Anna Margrét Björnsdóttir 15. maí 2023

Nýr formaður Krabbameins­félagsins kjörinn á aðal­fundi

  • Hlif

Aðalfundur Krabbameinsfélagsins var haldinn 13. maí síðastliðinn í húsnæði félagsins að Skógarhlíð. Hlíf Steingrímsdóttir, blóðmeinafræðingur á Landspítala, var kjörin nýr formaður félagsins til tveggja ára. Félagið þakkar fráfarandi formanni, Valgerði Sigurðardóttur, hjartanlega fyrir vel unnin störf í þágu félagsins.

Nokkur endurnýjun varð í stjórn Krabbameinsfélagsins á vel sóttum aðalfundi félagsins laugardaginn 13. maí síðastliðinn. Valgerður Sigurðardóttir, formaður félagsins til sex ára, Magnús Gunnarsson, meðstjórnandi, og Gísli Álfgeirsson, varamaður, gáfu ekki kost á sér áfram til stjórnarstarfa. Í þeirra stað voru einróma kosin þau Hlíf Steinsgrímsdóttir, formaður félagsins til tveggja ára, Þráinn Þorvaldsson, meðstjórnandi, og Hlédís Sveinsdóttir, varamaður.

Nýr formaður félagsins

Hlíf Steingrímsdóttir lauk embættisprófi sem læknir frá Háskóla Íslands 1992 og stundaði í kjölfarið nám í lyf- og blóðlækningum við Karolínska sjúkrahúsið í Stokkhólmi. Hlíf starfar sem yfirlæknir þróunar dag- og göngudeilda á Landspítala, en hún er einnig varaformaður lyfjanefndar, auk þess að sinna klínísku starfi. Hún hefur áður verið yfirlæknir blóðlækningadeildar og framkvæmdastjóri lyflækningasviðs og aðgerðasviðs á Landspítala.

Hlif
Hlíf þekkir krabbameinsþjónustuna frá mörgum hliðum, bæði sem læknir og stjórnandi, en ekki síst sem aðstandandi. Hún þekkir vel þær áskoranir sem eru framundan varðandi fyrirséða fjölgun krabbameinstilvika á næstu árum og það er því mikill fengur fyrir Krabbameinsfélagið að fá hana í sínar raðir. Starfsfólk Krabbameinsfélagsins vill nýta tækifærið og óska nýjum formanni til hamingju með kjörið.

Þakkir til fráfarandi formanns

Um leið kveðjum við aðra öfluga konu, Valgerði Sigurðardóttur, lækni, sem setið hefur í stjórn félagsins frá árinu 2015, þar af sem formaður frá árinu 2017. Valgerður hefur fylgt félaginu í langan tíma en hún hefur einnig reynslu af því að vera bæði sjálfboðaliði og starfsmaður félagsins.

IMG_2884

Lífsgæði sjúklinga með alvarlega, illkynja sjúkdóma og þjónusta við mikið veika og deyjandi einstaklinga hafa verið Valgerði hjartans mál alla tíð. Í þeim málum hefur Valgerður verið óstöðvandi baráttukona og og hefur tekist með góðu samstarfi og óendanlegri seiglu að umbylta líknarþjónustu hér á landi.

Valgerður hefur brunnið fyrir málstað Krabbameinsfélagsins og sinnt hlutverkinu af hug og hjarta. Félagið þakkar Valgerði hjartanlega fyrir vel unnin störf í þágu félagsins undanfarin ár og óskar henni velfarnaðar í hverju því sem hún tekur sér fyrir hendur næst.

Ályktun um krabbameinsáætlun

Á aðalfundinum kynnti fráfarandi formaður félagsins ályktun um að skora á stjórnvöld að hefjast tafarlaust handa við að bregðast við fyrirsjáanlegri fjölgun krabbameinstilvika og lifenda með samhæfðum og markvissum hætti. Félagið lagði þar til að íslensk krabbameináætlun fengi sérstakan sess hjá heilbrigðisráðuneytinu og að unnið yrði að því að skýra, tímasetja, forgangsraða og fjármagna áætlunina. Ályktunin var samþykkt með lítilsháttar breytingum.

IMG_2849

Hinsta kveðja

Fundargestir minntust Jóhannesar Tómassonar, félaga í heiðursráði félagsins, sem lést úr krabbameini í lok október 2022. Jóhannes var kosinn í stjórn Krabbameinsfélagsins árið 1999 og var varaformaður félagsins til ársins 2007. Á sama tíma var hann formaður Krabbameinsfélags höfuðborgarsvæðisins. Jóhannes var kjörinn í heiðursráð Krabbameinsfélagsins árið 2011.

Nýtt aðildarfélag

Á fundinum var staðfest ákvörðun stjórnar um aðild Brakkasamtakanna að Krabbameinsfélagi Íslands. Brakkasamtökin voru stofnuð árið 2015 og hafa þann tilgang að gæta hagsmuna BRCA arfbera á Íslandi. Markmið samtakanna er að leitast við að efla fræðslu og rannsóknir á BRCA og veita arfberum og fjölskyldum þeirra nauðsynlega fræðslu og stuðning. Krabbameinsfélagið fagnar ákvörðun aðalfundarins um að staðfesta ákvörðun stjórnar og býður Brakkasamtökin velkomin í hópinn.

Picture1_1684937602667

Samfélagsviðurkenning veitt í annað sinn

Samfélagsviðurkenning Krabbameinsfélagsins var veitt í annað sinn á fundinum. Viðurkenninguna hlutu Valdimar Högni Róbertsson og RÚV fyrir alveg einstakt framlag til fræðslu um krabbamein með hlaðvarpsþættinum Að eiga mömmu og pabba með krabba.

IMG_2847

Þættirnir eru hugarfóstur Valdimars Högna, sem á sjálfur pabba sem greindist með krabbamein. Hugmynd hans um fræðsluefni fyrir börn fékk síðan frábærar viðtökur hjá RÚV, sem sýndu kjark með því að treysta Valdimar Högna fyrir því að framkvæma verkefnið. Úr varð sex þátta sería í umsjón Valdimars Högna, þar sem ýmsir sérfræðingar miðla þekkingu sinni til ungra aðstandenda fólks með krabbamein.

Nánari upplýsingar og fylgiskjöl má nálgast á síðu aðalfundarins.


Fleiri nýjar fréttir

16. apr. 2024 : Krabba­meins­skráning á Íslandi í 70 ár - Afmælis­málþing

Í tilefni af 70 ára afmæli krabbameinsskráningar á Íslandi býður Krabbameinsfélagið til afmælismálþings.

Lesa meira

16. apr. 2024 : Með þínum stuðningi getum við gert svo ótal margt!

Krabbameinsfélagið þakkar öllum þeim fjölmörgu sem lögðu félaginu lið í Mottumars, árverkni- og fjáröflunarátaki félagsins, í ár. Við erum hrærð yfir þeirri velvild, samkennd og hlýju sem við fundum svo vel fyrir. Öll starfsemi félagsins er rekin fyrir sjálfsaflafé og því er stuðningur almennings og fyrirtækja forsenda fyrir starfinu.

Lesa meira

12. apr. 2024 : Saga Ómars Einarssonar

Ómar fékk krabbamein í háls, árið 2008, á sama tíma og Geir H. Haarde blessaði Ísland. Hann var geislaður í upphafi og síðar skorinn. Í framhaldinu var honum bent á að hitta Ragnar Davíðsson, formann félagsins Ný rödd, sem er eitt af aðildarfélögum Krabbameinsfélagsins. Ragnar hafi hjálpað sér og öðrum mikið.

Lesa meira

8. apr. 2024 : Frábær þátttaka í Skegg­keppni Mottu­mars 2024

Þátttakendur í Skeggkeppni Krabbameinsfélagsins þetta árið voru 360 talsins og alls söfnuðust rétt rúmlega 7,3 milljónir króna. Krabbameinsfélagið þakkar öllum þeim sem tóku þátt og öllum sem styrktu.

Lesa meira

25. mar. 2024 : Saga Sigurgeirs Líndal Ingólfssonar

Sigurgeir segir að fræðslan og kynningin í kringum Mottumars sé þýðingarmikil og hafi ýtt við honum þegar einkenni gerðu vart við sig og gert það að verkum að hann fór til læknis. Einkennin voru ekki ólík þvagfærasýkingu en það var einmitt svarið sem hann fékk fyrst þegar hann leitaði sér hjálpar.

Lesa meira

Var efnið hjálplegt?