Anna Margrét Björnsdóttir 30. mar. 2023

Ný reiknivél veitir upplýsingar um áhættu­flokk blöðru­háls­kirtils­meina

Í dag birtist á vef Krabbameinsfélagsins í fyrsta sinn reiknivél sem einstaklingar sem greindir hafa verið með blöðruhálskirtilskrabbamein geta notað til að reikna áhættuflokk meinsins. Verkefnið er unnið í samvinnu Rannsókna- og skráningarseturs Krabbameinsfélagsins og þvagfæraskurðlækna Landspítalans.

Blöðruhálskirtilskrabbamein er algengasta krabbameinið hjá körlum á Íslandi. Mikill breytileiki er á því hversu hratt æxli í blöðruhálskirtlinum vaxa, stundum getur krabbameinið vaxið hratt og dreift sér til annarra líffæra en algengara er að meinið vaxi hægt. Horfur sjúklings með krabbamein í blöðruhálskirtli eru háðar útbreiðslu krabbameinsins.

Blöðruhálskirtilskrabbameinum er skipt í áhættuflokka þar sem hver áhættuflokkur hefur mismunandi horfur. Áhættuflokkarnir eru ákvarðaðir út frá útbreiðslu æxlis, Gleason-stigi og PSA-gildi í blóðprufu. Meðferð við sjúkdómnum er svo ákveðin út frá áhættuflokk og heilsufari sjúklings.

Virkir þátttakendur í sinni meðferð

Því betri upplýsingum sem sjúklingar hafa aðgang að, þeim mun betri möguleika hafa þeir á að taka meðvitaðar ákvarðanir og vera virkir þátttakendur í sinni meðferð. Sjúklingar fá ekki allir upplýsingar um hvaða áhættuflokki þeir tilheyra, en flestir fá upplýsingar um útbreiðslu æxlis (stigun), PSA-gildi og Gleason-stig.

Með því setja þessar upplýsingar inn í nýju reiknivélina geta þeir séð hvaða áhættuflokki þeirra mein tilheyrir. Þegar áhættuflokkur hefur verið reiknaður er hægt að velja viðeigandi áhættuflokk á stiku til vinstri (Alvarleiki sjúkdóms) og skoða upplýsingar um til dæmis fyrstu meðferð og eftirfylgd viðkomandi áhættuflokks.

Reiknivélina má nálgast á heimasíðu Krabbameinsfélagsins , en þar er einnig að finna ýmsa tölfræði um greiningu, meðferð og eftirfylgd blöðruhálskirtilskrabbameins sem unnin er út frá upplýsingum frá gæðaskrá blöðruhálskirtilskrabbameins.

Hvað er PSA-gildi?

PSA (prostate-specific antigen) er mótefnavaki sem blöðruhálskirtillinn gefur frá sér. Hátt PSA-gildi getur gefið til kynna að krabbamein sé í blöðruhálskirtlinum. Hins vegar geta karlar með lágt PSA-gildi haft blöðruhálskirtilskrabbamein og PSA getur hækkað við aðra sjúkdóma eins og bólgur eða góðkynja stækkun á blöðruhálskirtli og þess vegna er ekki hægt að styðjast eingöngu við PSA-gildi við greiningu á blöðruhálskirtilskrabbameini.

Hvað er Gleason-stig?

Ef skoðun eða PSA-próf bendir til sjúkdómsins ráðleggur læknir sýnatöku. Mörg lítil sýni eru tekin frá kirtlinum sem meinafræðingur skoðar undir smásjá og gefur æxlinu svokallað Gleason-stig sem er á bilinu 2 til 10. Lágt Gleason-stig þýðir að krabbameinsfrumurnar líkjast eðlilegum blöðruhálskirtilsfrumum og þá er æxlið ólíklegra til að dreifa sér til annarra líffæra. Hátt Gleason-stig þýðir að krabbameinsfrumurnar eru mjög ólíkar eðlilegum frumum og líklegri til að dreifa sér.


Fleiri nýjar fréttir

16. apr. 2024 : Krabba­meins­skráning á Íslandi í 70 ár - Afmælis­málþing

Í tilefni af 70 ára afmæli krabbameinsskráningar á Íslandi býður Krabbameinsfélagið til afmælismálþings.

Lesa meira

16. apr. 2024 : Með þínum stuðningi getum við gert svo ótal margt!

Krabbameinsfélagið þakkar öllum þeim fjölmörgu sem lögðu félaginu lið í Mottumars, árverkni- og fjáröflunarátaki félagsins, í ár. Við erum hrærð yfir þeirri velvild, samkennd og hlýju sem við fundum svo vel fyrir. Öll starfsemi félagsins er rekin fyrir sjálfsaflafé og því er stuðningur almennings og fyrirtækja forsenda fyrir starfinu.

Lesa meira

12. apr. 2024 : Saga Ómars Einarssonar

Ómar fékk krabbamein í háls, árið 2008, á sama tíma og Geir H. Haarde blessaði Ísland. Hann var geislaður í upphafi og síðar skorinn. Í framhaldinu var honum bent á að hitta Ragnar Davíðsson, formann félagsins Ný rödd, sem er eitt af aðildarfélögum Krabbameinsfélagsins. Ragnar hafi hjálpað sér og öðrum mikið.

Lesa meira

8. apr. 2024 : Frábær þátttaka í Skegg­keppni Mottu­mars 2024

Þátttakendur í Skeggkeppni Krabbameinsfélagsins þetta árið voru 360 talsins og alls söfnuðust rétt rúmlega 7,3 milljónir króna. Krabbameinsfélagið þakkar öllum þeim sem tóku þátt og öllum sem styrktu.

Lesa meira

25. mar. 2024 : Saga Sigurgeirs Líndal Ingólfssonar

Sigurgeir segir að fræðslan og kynningin í kringum Mottumars sé þýðingarmikil og hafi ýtt við honum þegar einkenni gerðu vart við sig og gert það að verkum að hann fór til læknis. Einkennin voru ekki ólík þvagfærasýkingu en það var einmitt svarið sem hann fékk fyrst þegar hann leitaði sér hjálpar.

Lesa meira

Var efnið hjálplegt?