýta flug að hafa náinn aðstandanda með sér, þrátt fyrir að mikilvægt hlutverk aðstandenda í meðferð sé óumdeilt. Þá er bara nefndur einn þáttur ójöfnuðar sem tengist búsetu.

Ítrekaður dráttur á því að hafin sé skipulögð skimun fyrir krabbameini í ristli og endaþarmi veldur því að meiri hætta er á að slík mein þróist hjá hópum í samfélaginu sem ekki hafa sjálfir frumkvæði að fyrirbyggjandi ristilspeglunum. 

Í nýrri rannsókn Krabbameinsfélagsins kom í ljós að karlar leituðu mun síðar en konur til læknis vegna einkenna sem síðar mátti rekja til krabbameins. Í sömu rannsókn kom í ljós að körlum var í mun minna mæli en konum ráðlagt að hafa einhvern með sér í viðtöl til heilbrigðisstarfsfólks. 

Ójöfnuður í tengslum við krabbamein hefur lengi verið áhyggjuefni hjá Krabbameinsfélaginu. Til að vinna gegn honum hefur félagið gripið til ýmissa aðgerða. Þar má nefna tilraunaverkefni um gjaldfrjálsa skimun sem sýndi mjög afgerandi að kostnaður við skimun er hindrun fyrir þátttöku. Hjá félaginu býðst sjúklingum og aðstandendum ókeypis ráðgjöf hjúkrunarfræðinga, félagsráðgjafa og sálfræðinga. Til að ná til sem flestra býðst ráðgjöfin reglulega á fjórum stöðum á landsbyggðinni, til viðbótar við Reykjavík auk þess sem einn ráðgjafi er pólskumælandi. Ráðgjöf er einnig í boði í síma og í gegnum tölvu. Sjálfboðaliðar félagsins bjóða upp á akstur í meðferð fyrir þá sem eiga erfitt með að komast á milli staða, á höfuðborgarsvæðinu. Sérstakur stuðningshópur fyrir konur af erlendum uppruna er starfandi og sífellt meira fræðsluefni félagsins er til á pólsku. Reykleysisnámskeið fyrir pólskumælandi fólk er í bígerð. Þá varpa rannsóknir félagsins í auknum mæli ljósi á ójöfnuð í tengslum við krabbamein.

Að auki eru aðildarfélög Krabbameinsfélagsins starfandi víðs vegar um landið og með starfsemi fyrir ákveðna hópa. Þátttaka í starfinu er fólki að kostnaðarlausu og mörg félaganna styðja við félagsmenn sína með endurgreiðslu kostnaðar, til dæmis vegna dvalar fjarri heimili.

Sóknarfærin til að draga úr ójöfnuði í tengslum við krabbamein eru mörg og mun víðar en í heilbrigðiskerfinu. Aðgerðir stjórnvalda skipta þar miklu og má nefna árangursríkar aðgerðir í tóbaksvörnum.

Til að viðhalda þeim góða árangri sem hefur náðst varðandi krabbamein hér á landi og bæta hann enn frekar er nauðsynlegt að opna augun fyrir ójöfnuði, viðurkenna hann og vinna gegn honum hvar sem hann er að finna. Markmiðið verður að vera að hvergi halli á ákveðna hópa, hvort sem það snýr að lifnaðarháttum sem draga úr líkum á að fá krabbamein eða greiningu og meðferð

Krabbameinsáætlun er lykiltæki til að vinna gegn ójöfnuði í tengslum við krabbamein. Heilbrigðisráðherra samþykkti áætlunina árið 2019 en henni hefur enn ekki verið hrint í framkvæmd með skýrum hætti. Nú er lag að taka áætlunina formlega í notkun. 

 


Fleiri nýjar fréttir

1. des. 2023 : Minningarorð um Jón Þorgeir Hallgrímsson

Jón Þorgeir Hallgrímsson, læknir, fyrrverandi formaður Krabbameinsfélags Íslands og Krabbameinsfélags Reykjavíkur lést þann 21. nóvember sl., 92 ára að aldri. Jóns Þorgeirs er minnst hjá Krabbameinsfélaginu með mikilli virðingu og þakklæti. Aðstandendum vottar félagið innilega samúð. 

Lesa meira

28. nóv. 2023 : Taktu þátt í skemmtilegum jólaleik

Litríkt, jólalegt og hollt á borðið þitt. Krabbameinsfélagið í samstarfi við Banana og Hagkaup óska eftir jólalegum útfærslum á framsetningu á grænmeti, ávöxtum og berjum til að nýta á jólaborðið eða veislubakkann. Veglegir vinningar í boði.

Lesa meira
Ljósmynd: Thule Photos

28. nóv. 2023 : Dýrmætt að vita að maður stendur ekki einn í þessu

Flestir sem hafa upplifað það að missa einhvern náinn sér eru líklega sammála um að sorgin er erfið og þungbær. Sorg barna er sérstaklega vandmeðfarin og það getur skipt máli fyrir úrvinnslu þeirra að fá réttan stuðning frá nærsamfélaginu. Hannes missti eiginkonu sína úr krabbameini árið 2022, en þau áttu tvær dætur saman. Hann segir hér frá sorgarúrvinnslunni og helstu úrræðum sem þau feðgin hafa nýtt sér, en þar á meðal er stuðningur Krabbameinsfélagsins við börn sem missa foreldri.

Lesa meira

28. nóv. 2023 : „Mig langaði til að taka þessa byrði og bera hana sjálf“

Rakel Ósk Þórhallsdóttir, eigandi vefverslunarinnar Central Iceland, hefur undanfarin þrjú ár stutt dyggilega við Bleiku slaufuna, en í heildina telur framlag hennar 7.385.000 kr. Rakel segir hér frá drifkraftinum á bak við verkefnið, en hún hefur persónulega tengingu við málstaðinn.

Lesa meira

23. nóv. 2023 : Fulltrúar Krabbameinsfélagsins á faraldsfæti

Um þessar mundir stendur Krabbameinsfélagið fyrir átaksverkefni sem miðar að því að fjölga í þeim góða hópi Velunnara sem styðja þétt við bakið á félaginu með mánaðarlegum framlögum. Í nóvember heimsækjum við Selfoss.

Lesa meira

Var efnið hjálplegt?