Ása Sigríður Þórisdóttir 16. júl. 2021

Ný dagdeild blóð- og krabbameinslækninga er nauðsyn!

Krabbameinsfélagið vill leggja sitt af mörkum til að skapa fyrsta flokks aðstöðu eins fljótt og auðið er. Félagið er tilbúið að leggja verulegt fjármagn til að bylta aðstöðu deildarinnar að því gefnu að stjórnvöld leggist á árar með félaginu og Landspítala.

Þeir sem fá lyfjameðferð við krabbameinum fá hana flestir á dagdeild blóð- og krabbameinslækninga á Landspítala.

https://www.youtube.com/watch?v=U0bfJxO-pZE  
Krabbameinsfélagið hefur lengi haft áhyggjur af aðstöðuleysi deildarinnar, sem hefur fyrir löngu sprengt utan af sér húsnæðið, og áhrif þess á þá sem fá og veita meðferð. Fulltrúar Landspítalans deila þeirri skoðun félagsins að vandinn er mjög aðkallandi. Íslensku þjóðinni fjölgar og aldurssamsetning hennar breytist. Með hækkandi aldri fjölgar krabbameinum. Á næstu 20 árum mun komum á dag- og göngudeild því fjölga um 40 - 50%.

Aðkoma Krabbameinsfélagsins
Krabbameinsfélagið vill leggja sitt af mörkum til að skapa fyrsta flokks aðstöðu eins fljótt og auðið er. Félagið er tilbúið að leggja verulegt fjármagn til að bylta aðstöðu deildarinnar að því gefnu að stjórnvöld leggist á árar með félaginu og Landspítala.

Krabbameinsfélagið hefur sett upp verkefnasíðu til að upplýsa um mikilvægi verkefnisins, kynna hugmynd og tillögu Landspítala að lausn sem er tiltölulega einföld í framkvæmd ef stjórnvöld taka undir með Krabbameinsfélaginu og Landspítalanum og hrinda verkefninu af stað.

Vandann verður að leysa og lausnin er til
Krabbameinsfélagið hefur átt í viðræðum við Landspítala í eitt og hálft ár vegna málsins. Landspítali hefur mótað hugmynd að framtíðarlausn. Lausnin sem felst í viðbyggingu við K-byggingu LSH passar vel við staðsetningu annarrar þjónustu við fólk með krabbamein á spítalanum. Samkvæmt hugmyndinni er hægt að leysa úr brýnum vanda á aðeins þremur árum.

Stjórnvöldum er kunnugt um vandann
Í íslensku krabbameinsáætluninni kemur fram að:

  • „Þjónustu við einstaklinga með krabbamein er ógnað vegna skorts á mannafla og fullnægjandi aðbúnaði.”
  • „Húsnæði legu-, dag- og göngudeilda er úr sér gengið, of lítið fyrir nauðsynlega þjónustu og víðast skortur á einrými ásamt viðunandi aðstöðu sem mætir öryggi sjúklinga. Setja verður þessa stöðu í samhengi við þá staðreynd að fjölgun nýgreindra einstaklinga með krabbamein er fyrirsjáanleg”.
  • „Aðstaða er talin langt undir ásættanlegum mörkum, einkum vegna þröngra og að öðru leyti úreltra húsakynna á bæði legu-, dag- og göngudeildum. Skortur á viðeigandi húsnæði hamlar einnig þróun dag- og göngudeildarþjónustu.”

Krabbameinsfélagið hefur kynnt málið fyrir heilbrigðisráðherra, fjármálaráðherra og velferðarnefnd Alþingis og upplýst að félagið sé tilbúið að leggja allt að 450 mkr. til að bylta aðstöðunni að því gefnu að stjórnvöld setji verkefnið í forgang.

Málið er brýnt hagsmunamál fyrir alla landsmenn. Einn af hverjum þremur Íslendingum getur vænst þess að greinast með krabbamein á lífsleiðinni. Hinir eru flestir aðstandendur.

Krabbameinsfélagið skorar á stjórnvöld að sýna vilja í verki í þessu brýna hagsmunamáli og bregðast skjótt við.

 


Fleiri nýjar fréttir

15. okt. 2021 : Bleiki dagurinn er í dag

Við finnum fyrir mikilli stemmningu í samfélaginu fyrir deginum og til að mynda hafa fjölmörg fyrirtæki komið við hjá okkur og keypt slaufur, sokka, fánalengjur, blöðrur og servíettur fyrir Bleika kaffið.

Lesa meira

14. okt. 2021 : VERUM TIL - mál­þing um brjósta­krabba­mein

Bleikt málþing um brjóstakrabbamein fer fram miðvikudaginn 20. október 2021 kl. 17:00-18:15 á vegum Brjóstaheilla – Samhjálpar kvenna,Krabbameinsfélags höfuðborgarsvæðisins og Ráðgjafarþjónustu Krabbameinsfélagsins. 

Lesa meira
Halla Þorvaldsdóttir

14. okt. 2021 : Lífið breytir um lit

Bleikur október er runninn upp. Það er táknrænt að skipta um lit í október, í mánuðinum sem helgaður er krabbameinum hjá konum, því oftar en ekki er það líkast því að lífið skipti um lit þegar fólk greinist með krabbamein.

Lesa meira

6. okt. 2021 : Þekkja Íslendingar áhættuþætti krabbameina?

Það er áhyggjuefni að einungis um helmingur þátttakenda taldi ofþyngd, mataræði, hreyfingarleysi og áfengisneyslu auka líkur á krabbameinum. Gefa þessar niðurstöður tilefni til aukinnar fræðslu og umræðu um áhættuþætti krabbameina og möguleika á forvörnum. 

Lesa meira

5. okt. 2021 : Takk fyrir að VERA TIL

Það er óhætt að segja að mikil stemming hafi ríkt á Bíókvöldi Bleiku slaufunnar sem haldið var í Háskólabíói þann 30. september. Kvöldið markaði upphaf Bleiku slaufunnar í ár. 

Lesa meira

Var efnið hjálplegt?