Anna Margrét Björnsdóttir 30. mar. 2023

Ný reiknivél veitir upplýsingar um áhættu­flokk blöðru­háls­kirtils­meina

Í dag birtist á vef Krabbameinsfélagsins í fyrsta sinn reiknivél sem einstaklingar sem greindir hafa verið með blöðruhálskirtilskrabbamein geta notað til að reikna áhættuflokk meinsins. Verkefnið er unnið í samvinnu Rannsókna- og skráningarseturs Krabbameinsfélagsins og þvagfæraskurðlækna Landspítalans.

Blöðruhálskirtilskrabbamein er algengasta krabbameinið hjá körlum á Íslandi. Mikill breytileiki er á því hversu hratt æxli í blöðruhálskirtlinum vaxa, stundum getur krabbameinið vaxið hratt og dreift sér til annarra líffæra en algengara er að meinið vaxi hægt. Horfur sjúklings með krabbamein í blöðruhálskirtli eru háðar útbreiðslu krabbameinsins.

Blöðruhálskirtilskrabbameinum er skipt í áhættuflokka þar sem hver áhættuflokkur hefur mismunandi horfur. Áhættuflokkarnir eru ákvarðaðir út frá útbreiðslu æxlis, Gleason-stigi og PSA-gildi í blóðprufu. Meðferð við sjúkdómnum er svo ákveðin út frá áhættuflokk og heilsufari sjúklings.

Virkir þátttakendur í sinni meðferð

Því betri upplýsingum sem sjúklingar hafa aðgang að, þeim mun betri möguleika hafa þeir á að taka meðvitaðar ákvarðanir og vera virkir þátttakendur í sinni meðferð. Sjúklingar fá ekki allir upplýsingar um hvaða áhættuflokki þeir tilheyra, en flestir fá upplýsingar um útbreiðslu æxlis (stigun), PSA-gildi og Gleason-stig.

Með því setja þessar upplýsingar inn í nýju reiknivélina geta þeir séð hvaða áhættuflokki þeirra mein tilheyrir. Þegar áhættuflokkur hefur verið reiknaður er hægt að velja viðeigandi áhættuflokk á stiku til vinstri (Alvarleiki sjúkdóms) og skoða upplýsingar um til dæmis fyrstu meðferð og eftirfylgd viðkomandi áhættuflokks.

Reiknivélina má nálgast á heimasíðu Krabbameinsfélagsins , en þar er einnig að finna ýmsa tölfræði um greiningu, meðferð og eftirfylgd blöðruhálskirtilskrabbameins sem unnin er út frá upplýsingum frá gæðaskrá blöðruhálskirtilskrabbameins.

Hvað er PSA-gildi?

PSA (prostate-specific antigen) er mótefnavaki sem blöðruhálskirtillinn gefur frá sér. Hátt PSA-gildi getur gefið til kynna að krabbamein sé í blöðruhálskirtlinum. Hins vegar geta karlar með lágt PSA-gildi haft blöðruhálskirtilskrabbamein og PSA getur hækkað við aðra sjúkdóma eins og bólgur eða góðkynja stækkun á blöðruhálskirtli og þess vegna er ekki hægt að styðjast eingöngu við PSA-gildi við greiningu á blöðruhálskirtilskrabbameini.

Hvað er Gleason-stig?

Ef skoðun eða PSA-próf bendir til sjúkdómsins ráðleggur læknir sýnatöku. Mörg lítil sýni eru tekin frá kirtlinum sem meinafræðingur skoðar undir smásjá og gefur æxlinu svokallað Gleason-stig sem er á bilinu 2 til 10. Lágt Gleason-stig þýðir að krabbameinsfrumurnar líkjast eðlilegum blöðruhálskirtilsfrumum og þá er æxlið ólíklegra til að dreifa sér til annarra líffæra. Hátt Gleason-stig þýðir að krabbameinsfrumurnar eru mjög ólíkar eðlilegum frumum og líklegri til að dreifa sér.


Fleiri nýjar fréttir

Sol-og-solarvarnir-frettabref-1-

17. maí 2024 : Fréttabréf maí mánaðar

Sólin er umræðuefni fréttabréfs maí mánaðar. Við tökum fyrir sólarvarnir og hve miklu máli þær skipta fyrir alla, þó sérstaklega börnin. Þá ræðum við húðkrabbamein sem og ráð fyrir þau sem eru með krabbamein í sumarfríinu.

Lesa meira

16. maí 2024 : Styrkir til gæða­verkefna og vísinda­rannsókna í heil­brigðis­þjónustu

Auglýst er eftir umsóknum um styrki í Minningarsjóð um hjónin Bergþóru Magnúsdóttur og Jakob Júlíus Bjarnason.

Lesa meira

8. maí 2024 : Málþing: Stöðluð greiningar- og meðferðarferli, allt frá því að grunur vaknar um krabbamein

Myndi innleiðing slíkra ferla hér á landi hjálpa til við að takast á við þær áskoranir sem fylgja krabbameinum í framtíðinni? 

Lesa meira

7. maí 2024 : „Kíkjugataaðgerð“ við lungnakrabbameini styttir legutíma um helming

Vísindasjóður Krabbameinsfélags Íslands styrkti rannsóknina. Árangur blaðnámsaðgerða með aðstoð brjóstholssjár við lungnakrabbameini. Niðurstöðurnar sýna að á ekki stærra sjúkrahúsi en Landspítala er hægt er að taka upp tæknilega flókna skurðaðgerð án þess að slegið sé af kröfum um öryggi. Þannig lifðu allir sjúklingarnir aðgerðina af en færri fylgikvillar og minni verkir styttu legutíma um helming. 

Lesa meira

24. apr. 2024 : Fundarboð: Aðal­fundur Krabba­meins­félagsins

Hér með er boðað til aðalfundar Krabbameinsfélagsins sem fer fram laugardaginn 25. maí kl. 13 í húsnæði félagsins að Skógarhlíð 8, Reykjavík.

Lesa meira

Var efnið hjálplegt?