Laufey Tryggvadóttir framkv.stj. Krabbameinsskráar 27. maí 2016

Nýgengi krabbameina og dánartíðni að lækka

  • Starfsfólk Krabbameinsskráarinnar
    Starfsfólk Krabbameinsskráarinnar

Baráttan gegn krabbameinum ber árangur

Frá því að Krabbameinsfélag Íslands hóf að skrá öll krabbamein á Íslandi og fram undir árið 2010 var stöðug hækkun á nýgengi krabbameina þegar horft er á öll mein saman, þótt talsverðar breytingar í báðar áttir hafi verið á sumum meinum. Dæmi um slíkar breytingar eru hratt lækkandi tíðni magakrabbameins en hins vegar hækkandi tíðni krabbameina í lungum, brjóstum og blöðruhálskirtli.

Lækkun í nýgengi krabbameina beggja kynja

Nú má merkja jákvæða þróun í heildartíðni nýgengis krabbameina. Hjá körlum stöðvaðist hækkunin fyrir um það bil sex árum og hefur tíðnin farið lækkandi síðan þá. Hjá konum hefur tíðnin staðið í stað frá aldamótum en merkja má lækkun á allra síðustu árum. Mikilvægar vísbendingar eru því um að þróun nýgengis krabbameina sé loksins að færast í rétta átt.

Dánartíðni beggja kynja lækkar líka

Dánartíðni af völdum krabbameina var aftur á móti nokkuð stöðug frá upphafi og fram til ársins 2000. Hér eru líka góðar fréttir því frá aldamótum hefur dánartíðnin lækkað umtalsvert hjá báðum kynjum.

Linuritnygengni

Myndin sýnir breytingar á nýgengi og dánartíðni fyrir öll mein saman, skipt eftir kynjum. Með aldursstöðlun hefur verið leiðrétt fyrir breytingum á aldurssamsetningu þjóðarinnar og eru tölurnar sýndar sem fimm ára hlaupandi meðaltöl.

Krabbameinsskrá Krabbameinsfélagsins hefur frá árinu 1954 safnað upplýsingum um öll krabbamein sem greinast hjá þjóðinni en upplýsingar um dánarmein komu frá Hagstofu Íslands og Embætti landlæknis.

Orsakir lækkandi nýgengis og dánartíðni

Að sögn Laufeyjar Tryggvadóttur framkvæmdastjóra Krabbameinsskrár má rekja stærstan hluta ofanskráðrar lækkunar á dánartíðni hjá konum til þriðjungs lækkunar á dánartíðni af völdum brjóstakrabbameins síðustu 20 árin. Brjóstakrabbamein er langalgengasta krabbamein kvenna. Þennan góða árangur má bæði rekja til leitarstarfs Krabbameinsfélagsins og til stórstígra framfara í meðferð við  brjóstakrabbameini. Þetta er gott dæmi um það hverju verður áorkað hjá lítilli þjóð fyrir tilstilli hugsjónastarfs félagasamtaka og hágæða heilbrigðisþjónustu sem nær jafnt til alla þegna þjóðfélagsins. Til viðbótar við brjóstakrabbameinið má einnig sjá nokkra lækkun á dánartíðni af völdum fleiri meina, sérstaklega krabbameina í eggjastokkum og ristli.

Hjá körlum munar mest um 20% lækkun á dánartíðni af völdum krabbameina í lungum og blöðruhálskirtli, en þessi tvö mein eru langstærstu skaðvaldarnir af krabbameinum hjá körlum. Hinn góða árangur varðandi lungnakrabbameinið má þakka áratugalöngu öflugu tóbaksvarnastarfi hjá Krabbameinsfélaginu og Hjartavernd og jafnframt síðustu ár hjá Lýðheilsustöð og Embætti Landlæknis. Stærstan hluta lækkandi dánartíðni af völdum krabbameins í blöðruhálskirtli má væntanlega skýra með hinni miklu aukningu undanfarinna áratuga á skurðaðgerðum þar sem meinið er fjarlægt með því að nema kirtilinn á brott.

Nánari upplýsingar veitir Laufey Tryggvadóttir, framkvæmdastjóri Krabbameinsskrár Krabbameinsfélags Íslands í síma 690 3766 eða á netfangið laufeyt@krabb.is.

 


Fleiri nýjar fréttir

20. sep. 2023 : Beint streymi: Málþing í tilefni alþjóða­dags krabba­meins­rannsókna

„Varðar mig eitthvað um krabba­meins­rann­sóknir? Já, því vísindin eru leiðin fram á við”. Þannig hljómar titill málþings sem Krabba­meins­félagið býður til í tilefni alþjóða­dags krabba­meins­rann­sókna fimmtu­daginn 21. september kl. 16:30 í húsnæði félagsins að Skógarhlíð 8.

Lesa meira

12. sep. 2023 : Bleika slaufan 2023: Komdu að leika

Krabbameinsfélagið leitar að fólki til að hjálpa okkur að búa til auglýsinguna fyrir Bleiku Slaufuna 2023. Auglýsingin er með stærra sniði í ár og þurfum við því aðstoð sem allra flestra.

Lesa meira

7. sep. 2023 : Tryggðu þér miða

Nú styttist í Bleiku slaufuna árlegt fjáröflunar- og árvekniátak Krabbameinsfélagsins, tileinkað baráttunni gegn krabbameinum hjá konum. Tryggðu þér miða á opnunarviðburðinn sem verður í Þjóðleikhúsinu 28. september.

Lesa meira

5. sep. 2023 : „Ef ég held röddinni þá læt ég reyna á þetta“

Ljóðskáldið og rithöfundurinn Anton Helgi Jónsson stóð fyrir einstökum viðburði á Menningarnótt og safnaði um leið áheitum til styrktar Krabbameinsfélaginu. Viðburðurinn fékk heitið Ljóðamaraþon og gekk út á ljóðalestur undir berum himni í jafn langan tíma og sem nemur heimsmeti í maraþonhlaupi, eða í rúma tvo klukkutíma. Anton Helgi segir hér frá krabbameininu sem uppgötvaðist fyrir tilviljun, kirkjuskáldum og kráarskáldum og öðruvísi maraþonundirbúningi.

Lesa meira

5. sep. 2023 : Upplýsingafundur fyrir samstarfsaðila Bleiku slaufunnar

Vill þitt fyrirtæki vera samstarfsaðili Bleiku slaufunnar? Komdu á upplýsingafund sem haldinn verður í húsnæði Krabbameinsfélagsins 8. september nk. 

Lesa meira

Var efnið hjálplegt?