Ása Sigríður Þórisdóttir 2. des. 2022

Nýju Notendaráði ætlað að vísa veginn

Yfir 150 manns hafa skráð sig í nýtt Notendaráð Krabbameinsfélagsins á innan við sólarhring. Við erum afar þakklát yfir móttökunum og félagið bindur miklar vonir við ráðið og væntir þess að fá mikilvægar upplýsingar frá þeim sem reynsluna hafa. Með þátttöku gefst fólki tækifæri til að nýta sína reynslu öðrum til góða.

Eitt af hlutverkum Krabbameinsfélagsins er að gæta hagsmuna þeirra sem veikjast af krabbameinum og aðstandenda þeirra. Í þeirri hagsmunagæslu er afar mikilvægt að miðla reynslu þeirra sem hafa fengið krabbamein og aðstandenda og tryggja að sýn og rödd þeirra heyrist. Til að geta sinnt þessu hlutverki enn betur hefur félagið nú sett á stofn Notendaráð Krabbameinsfélagsins. Með þátttöku í því gefst fólki gott tækifæri til að nýta sína reynslu öðrum til góða.

Í Notendaráðinu er fólk sem hefur fengið krabbamein, aðstandendur og fólk sem hefur misst ástvin úr krabbameinum. Þátttakan felst í að svara spurningum nokkrum sinnum á ári um ýmis mál sem tengjast krabbameinum. Þátttakendur svara út frá sinni eigin reynslu, hún er það eina sem skiptir máli í þessu samhengi. Svörin eru ópersónugreinanleg.

„Við hjá Krabbameinsfélagsinu bindum miklar vonir við Notendaráðið og væntum þess að þar fái félagið mikilvægar upplýsingar frá þeim sem reynsluna hafa. Félagið mun gera allt sem það getur til að hún nýtist sem best. Í Danmörku hefur Notendaráðið orðið að miklu gagni segir Halla Þorvaldsdóttir, framkvæmdastjóri Krabbameinsfélagsins.“

Spurningar til Notendaráðsins geta verið af fjölbreyttu tagi en eru allar til þess að varpa betra ljósi á stöðu mála og vinna að úrbótum. Sem dæmi má nefna spurningar um aðbúnað, kostnað og biðtíma.

Frekari upplýsingar um Notendaráðið er að finna á www.krabb.is/notendarad og þar skráir fólk sig einnig til þátttöku. Krabbameinsfélagið hvetur fólk eindregið til að skrá sig í ráðið og hlakkar til samstarfsins. 


Fleiri nýjar fréttir

23. jan. 2023 : Vilt þú taka þátt í undir­búningi Styrk­leik­anna?

Styrkleikarnir verða haldnir í annað sinn á Selfossi laugardaginn 29. apríl til sunnudagsins 30. apríl. Styrkleikarnir snúast um að styðja við, heiðra eða minnast þeirra sem hafa fengið krabbamein.

Lesa meira

5. jan. 2023 : Laust starf: Viltu hafa áhrif til góðs?

Til að ná enn meiri árangri í starfi félagsins viljum við fjölga í öflugu teymi sérfræðinga okkar og efla kynningar- og fræðslustarf félagsins enn frekar og auglýsum eftir sérfræðingi í miðlun. Við leitum að metnaðarfullum, drífandi og sjálfstæðum einstaklingi sem brennur fyrir að ná árangri í starfi, fólkinu í landinu til heilla.

Lesa meira

5. jan. 2023 : Er ekki langt síðan þú fórst í vísindaferð? Nú er komið að því!

Krabbameinsfélagið býður heilbrigðisstarfsfólki í vísindaferð, fimmtudaginn 12. janúar kl. 16:30 – 18:00 í húsi félagsins í Skógarhlíð 8.  

Lesa meira

3. jan. 2023 : Reyklaust nýtt ár

Innan Krabbameinsfélagsins er áratuga reynsla af stuðningi við fólk sem vill hætta að reykja. Hægt er að bóka ókeypis samtal við sérfræðinga í reykbindindi, bæði á íslensku, pólsku og ensku. 

Lesa meira

3. jan. 2023 : Bláa Lónið styrkir Vísinda­sjóð Krabba­meins­fé­lagsins

Í ár studdi Bláa Lónið Krabbameinsfélagið með þátttöku í átaksverkefnunum Mottumars og Bleiku slaufunni. Líkt og fyrri ár rann hluti af sölu sturtugels Bláa Lónsins í mars og varasalvans í október, til Vísindasjóðs Krabbameinsfélagsins.

Lesa meira

Var efnið hjálplegt?