#5 - Þekkjum einkennin: Sár sem ekki grær, fæðingarblettir, þykkildi og hnútar
Vissir þú að því fyrr sem krabbamein greinist, því líklegra er að meðferð beri árangur?
Þessi einkenni geta verið til marks um krabbamein:
- Sár sem ekki grær, til dæmis í munni eða á kynfærum
- Nýir fæðingarblettir eða breytingar á blettum, til dæmis á stærð, lögun eða lit
- Þykkildi eða hnútar, til dæmis í pung, brjósti, á hálsi, tungu, handarkrika eða í nára
Einkennin geta einnig stafað af öðru en krabbameini en mikilvægt er að fá úr því skorið hjá lækni.
Fræðsla og forvarnir
Fræðslu- og forvarnadeild
Krabbameinsfélags Íslands heldur utan um fjölbreytt fræðsluefni um krabbamein
og miðlar því til almennings og sérstakra hópa með fjölbreyttum hætti. Deildin
vinnur náið með öðrum deildum félagsins að skilgreindum verkefnum. Meðal annars
má nefna öflugt samstarf við kynningar- og fjáröflunardeildir í tengslum við
fjáröflunarátökin Mottumars og Bleiku slaufuna og við Ráðgjafarþjónustuna í
tengslum við námskeið og kynningarefni fyrir fólk sem greinst hefur með
krabbamein og aðstandendur þeirra. Einnig kemur deildin að undirbúningi rannsókna og kannana sem snúa meðal
annars að upplifun krabbameinssjúklinga af þeirri þjónustu sem þeir fá í
heilbrigðiskerfinu og þekkingu almennings á áhrifaþáttum krabbameina.
Deildin leggur sérstaka áherslu á krabbameinsforvarnir og þá sex lykilþætti sem taldir eru áhrifaríkastir til forvarna: tóbaks-, áfengis- og sólvarnir, hreyfingu, hollt mataræði og heilbrigða líkamsþyngd.
„Starfið er afar fjölbreytt og krefst þess að við fylgjumst náið með þekkingarþróun á breiðu sviði. Til að miðla efninu nýtum við okkur heimasíðu og samfélagsmiðla, höldum fyrirlestra og tökum þátt í viðburðum. Við bjóðum vinnustöðum, félagssamtökum og öðrum hópum að fá til sín fyrirlestra þeim að kostnaðarlausu,“ segir Birna Þórisdóttir, sérfræðingur í fræðslu- og forvarnardeild.
Helstu fyrirlestrarnir fjalla um lífsstíl sem krabbameinsforvörn, einkenni krabbameina, ráð til samstarfsfólks og stjórnenda þegar vinnufélagi greinist með krabbamein og mataræði í veikindum. Þá er boðið upp á fyrirlestra með sérstakan karlafókus í tengslum við Mottumars og kvennafókus í tengslum við Bleiku slaufuna.